Breytingatillaga #34

Við 88. grein. Stjórnarmyndun

Flytjendur:
  • Þorvaldur Gylfason
  • Vilhjálmur Þorsteinsson
  • Lýður Árnason
  • Katrín Oddsdóttir
  • Illugi Jökulsson
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Ástrós Gunnlaugsdóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Við 4. mgr. bætist svofelldur málsliður: "Meiri hluti ráðherra skal ekki vera úr röðum alþingismanna".

Alþingi kýs forsætisráðherra.

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.

Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.

Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu. Meiri hluti ráðherra skal ekki vera úr röðum alþingismanna.

Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti og veitir honum lausn. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.

Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni er þeir taka við embætti.

 

Alþingi kýs forsætisráðherra.

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.

Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.

Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.

Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti og veitir honum lausn. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.

Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni er þeir taka við embætti.

Skýringar:

Í B-nefnd kom fram hugmynd um að áskilið yrði að meiri hluti ráðherra í ríkisstjórn kæmi úr röðum utanþingsmanna. Var hugmyndin rædd nokkuð en naut ekki meirihlutafylgis í nefndinni og var því ekki hluti af tillögum hennar. Á hinn bóginn er ástæða til að ætla að hugmyndin njóti fylgis meðal ráðsmanna almennt og er hún því flutt sem breytingartillaga.

Með þessu viðbótarákvæði væri hnykkt með áþreifanlegum hætti á aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds. Séu ráðherrar t.d. tíu talsins þurfa a.m.k. sex þeirra að vera utan þings, þ.e. ekki valdir úr röðum alþingismanna. Allt að fjórir gætu hins vegar komið af þingi og vikju þá úr þingsæti á meðan skv. ákvæðum 87. gr. um ráðherra og Alþingi.

Sé eindreginn vilji til þess hjá forsætisráðherra og þingi mætti skipa fleiri þingmenn í ráðherraembætti en þeir yrðu þá fyrst að segja af sér þingmennsku og ættu ekki afturkvæmt á þing á sama kjörtímabili.

Reglan um meirihluta utan þings er hófleg að því leyti að hún útilokar ekki að forystumenn stjórnarflokka geti orðið ráðherrar án þess að segja af sér þingmennsku. Þá hefði þetta fyrirkomulag í för með sér að þegar ríkisstjórn tekur ákvörðun sem fjölskipað stjórnvald um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni væri meirihluti atkvæða í höndum ráðherra utan þings og aðskilnaður frá löggjafarvaldi þar með tryggður að því leyti.

Að mati tillöguflytjenda er hér um að ræða mikilvægt spor í átt að faglegri og sjálfstæðari ríkisstjórn, og aðskilnaði milli hennar og þingsins sem aftur auðveldar gagnrýnið þinglegt eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Tillagan raskar ekki heildarhugsun í kerfi B-nefndar heldur styrkir hana frekar en hitt.