Breytingatillaga #29

Við 5. grein. Jafnræði

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Silja Bára Ómarsdóttir
  • Katrín Oddsdóttir
  • Illugi Jökulsson
  • Freyja Haraldsdóttir
  • Ástrós Gunnlaugsdóttir
  • Arnfríður Guðmundsdóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Kynvitund verði bætt inn sem mismununarbreytu.

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

 

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Skýringar:

Áratugalöng mannréttindabarátta hinsegin fólks á Íslandi gegn mismunun hefur nýlega borið þann árangur, að hjónabönd samkynhneigðra eru nú leyfð skv. lögum. Söguleg tímamót urðu þann 17. júní 2011 þegar Suður-Afríka kynnti ályktun sem Mannréttindaráð Sþ samþykkti og „[staðfesti] algild mannréttindi og tekur til greina áhyggjur vegna ofbeldisverka og mismununar á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar.“ („Historic Decision at the United Nations“, 2011). Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða lögfræðinganefndarinnar, vísa þessi tvö orð til lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transfólks (LGBT) auk draglistafólks og intersex fólks, en þótt mannréttindabarátta hinsegin fólks sé í góðum farvegi á Íslandi, er baráttunni alls ekki lokið. Enn má finna samfélög þar sem dauðarefsing liggur við, fyrir það eitt að vera hinsegin. Víða um heim býr hinsegin fólk við þann raunveruleika að refsing liggur við allri  jákvæðri umræðu um málefni hinsegin fólks.

Í fullkomnum heimi, þyrfti ekki að telja upp alls konar minnihlutahópa sem bannað er að mismuna eins og kom fram í kynningu Suður-Afríku á áðurnefndri ályktun en þar var vitnað í 2. grein Mannréttindayfirlýsingar Sþ: „hver maður skal eiga kröfu á réttindum og frjálsræði og skal þar engan greinarmun gera“. („Historic Decision at the United Nations“, 2011) Blóðug saga mannréttindabrota sýnir þó svo ekki verður um villst, að fólki var og er enn mismunað þrátt fyrir þetta skýra ákvæði.

 

Elsta heimild um orðið kynvitund í íslensku máli, er skv. Ritmálssafni Orðabókar Háskólans í ritinu Birtingur frá 1966, en þá var orðið ekki sett í samhengi við hinsegin fólk. Sem merkingarfræðileg þýðing fellur orðið kynvitund, að okkar mati ákaflega vel að skilgreiningunni á enska hugtakinu „gender identity“ en landlæknisembættið virðist hafa þýtt enska hugtakið á táknfræðilegan hátt sem kynsemd. Það orð er þó ekki jafn gegnsætt merkingarlega og er ekki til í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

 

Í júní 2011 gaf Evrópuráðið út niðurstöður stærstu rannsóknar sem gerð hefur verið á mismunun á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar í aðildarríkjum ráðsins. Skýrslan staðfestir sérstaklega veika stöðu transfólks í þessum ríkjum og sums staðar er það jafnvel talið geðveikt. Þessir hópar fólks eru líklegri til að þjást af þunglyndi og kvíða, og sjálfsmorðstíðni er hærri meðal ungs fólks í þessum hópi en meðal gagnkynhneigðra jafnaldra þeirra. Margt fólk í þessum hópi á í erfiðleikum með að fá læknisþjónustu vegna tortryggni milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, fordóma og gamaldags afstöðu hinna síðarnefndu. Nánar má lesa um þetta í skýrslu ráðsins, sem er að finna hér: http://www.coe.int/t/Commissioner/Source/LGBT/LGBTStudy2011_en.pdf