Flytjendur:
  • Vilhjálmur Þorsteinsson
  • Pawel Bartoszek
  • Eiríkur Bergmann Einarsson
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

2. mgr. falli brott.

Ekki má taka lán eða undirgangast ábyrgðir er skuldbinda ríkið nema með lögum.

Ekki má selja eða láta með öðru móti af hendi fasteignir ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum. Um ráðstöfun annarra eigna ríkisins fer að lögum.

 

Ekki má taka lán eða undirgangast ábyrgðir er skuldbinda ríkið nema með lögum.

Stjórnvöldum er óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila. Með lögum má þó kveða á um slíka ríkisábyrgð vegna almannahagsmuna.

Ekki má selja eða láta með öðru móti af hendi fasteignir ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum. Um ráðstöfun annarra eigna ríkisins fer að lögum.

Skýringar:

Lagt er til að málsgrein um að stjórnvöldum sé óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila nema vegna almannahagsmuna falli brott.

Flutningsmenn telja að ákvæðið sé óljóst og þjóni ekki tilgangi.  Það megi túlka annað hvort þannig að það sé marklaust, þ.e. að mat á almannahagsmunum sé hvort eð er í höndum löggjafans eins og dómstólar hafa talið í sambærilegum tilvikum, eða svo rúmt að það myndi ekki leyfa ríkinu að halda úti ýmissi starfsemi sem það gerir í dag og talin er jákvæð.

Taka má dæmi um Íbúðalánasjóð. Starfsemi ÍLS má jú lýsa þannig að sjóðurinn safni saman fjárhagslegum skuldbindingum einkaaðila (eigenda íbúðarhúsnæðis) og selji þær áfram til fjárfesta, einkum lífeyrissjóða, að viðbættri ríkisábyrgð.

Til er tryggingardeild útflutningsgreina sem heyrir undir Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.  Hana yrði væntanlega óheimilt að reka ef 2. mgr. greinarinnar stendur.  Þá er vafi um ábyrgðarsjóð launa sem greiðir vangoldin laun einkaaðila, og er reyndar skylda að starfrækja skv. EES-tilskipun.

Vilji stjórnvöld styðja tiltekna atvinnustarfsemi eru ýmsar aðrar leiðir til þess en að veita ríkisábyrgð.  Kaupa má hlutabréf eða lána fé með beinum hætti, eða veita aðra fyrirgreiðslu svo sem skattaívilnanir. Hins vegar má benda á að undir samkeppnisregluverki EES-svæðisins er stjórnvöldum óheimilt að styðja einstök fyrirtæki nema með ströngum skilyrðum um tiltekin málefnaleg sjónarmið (t.d. um staðsetningu á atvinnuþróunarsvæði) og jafnræði, undir eftirliti ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.

Væntanlega er aðalástæða fyrir þessu ákvæði sú að vilji standi til að ríkið geti ekki staðið á bak við innistæðutryggingar í bönkum. Innistæðutryggingar eru flókið fyrirbæri sem erfitt er að fjalla um í stuttri greinargerð, en þær eru hvarvetna taldar nauðsynlegar í bankakerfum og eru til þess fallnar að auka fjármálastöðugleika og vernda hagsmuni neytenda og atvinnulífs. Falli íslenskir bankar ekki undir trúverðugar innistæðutryggingar leiðir það til þess að innistæður flýja úr bönkunum yfir í aðra banka á EES-svæðinu um leið og gjaldeyrishöftum er aflétt. Sú atburðarás ein og sér getur valdið falli banka sem að öðru leyti eru með traustan efnahagsreikning. Þá var íslenska ríkinu það óhjákvæmilegt að sjá til þess að allar innistæður væru tiltækar í bankahruninu, að öðrum kosti hefði hagkerfið stöðvast og jafnvel brostið á með ránum og gripdeildum. Slíkar ákvarðanir yrði hvort eð er að taka í neyðartilvikum, hvort sem formleg innistæðutrygging teldist vera fyrir hendi eður ei. En skattborgarar geta glaðst yfir því að innistæðutryggingar sem slíkar hafa enn ekki kostað þá krónu, og eru því ekki meðal þeirra stóru vandamála sem kljást þarf við í eftirmála bankahruns.

Að öllu framansögðu virtu er það eindregin skoðun flutningsmanna að betra sé að fella brott umrædda 2. mgr. þessarar greinar, en láta löggjafanum eftir að setja reglur um ríkisábyrgðir og innistæðutryggingar.  Má telja víst að varkárni á þeim sviðum hafi aukist mjög á síðari árum.