Breytingatillaga #21

Við 83. grein. Náðun og sakaruppgjöf

Flytjendur:
  • Katrín Oddsdóttir
  • Gísli Tryggvason
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Svohljóðandi 2. mgr. bætist við 83. gr.:

„Forseti Íslands getur einnig samþykkt tillögu ráðherra um að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Binda má slíkt samþykki skilyrði um skil ólögmæts eða óréttmæts ávinnings og um að allar upplýsingar verði veittar sem tengjast athæfi sem telja má refsivert.“

Forseti Íslands getur náðað menn og veitt almenna uppgjöf saka að tillögu ráðherra. Ráðherra getur hann þó ekki leyst undan refsingu, sem dómstólar hafa dæmt vegna ráðherraábyrgðar, nema með samþykki Alþingis.

Forseti Íslands getur einnig samþykkt tillögu ráðherra um að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Binda má slíkt samþykki skilyrði um skil ólögmæts eða óréttmæts ávinnings og um að allar upplýsingar verði veittar sem tengjast athæfi sem telja má refsivert.

 

Forseti Íslands getur náðað menn og veitt almenna uppgjöf saka að tillögu ráðherra. Ráðherra getur hann þó ekki leyst undan refsingu, sem dómstólar hafa dæmt vegna ráðherraábyrgðar, nema með samþykki Alþingis.

Skýringar:

Ákvæði 29. gr. gildandi stjórnarskrár er svohljóðandi:

„Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.“

Með tillögu ráðsins, sem ekki var rædd ítarlega að mati flutningsmanns, er náðun haldið inni en í því felst uppgjöf dæmdrar refsingar eftir dóm þar sem ákærði er sakfelldur. Efnisbreytingin er engin þar eð 13., 14., og 19. gr. gildandi stjórnarskrár fela í sér að það er pólitískur ráðherra sem ákveður náðun að viðlagðri pólitískri þingræðisábyrgð og lagalegri ráðherraábyrgð - en forseta hefur í raun verið talið skylt að fallast á náðun. Flutningsmaður er samþykkur þessu ákvæði.

Sama gildir um almenna uppgjöf saka - sem þó er mun sjaldgæfari.

Ákvörðun um „að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla“ skv. fyrsta lið 29. gr. gildandi stjórnarskrár er eðlislík náðun að því leyti að hún er sértæk eins en skyld almennri uppgjöf saka að því leyti að hún fer fram áður en ákært er og dæmt í sakamáli. Slíkar ákvarðanir eru að sönnu afar sjaldgæfar á Íslandi sem víðar. Helstu rök fyrir brottfalli samkvæmt frumvarpinu eru að með slíkri heimild sé vegið að sjálfstæði ríkissaksóknara og annarra handhafa ákæruvalds sem ráðið telur afar mikilvægt og undirstrikar með ákvæði um það í 102. gr. Sjálfstæði handhafa ákæruvalds er þó mikilvægara um hinn „jákvæða“ hluta þess - þ.e. ákvörðun um að rannsaka eða ákæra - heldur en hinn „neikvæða“ þátt ákæruvalds - að fella mál niður; þó að í hinu síðastnefnda felist möguleiki á mismunun og spillingu er heimildin samkvæmt breytingartillögu þessari takmörkuð við gagnsæ skilyrði. Auk þess hafa ekki verið brögð að spillingu að þessu leyti á Íslandi undanfarna áratugi svo flutningsmanni sé kunnugt.

Flutningsmaður saknar þess því að sértæk uppgjöf saka falli brott og leggur til í anda sáttaleiðar Suður-Afríku við lok aðskilnaðarstefnunnar að unnt verði að gefa eftir sakir gegn fullum upplýsingum og skilum á ólögmætum eða óréttmætum ávinningi. Yrði framkvæmdin útfærð í almennum lögum.

Slíkar heimildir er að finna í almennri löggjöf annarra ríkja, svo sem Bandaríkja Norður-Ameríku, en skortir í íslenskan rétt, einkum nú eftir hrunið.