Breytingatillaga #59

Við 36. grein. Alþingiskosningar

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þorvaldur Gylfason
  • Þorkell Helgason
  • Ómar Þorfinnur Ragnarsson
  • Lýður Árnason
  • Katrín Oddsdóttir
  • Illugi Jökulsson
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Erlingur Sigurðarson
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

„Í stað tölunnar 63 í fyrstu málsgrein 36. greinar um Alþingiskosningar komi a) 37; b) 43; c) 49; d) 53; e) 57; f) 60; g) 63 og sé kosið milli þessara kosta í Stjórnlagaráði með STV-aðferðinni. Í stað tölunnar 30 í 8. málsgrein komi til samræmis a) 18; b) 20; c) 23; d) 25; e) 27; f) 29; g) 30.

Verði til dæmis kostur d) hlutskarpastur í kosningunni, mun fyrsta málsgrein hljóða svo: „Á Alþingi eiga sæti 53 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára." Fyrri hluti áttundu málsgreinar mun þá hljóða svo: „Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 25 alls."

Greinin eftir breytingu miðar við, að talan 53 verði hlutskörpust í kosningunni.

Á Alþingi eiga sæti 53 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.

Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi velur frambjóðendur af kjördæmislista eða landslista sömu samtaka, eða af þeim báðum. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við annan listann og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að kjósandi geti valið frambjóðendur af listum fleiri en einna samtaka.

Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þau samtök koma ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.

Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 25 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll þingsætin.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.

Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi velur frambjóðendur af kjördæmislista eða landslista sömu samtaka, eða af þeim báðum. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við annan listann og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að kjósandi geti valið frambjóðendur af listum fleiri en einna samtaka.

Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þau samtök koma ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.

Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll þingsætin.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

Skýringar:

Fjöldi Alþingismanna skv. 36. grein frumvarpsins er óbreyttur, 63. Til samanburðar lagði stjórnlaganefnd til tvo valkosti, annan með óbreyttum fjölda þingmanna, hinn með fækkun þingmanna í 60. Nú standa rösklega fimm þúsund manns að baki hverjum alþingismanni að meðaltali. Til samanburðar standa 27 þúsund manns að baki hverjum þingmanni í Finnlandi og Svíþjóð, 29 þúsund í Noregi og 31 þúsund í Danmörku. Eistar hafa 13 þúsund manns að baki hverjum þingmanni. Í eyríkinu Barbados í Karíbahafi, þar sem búa 300 þúsund manns, eru 30 þingmenn, einn á hverja tíu þúsund íbúa.

Árið 1934 var alþingismönnum fjölgað í 49. Íslendingar voru þá 133 þúsund að tölu, svo að 2.300 manns stóðu þá að baki hverjum þingmanni. Þingmönnum var fjölgað í 52 árið 1942, 60 árið 1959 og 63 árið 1984. Fjölgunin studdist yfirleitt ekki við almenn rök, heldur virtist henni ætlað að svala eftirsókn stjórnmálaflokkanna eftir auknum fjölda þingsæta handa sínu fólki, m.a. til að jafna vægi atkvæða milli þingflokka. Ólafur Jóhannesson, síðar forsætisráðherra, varaði í grein sinni í Helgafelli 1945 við þeirri skipan, að þingmenn ákveði sjálfir fjölda þingmanna, þar eð þingmenn hefðu augljósan hag af fjölgun í eigin röðum eins og kom á daginn. Í ritgerðum sínum um stjórnarskrána í Helgafelli 1945 lögðu Gylfi Þ. Gíslason, síðar menntmálaráðherra, og Ólafur Jóhannesson til, að þingmönnum yrði fækkað í 33 (Gylfi) eða 40 (Ólafur) til að draga úr veldi stjórnmálaflokkanna og meðfylgjandi hættu á spillingu. Ólafur sagði: „ ... vald stjórnmálaflokkanna og ýmissa hagsmunasamtaka er orðið meira en góðu hófi gegnir. Í rauninni er þar orðið um að ræða mörg ríki í ríkinu, og þau svo voldug, að þau beygja ríkisvaldið og knésetja þjóðarheildina."
Beita má þeim rökum gegn fækkun þingmanna, að frumvarpinu til nýrrar stjórnarskrár sé ætlað að styrkja stöðu Alþingis gegn framkvæmdarvaldinu og til þess þurfi óbreyttan fjölda þingmanna. Gegn þessum rökum standa önnur rök, sem mæla með fækkun þingmanna:
· Í frumvarpinu er lagt til í samræmi við niðurstöðu þjóðfundar 2010, að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. Séu ráðherrar tíu talsins eins og nú, er fjöldi starfandi þingmanna í reyndinni 53, ekki 63. Óbreyttur fjöldi starfandi þingmanna er því 53, ekki 63. Þess vegna mætti fækka þingmönnum úr 63 í 53 án þess að fækka vinnandi höndum við þingstörf.
· Persónukjöri við hlið listakjörs til Alþingis skv. frumvarpinu er ætlað að draga úr getu stjórnmálaflokka til að tryggja flokksmönnum „örugg" sæti og er ætlað að bæta með því móti mannvalið á þingi. Þannig geta færri hendur unnið meira og betra starf á Alþingi. Fækkun þingmanna gæti lyft Alþingi og ásýnd þess með því að leiða af sér strangari kröfur kjósenda til fulltrúa sinna á Alþingi.
· Lítið land þarf að finna rétt jafnvægi milli umfangsins á yfirbyggingu stjórnsýslunnar og eigin bolmagns.
· Þjóðaratkvæðagreiðslum er ætlað aukið vægi skv. frumvarpinu, og fækkar þá verkefnum Alþingis sem því nemur.
Hófleg fækkun þingmanna, úr 63 í til dæmis 53, samrýmist sterkari stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu í samræmi við kall þjóðfundarins eftir skýrari valdmörkum og öflugra mótvægi ólíkra valdþátta að því tilskildu, að persónukjör og ráðgerðar skipulagsumbætur efli Alþingi svo sem að er stefnt.