Breytingatillaga #43

Við 55. grein. Meðferð lagafrumvarpa

Flytjendur:
  • Gísli Tryggvason
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Við ákvæði 2. mgr. 55. gr. um meðferð þingmála bætist eftirfarandi ákvæði í lokin:

„svo og staðfesting á að jafnræðis hafi verið gætt við samráð á undirbúningsstigi löggjafar.“

Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi. Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum svo og staðfesting á að jafnræðis hafi verið gætt við samráð á undirbúningsstigi löggjafar.

Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi. Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.

Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.

Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.

Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

Skýringar:

 

Flutnningsmaður telur reynslurök standa til þess að stjórnarskráin tryggi jafnræði við samráð við fulltrúa ólíka hagsmuna á undirbúningsstigi löggjafar – þótt óbeint sé samkvæmt tillögunni. Ekki er gengið svo langt að áskilja með efnisreglu í stjórnarskrá að jafnræðis skuli gætt milli ólíkra hagsmuna við undirbúning löggjafar - enda gæti slík regla hugsanlega leitt til ógildingar laga ef út af væri brugðið. Til þess að ná sama markmiði er hér aðeins lögð til formregla um að frumvörpum skuli ekki einungis fylgja mat á áhrifum lagasetningar heldur einnig staðfesting á að jafnræðis hafi verið gætt er löggjöf var undirbúin og samin.

Slík staðfesting ætti að koma frá Stjórnarráðinu í tilviki stjórnarfrumvarpa – sem stjórnlagaráð gerir ráð fyrir að verði yfirgnæfandi meirihluti frumvarpa eftir sem áður. Í tilviki þingmannafrumvarps yrði flutningsmaður að staðfesta slíkt samráð en eðli málsins samkvæmt ætti það líklega sjaldnar og síður við. Eðlilegt væri að slík staðfesting yrði á samræmdu formi í greinargerð eftir nánari reglum sem þingsköp eða leiðbeiningarreglur um gerð frumvarpa kvæðu á um.

Misbrestur á að staðfesta jafnræði í samráði við undirbúning löggjafar hefði væntanlega þau áhrif að þingforseti vísaði frumvarpinu frá þar til úr væri bætt – en ætti ekki að leiða til ógildingar laga ef slík staðfesting eða jafnræði í samráði færist fyrir.

Sem dæmi um ólíka hagsmuni, sem tillagan lýtur að, má í fyrsta lagi nefna hagsmuni framleiðenda annars vegar og neytenda hins vegar í sambandi við tollkvóta. Í öðru lagi má nefna sem dæmi löggjöf um vinnumarkaðsmál og ólíka hagsmuni atvinnurekenda og launafólks. Í þriðja lagi má nefna hagsmuni námsmanna annars vegar og gagnaðila þeirra hjá stofnunum á borð Lánasjóð íslenskra námsmanna og háskóla þegar verið væri að semja lög um námslán eða námsframvindu. Samkvæmt langri reynslu flutningsmanns að störfum fyrir neytendur, launafólk og námsmenn sitja þessir hópar ekki alltaf við sama borð og aðrir hagsmunaðilar þegar löggjöf er undirbúin enda er iðulega haft meira, tímanlegra og dýpra samráð við fulltrúa sterkari hagsmuna.

 

Því verður að breyta - í stjórnarskrá - að fenginni reynslu.