Breytingatillaga #49

Við 10. grein. Eignarréttur

Flytjendur:
  • Pawel Bartoszek
  • Íris Lind Sæmundsdóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Málsliðurinn „Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag." Falli brott.

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.

 

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

Skýringar:

Lagt er til að málsliðurinn um eignarrétt í almannaþágu falli brott. Helstu rök fyrir því að mati tillöguflytjenda eru eftirfarandi:

(Líkleg veiking eignarréttar) Það er veiking á grundvallarinntaki eignarréttarins að tilgreina nýting hans megi ekki ganga gegn almannahag. Vel má ímynda sér aðstæður þar sem eignarréttur einstaklinga og almannahagur fara ekki saman að mati stjórnvalda. Ber þar t.d. að nefna lagningu vega, nýtingu auðlinda og landsvæðis í þágu orkuframleiðslu osfrv. Fullyrðingar sem þessar veikja stöðu einstaklinganna sem um ræðir í slíkum tilfellum.

(Hæpin tilvísun í erlenda stjórnskipan) Vísað er til svipaðs, raunar eilítið sterkara orðalags í þýsku stjórnarskráni (sjá 14. gr. hennar). Í greinargerð með tillögunni segir að „sú góða reynsla sem er af þýsku stjórnarskráni undanfain 60 ár hafi sýnt fram á að ástæðulaust [sé] að óttast um að „þjóna almannaheill" verði misnotað af stjórnvöldum, enda fjöldi stjórnarskrárákvæða og laga sem kæmu í veg fyrir slíkt."

Í fyrsta lagi er hæpið að fullyrða að meint góð reynsla af erlendri stjórnarskrá „sýni" að ástæðulaust sé að óttast misnotknun ákveðins ákvæðis. Það að tiltekið ákvæði hafi ekki verið misnotað „sannar" ekki að það sé ástæðulaust að óttast slíka misnotkun. Þýska stjórnarskráin tilgreinir til dæmis heimild til að lesa hlutast til um póststendingar almennra borgara (sjá 2.mgr. 10. gr.) . Það að slík heimild hafi ekki verið misnotuð gefur ekki ástæðu til að taka slíkt upp í íslensku réttarfari. Í öðru lagi er hæpið að gera ráð fyrir því að þótt erlend yfirvöld, í öðru réttarumhverfi, hafi ekki misnotað tiltekna heimild, þá muni íslensk yfirvöld ekki gera það. Í þriðja lagi er óljóst að hvaða „lög eða stjórnarskrárákvæði" ættu að koma í veg fyrir misnotkun ákvæðisins. Engin stjórnarskrárákvæði sem hindrað gætu slíka misnotkun eru nefnd í greinargerð. Torséð er að almenn lög gætu hindrað misnotkun sem byggir á stjórnarskrárákvæði, í ljósi þess að stjórnarskráin er skv. íslenskri venju talin ganga framar almennum lögum.

(Villandi lýsing á gildandi réttarástandi) Í greinargerð með tillögunum er því haldið fram að málsgreinin sé fyrst og fremst „staðfesting á núverandi lögum og réttarástandi". Í kjölfar segir „Er þá átt við að allar hinar fyrrnefndu takmarkanir á eignarétti sem finna má í hinum ýmsu lögum hafa þann eina tilgang að koma í veg fyrir að nýting eignarréttar gangi með einum eða öðrum hætti að gegn hag annarra og/eða almannahag." Hér er um augljósa rangframsetningu að ræða. Þótt svo að fullyrða hugsanlega mætti að allar takmarkanir í dag séu settar í þágu almannahags (sem er órökstudd fullyrðing) þá er það annað en að halda því fram að að öll nýting eignarréttar verði að vera háð þeim skilyrðum að hún gangi ekki gegn almannahag. Hér er ruglað saman tveimur fullyrðingum:

a. „Ekki má skerða eignarrétt nema þegar nýting hans gengur gegn almannahag." og
b. „Skerða verður eignarrétt ef nýting hans gengur gegn almannahag."

(Óljós framkvæmd) Algjörlega óljóst er hvern málsgreinin leggur skyldur á. Veitir þetta löggjafanum heimild? Skyldar þetta löggjafann til að setja lög til að tryggja nýtingu eigna í almannaþágu? Mætti framkvæmdarvaldið nýta stjórnarskrárheimildina beint? Er hér lögð skylda á einkaaðila til að haga nýtingu eigna sinna með tilteknum hætti. Er hugmyndin að dómstólar skeri úr um þessa hluti?

(Óþörf málsgrein) Ekki verður séð að fyrri málsgreinin um að eignarrétti (geti) fylgt skyldur og kvaðir veiti löggjafanum ekki nægar heimildir til að leggja allar þær kvaðir á eignarrétt sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna réttinda annarra.

Aðrar afleiðingar á stjórnarskrá og greinargerð: Ekki verður séð að niðurfelling umræddrar málsgreinar kalli á aðrar breytinga á stjórnarskrá. Nái tillagan fram að ganga þyrfti að breyta greinargerð, annaðhvort með þeim hætti að taka út rökstuðning fyrir umræddri málsgrein eða láta þess geti að umræða um slíkt orðalag hafi farið fram en að ráðið hafi ekki fallist á að taka það inn og vísa til greinargerðar með þessari breytingartillögu.