Breytingatillaga #17

Við 31. grein. Náttúruauðlindir

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þórhildur Þorleifsdóttir
  • Þorvaldur Gylfason
  • Pétur Gunnlaugsson
  • Ómar Þorfinnur Ragnarsson
  • Lýður Árnason
  • Katrín Oddsdóttir
  • Katrín Fjeldsted
  • Illugi Jökulsson
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Gísli Tryggvason
  • Eiríkur Bergmann Einarsson
  • Dögg Harðardóttir
  • Andrés Magnússon
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Að aftast í fyrstu málsgrein bætist við:

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, BEINT EÐA ÓBEINT.

 

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Skýringar:

Um auðlindir og umhverfi segir svo í drögum að nýrri færeyskri stjórnarskrá:
Tilfeingi og umhvørvi/ Auðlindir og umhverfi.
(1) Myndugleikarnir varða um tilfeingi landsins/Stjórnvöld hafa fyrirsvar með auðlindum landsins.
(2) Tá vunnið verður úr landsins tilfeingi, skal landið antin krevja viðurlag ella tryggja øllum vinnurætt/Við nýtingu auðlinda skulu stjórnvöld annaðhvort innheimta auðlindagjald eða tryggja öllum jafnræði til nýtingar.
(3) Margfeldið á landi og á havleiðum landsins, sum privat ikki eiga, er tilfeingi og ogn fólksins/Arður af landi og fiskimiðum sem ekki eru í einkaeign, eru auðlindir og eign fólksins.

(4) Landið tryggjar, at bæði almenna og privata tilfeingi landsins verður umsitið á sjálvberandi hátt við umsorgan fyri umhvørvinum/Stjórnvöld skulu tryggja að auðlindir í opinberri eigu sem og í einkaeign verði nýttar á sjálfbæran hátt og í sátt við umhverfið.
Sem sagt: þjóðin á auðlindirnar (grein 3) og tekur gjald fyrir afnot þeirra eða tryggir öllum jafnan aðgang að þeim (grein 2).
Þjóðareign, samtök um auðlindir í almannaþágu, lýsa yfir miklum áhyggjum af því, að ákvæði í fyrirhugaðri stjórnarskrá verði ekki formað nægilega skýrlega hvað varðar raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindunum og heimildum til nýtingar á auðlindunum. Samtökin hafa einna mestar áhyggjur af því, að einstaklingum og lögaðilum verði unnt að nota auðlindirnar og heimildir til nýtingar á þeim sem eins konar brask-andlag, að einstökum mönnum sé heimilt að taka út fyrirfram arðinn af nýtingu auðlindanna, og skuldsetja nýtinguna og þar með auðlindina ótæpilega. Fyrirkomulagið eins og það er í dag hvað varðar veðsetningar á heimildum til nýtingar á fiskistofnunum, ver rétt einstakra manna til að taka áratuga arð úr fiskveiðum fyrirfram með því að selja sig út úr greininni. Skuldirnar eru hvað eftir annað skildar eftir. Hverjum gagnast slíkt fyrirkomulag öðrum en þeim sem hafa réttinn til þess að flýja út úr greininni með arðinn? Slíkt fyrirkomulag gagnast ekki eiganda auðlindarinnar, þjóðinni, þ.e. að einstökum mönnum sé mögulegt samkvæmt núverandi leikreglum að skuldsetja sameign þjóðarinnar, en taka sjálfir út arðinn, fyrirfram. Ef taka ætti arð fyrirfram út úr auðlindinni, þá ætti aðeins eigandinn, þjóðin, að geta gert slíkt.

 

Ákvæðið um náttúruauðlindir, eins og það kemur fyrir nú, tekur ekki á þeim vanda, sem ofan er lýst. Ljóst er, að mikill meirihluti þjóðarinnar sættir sig ekki við þetta fyrirkomulag. Spurningin er, hvort Stjórnlagaráð og þjóðin eigi ekki örugglega samhljóm hvað þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar varðar. Er hugsunin með ákvæðinu ekki örugglega að banna raunverulega veðsetningu kvóta? Að loka á heimild manna til að selja sig út úr atvinnugreininni og að skilja skuldirnar eftir, sem stofnað var til svo kaupa mætti sama mann út?

 

Ákvæðið, líkt og það er nú, mun því miður aldrei geta komið í veg fyrir veðsetningu kvótans á nákvæmlega sama hátt og veðsetningin er framkvæmd í dag, enda er aðeins bannað að veðsetja kvótann beint, líkt og raunar er gert í dag í lögum um samningsveð. Veðsetningin er því framkvæmd með óbeinni veðsetningu til að komast framhjá skýrum ákvæðum laga um blátt bann við veðsetningu kvóta. Í dag er það því svo, að kvótinn er „ekki“ veðsettur, heldur er skipið veðsett með kvöð um að óheimilt sé að færa kvótann af skipinu nema með heimild lánastofnunar. Ergo: Kvótinn er veðsettur, þó með óbeinum hætti sé. Sé ætlunin að raunverulega koma í veg fyrir veðsetningu kvótans, í veg fyrir að einstakir menn geti ekki tekið út arðinn af sameign þjóðarinnar áratugi fram í tímann og sé í sjálfsvald sett hvað gert sé við arðinn, hvort hann er tekinn út úr greininni, eða út úr landinu, þá þarf að gera breytingu á ákvæðinu um náttúruauðlindir. Þessi breyting þarf ekki að vera viðamikil, eingöngu þarf að kveða skýrt á um, að veðsetning á heimildum til nýtingar á náttúruauðlindum sé bönnuð, með beinum og óbeinum hætti og í greinargerð þarf að koma fram með skýrum hætti hvað átt sé við með slíkri óbeinni veðsetningu.

 

NIÐURLAG:

Þó sterklega sé kveðið á í þessu ákvæði um ævarandi eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum sínum blasir við fortíðarvandi sem þarfnast lausnar sem fyrst. Hann er m.a. vegna óbeinnar veðsetningar. Breytingartillagan færir víglínuna nær þjóðarhag og mun gera sérhagsmunaöflum erfiðara fyrir. Hún tekur líka til framtíðarskipanar þessara mála, orkuna munu margir ásælast og þá viljum við sem að þessari tillögu stöndum ekki sjá virkjunarréttindi tengd húsakosti og yfirveðsett engum til hagsbóta nema aðdáendum loftbóluhagkerfa.