Breytingatillaga #35

Við 11. grein. Skoðana- og tjáningarfrelsi

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þorvaldur Gylfason
  • Silja Bára Ómarsdóttir
  • Katrín Oddsdóttir
  • Illugi Jökulsson
  • Freyja Haraldsdóttir
  • Dögg Harðardóttir
  • Arnfríður Guðmundsdóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Breyting á 1. mgr., hún sett í karlkyn.

Umröðun á 2. mgr.

2. ml. 3. mgr. í þessari tillögu hljóðar svo: „Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum skilyrðum 2. mgr., enda sé meðalhófs gætt í hvívetna.“

Við 4. mgr. bætast orðin „fyrir dómi“.

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi.

 

Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar.

Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheftur aðgangur að netinu og upplýsingatækni skal tryggður.

Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna.

Skýringar:

Hér er lögð til umorðun úr „jákvæðu“ orðalagi, sem nú er í frumvarpinu, sem bendir til þess að borgararnir eigi réttindi á hendur ríkinu; í breytingartillögunni er eins og rætt var á 16. ráðfundi stungið upp á „neikvæðu“ orðalagi sem tryggi borgarana gagnvart íhlutun handhafa ríkisvalds (eða annarra, sbr. 6. gr. frv. um lárétt þriðjamannsáhrif mannréttinda). Hið fyrrnefnda er stundum kennt við efnahagsleg og félagsleg réttindi en ljóst er að slíkt er ekki markmiðið með ákvæðinu heldur hitt að tryggja borgurunum frelsisréttindi – þ.e. frelsi frá íhlutun eða skerðingu réttar til nets eða upplýsingatækni.

Nauðsynlegt virðist hins vegar að hafa fyrirvara í niðurlaginu eins og í öðrum mannréttindaákvæðum enda mætti ímynda sér að takmarka þyrfti að meira eða minna leyti netaðgang refsifanga meðan á afplánun stæði eða skerða slíkan aðgang dæmds manns jafnvel um lengri tíma ef dæmt brot tengdist tölvuglæpum eða áreiti með netinu án þess að það sé útfært hér. Við orðalag fyrirvarans í niðurlagi er höfð hliðsjón af öðrum slíkum fyrirvörum í mannréttindaákvæðum áfangaskjalsins eins og það stendur í frumvarpinu. Ekki verður séð hvort og þá hvaða atriði á borð við öryggi, heilsu, réttindi eða mannorð annarra skuli nefna til viðbótar og er því ekki gerð tillaga um dæmatalningu í því efni.

Þar sem tillagan í frumvarpinu lýtur að því að gera netaðgang og aðgang að upplýsingatækni að grundvallarréttindum er eðlilegt að aðeins dómsúrskurður í tilviki fanga eða dómur í tilviki ákærðs manns gæti skert þessi réttindi en ekki ákvörðun handhafa framkvæmdarvalds, t.d. fangelsisstjóra. Hugtakið úrlausn dómara nær þá bæði til dómsúrskurða í fyrra tilvikinu og t.a.m. gagnvart gæsluvarðhaldsföngum og til dóma í síðara dæminu.

Horfið til orðalags í núgildandi stjórnarskrá, um að hver og einn þurfi að ábyrgjast framsetningu skoðana sinna fyrir dómi. Þetta er í samræmi við ábendingar mennta- og menningarmálaráðuneytis.