Flytjendur:
  • Þórhildur Þorleifsdóttir
  • Þorvaldur Gylfason
  • Pétur Gunnlaugsson
  • Lýður Árnason
  • Illugi Jökulsson
  • Gísli Tryggvason
  • Arnfríður Guðmundsdóttir
  • Andrés Magnússon
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Svolhljóðandi 4. mgr. bætist við 102. gr. frumvarpsins:

 

„Ríkissaksóknara skal með lögum falin heimild til þess að höfða mál til upptöku eigna sem ætla má að hafi orðið til við ólögmætt athæfi, svo sem með misnotkun opinbers valds.“

 

Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins. Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn. Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar.

Ríkissaksóknara skal með lögum falin heimild til þess að höfða mál til upptöku eigna sem ætla má að hafi orðið til við ólögmætt athæfi, svo sem með misnotkun opinbers valds.

 

Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins. Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn. Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar.

Skýringar:

Flutningsmenn telja að í kjölfar hrunsins sé nauðsynlegt að kveða á um auknar valdheimildir til uppgjörs gagnvart orsakavöldum hrunsins án þess að þær heimildir séu háðar ströngum reglum sakamálaréttarfars og refsiréttar.

 

Það telja flutningsmenn að gera þurfi í sjálfri stjórnarskránni af tveimur ástæðum fyrst og fremst. Í fyrsta lagi þar sem reglulegir handhafar ríkisvalds - hvort sem er löggjafarvalds, eftirlitsvalds og framkvæmdarvalds eða jafnvel dómsvalds - hafi gerst of handgengnir eða tengdir orsakarvöldum hrunsins og í sumum tilvikum sofið á verðinum eða látið ranga hagsmuni njóta vafans á meðan réttmætir hagsmunir almennings hafi goldið fyrir. Í öðru lagi er nauðsyn á að slík heimild til upptöku ólögmæts ávinnings njóti stjórnarskrárverndar líkt og kveðið er á um vernd eignarréttar og vernd gegn afturvirkri skattareglna í stjórnarskránni, ýmist frá 1874 eða frá 1995.

Flutningsmenn telja rétt að frá gildistöku stjórnarskrár þessarar njóti þeir almannahagsmunir ekki síðri stjórnarskrárverndar að handhafar almannavalds geti höfðað mál sem er til þess fallið að ná til baka eins og unnt er ávinningi sem orðið hefur til með ólögmætu athæfi, svo sem með misnotkun opinbers valds. Að mati flutningsmanna er ákvæðið þó ekki bundið við hrunið og því ekki flutt sem ákvæði til bráðabirgða eins og dæmi eru þó um, svo sem í gildandi stjórnarskrá. Slíkt ákvæði getur - auk þess að leiðrétta óréttmætar eignatilfærslur á kostnað almennings í fortíðinni - fyrirbyggt að slíkt endurtaki sig.

Löggjafanum er samkvæmt ákvæðinu skylt að setja lög um slíka heimild, sem sjálfstæður ríkissaksóknari hefur heimild til þess að nýta - og ber vitaskuld að nýta standi efnisrök til þess.

Sambærileg aðildarskilyrði og í þessari stjórnarskrárbundnu lagaheimild má að nokkru finna í XVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en samkvæmt þeim er hægt að höfða svonefnd ógildingar- og eignardómsmál vegna eigendalausra eða umdeildra eigna en þeir sem telja sig eiga aðild - sem er sjaldnast - mæta fyrir dómi og rökstyðja tilkall sitt; hér myndi handhafi eignarréttar yfir umstefndri eign, hvort sem væri fasteign, peningainnistæða eða aðrar eignir, mæta og takast á við ríkissaksóknara fyrir dómi samkvæmt almennum réttarfars- og sönnunarreglum, sem dómari metur að vanda. Í slíkum málum myndu sönnunarreglur sakamálaréttarfars m.ö.o. ekki gilda heldur fremur reglur einkamálaréttarfars, líkt og í skaðabótarétti og eignarrétti, svo sem í þjóðlendumálum. Myndi dómsúrlausn fela í sér endanlega og bindandi niðurstöðu um tilkall til eignarréttar hvað varðar hina umstefndu eign. Ekki þykir vafasamt að fela ríkissaksóknara og dómstólum slíkt úrlausnarvald í ljósi þess að sjálfstæði þeirra verður eftirleiðis stjórnarskrárbundið og stóraukið.

Fluningsmönnum þykir ekki nægilegt að búa við almennar lagaheimildir til kyrrsetningar eða annarra svonefndra bráðabirgðagerða enda er endanleg upptaka eigna í slíkum tilvikum háð því að refsiverð háttsemi sannist og sé dæmd. Þá þykja almennar reglur skaðabótaréttar í svo óvenjulegum tilvikum sem í kjölfar hruns ekki ná þeim tilgangi að rétta hlut almennings á hendur orsakavöldum hrunsins. Sést það m.a. á því að rúmlega 2 1/2 ári eftir hrun hafa handhafar ríkisvalds ekki höfðað mál til skaðabóta gegn orsakavöldum hrunsins - eins og t.a.m. fulltrúar kröfuhafa hafa þó hafist handa um.