Breytingatillaga #25

Við 58. grein. Staðfesting laga

Flytjendur:
  • Vilhjálmur Þorsteinsson
  • Silja Bára Ómarsdóttir
  • Pawel Bartoszek
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Ástrós Gunnlaugsdóttir
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Málskotsréttur forseta verði felldur brott.

Er Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp undirritar forseti Alþingis það, og veitir undirskrift hans því lagagildi.

Er Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp undirritar forseti Alþingis það og leggur innan tveggja vikna fyrir forseta Íslands til staðfestingar, og veitir undirskrift hans því lagagildi.

Forseti Íslands getur ákveðið innan viku frá móttöku frumvarps að synja því staðfestingar. Skal sú ákvörðun vera rökstudd og tilkynnt til forseta Alþingis. Frumvarpið fær þá engu að síður lagagildi, en bera skal lögin innan þriggja mánaða undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Ræður einfaldur meirihluti hvort lögin halda gildi sínu. Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu skal að öðru leyti mælt fyrir í lögum.

Heimild til synjunar á ekki við um fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni, lög um ríkisborgararétt og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

Skýringar:

Málskotsréttur forseta falli brott. Þessi réttur hefur verið umdeildur, einkum í fyrri tvö skiptin sem hann var notaður. Í öll skiptin hefur forseti vísað til þess að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar, eða að slíkur fjöldi áskorana eða undirritana hafi borist að honum hafi ekki verið stætt á öðru en að synja lögunum staðfestingar og vísa málinu til þjóðarinnar. Þar sem annars staðar í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að með tilteknum fjölda undirskrifta geti almenningur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, og að minnihluti þingmanna geti skotið málum til þjóðarinnar, þá fæst ekki séð að sá öryggisventill sem hingað til hefur falist í málskotsrétti forseta sé lengur nauðsynlegur.

Forsetaembættið tók við hlutverki einvalds konungs. Að mörgu leyti kristallast arfleifð feðraveldisins enn fremur í hugmyndinni um hinn nánast óskeikula forsjála föður - bonus pater.

Mörgum þykir það ólýðræðislegt að svo mikilvægt tæki sem málskot til þjóðarinnar sé í höndum eins mann. Með þeirri tilhögun að 15 prósent kjósenda geti skotið málum í þjóðaratkvæðagreiðslu er málskot forseta þar að auki orðið óþarft.