Breytingatillaga #60

Við 36. grein. Alþingiskosningar

Flytjendur:
  • Silja Bára Ómarsdóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Reglur um kosningar verði að mestu leyti settar í almenn lög og í stjórnarskrá verði aðeins vísað til grundvallarreglna eins og leynilegra kosninga, kosningaréttar, jafns vægis atkvæða, jafnræðis milli kynja og landshluta, og takmörkunum á breytingum.

Á Alþingi eiga sæti að hámarki 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára.

Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri á því ári þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Einnig þeir erlendu ríkisborgarar sem hafa verið með lögheimili á Íslandi samfellt í fimm ár hið minnsta.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Nánari reglur um framkvæmd alþingiskosningar og úthlutun þingsæta skulu settar í kosningalögum. Í þeim skal tiltaka hvernig stuðla skal að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla, sem og fulltrúum landshluta.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi. Lög eða breytingar á lögum um þessi ákvæði mega ekki koma til framkvæmda fyrr en sex mánuðum eftir að þau hafa tekið gildi. Sama gildir um lög um forsetakosningar, þjóðaratkvæðagreiðslur og kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við á.

 

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.

Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi velur frambjóðendur af kjördæmislista eða landslista sömu samtaka, eða af þeim báðum. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við annan listann og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að kjósandi geti valið frambjóðendur af listum fleiri en einna samtaka.

Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þau samtök koma ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.

Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll þingsætin.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

Skýringar:

Tilgangur þessarar tillögu er að kosningakafli stjórnarskrárinnar sé stuttur og kjarnyrtur og aðgengilegur jafn leikum sem lærðum. Löggjafanum er falið að útfæra kerfið, með þau meginsjónarmið að jafn réttur allra landsmanna sé tryggður.


1. mgr. byggir á ákvæði í núgildandi stjórnarskrá. Fjöldi þingmanna ekki festur við 63 þingmenn, heldur er löggjafanum gert kleift að fækka þingmönnum, þyki ástæða til.

2. mgr. víkkar nokkuð út þann hóp sem hefur kosningarrétt við kosningar til Alþingis. Annars vegar er öllum árgangi yngstu kjósenda hleypt að kjörkössunum; þ.e. að allir þeir sem verða 18 ára á því ári sem kosningar fara fram hafi kosningarrétt. Þar sem kosningar eru að jafnaði á miðju ári, þá má gera ráð fyrir því að u.þ.b. hálfur árangur bætist í hóp kjósenda frá því sem nú er. Auk þess að vera nokkuð sanngirnismál, þá má telja þetta góða leið til að efla lýðræðislega þátttöku og stjórnmálaáhuga hjá ungu fólki. Jafnframt er lagt til að erlendir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár hið minnsta njóti kosningaréttar, til samræmis við þær reglur sem gilda um kosningar til sveitarstjórna. Þetta má einnig telja sanngirnismál, þar sem stór hópur fólks, sem greiðir gjöld og skatta í sameiginlega sjóði samfélagsins, nýtur ekki þeirra sjálfsögðu mannréttinda að kjósa fulltrúa til að úthluta fé úr þeim sjóðum.

Ætla má að kjörstofn gæti að jafnaði stækkað um 8000 einstaklinga með þessari breytingu, miðað við að meðalárgangur ungra kjósenda telur um 4-5000 einstaklinga og að 4500 einstaklingar með erlent ríkisfang höfðu kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum 2010.

3. mgr. er samhljóða tillögu C-nefndar. Hér þarf ef til vill að skoða hvort kveða þurfi á um einhverja hámarksskekkju, líkt og gert er í 1. mgr. 9. gr laga 24/2000 um kosningar til Alþingis, með vísan til 5. mgr. 31. gr. núgildandi stjórnarskrár. Þó má búast við því að 3. mgr., sé hún lesin í samhengi við 4. mgr. tillögunnar, girði á fullnægjandi hátt fyrir ójöfnuð á grundvelli búsetu.

4. mgr. kveður á um að Alþingi skuli í lögum útfæra framkvæmd kosninga. Þá eru talin tvö jafnréttissjónarmið, sem sérstaklega þarf að líta til; annars vegar að kosningakerfið endurspegli á sanngjarnan hátt dreifingu í búsetu landsmanna, hins vegar að kerfið komi í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis.

5. mgr. Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi. Óbreytt málsgrein frá núverandi stjórnarskrá. Síðasti málsliður er nýr og tekur til þess að ekki megi gera breytingar á kosningalöggjöf skömmu fyrir kosningar, enda gæti þannig sitjandi löggjafarþing breytt löggjöf þannig að nýjum framboðum yrði gert erfiðara um vik að ná kjöri.