Breytingatillaga #6

Við 36. grein. Alþingiskosningar

Flytjendur:
  • Lýður Árnason
  • Katrín Oddsdóttir
  • Andrés Magnússon
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
Honum er einnig heimilt að kjósa að slembival skuli ráða vali alþingismanns.

Kjósandi velur frambjóðendur af kjördæmislista eða landslista sömu samtaka, eða af þeim báðum. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við annan listann og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Honum er einnig heimilt að kjósa að slembival skuli ráða vali alþingismanns. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að kjósandi geti valið frambjóðendur af listum fleiri en einna samtaka.

 

 

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.

Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi velur frambjóðendur af kjördæmislista eða landslista sömu samtaka, eða af þeim báðum. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við annan listann og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að kjósandi geti valið frambjóðendur af listum fleiri en einna samtaka.

Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þau samtök koma ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.

Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll þingsætin.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

Skýringar:

Við þróun lýðræðis í Grikklandi var horfið frá fulltrúalýðræði yfir í að láta slembival ráða þátttöku á fulltrúaþingi. Þetta var talin framför í lýðræðisþróun, og almennt er slembival talið lýðræðislega sterkara en fulltrúaval (sjá greinargerð Lýðræðisfélagsins Öldunnar þar um). Kostir slembivals eru eftirtaldir:

  1. Fulltrúar endurspegla þverskurð þjóðarinnar.
  2. Það næst til einstaklinga sem eru ekki mikið fyrir að láta á sér bera, hógværra, hlédrægra einstaklinga, sem hafa kannske samt sem áður mjög ákveðnar skoðanir á þjóðfélagsmálum.
  3. Erfiðara er fyrir fjármagn og sérhagsmuni að hafa áhrif á hverjir stjórni landinu, minni spilling.
  4. Slembival eykur val kjósenda án þess að neitt sé tekið frá öðrum.
  5. Aukið val endurspeglar betur vilja kjósenda og þar með lýðræðið.

 

Sumir segja að slembival auki hættuna á að minna „hæfir" einstaklingar veljist inn á Alþingi, þó ber að benda á í þessu sambandi að langskólamenntun er vaxandi á Íslandi og innan fárra ára verður meirihluti Íslendinga langskólagenginn (ef þeir eru ekki þegar orðnir það). Við þetta má bæta að mælikvarði menntunar á hæfi er ósannaður með öllu. Í nútíma samfélagi, þar sem verðmæti hafa safnast upp, og gæta þarf þess að eignum sé réttlátlega skipt, þá skiptir hæfi minna máli en hitt meira máli að fulltrúarnir séu óháðir og óspilltir.

Ef einstaklingur sem ekki vill vera á Alþingi velst með slembiaðferð, þá er valið aftur.

Hér er ekki verið að koma á slembivali, heldur aðeins að gefa kjósendum kost á því að tjá vilja sinn um að slembival skuli ráða vali þeirra á þingmanni. Þetta er mild leið til þess að kynna hugmyndina um slembiúrval fyrir þjóðinni, og þreifa fyrir sér með notkun þess. Flutningsmenn þessarar tillögu telja samsetningu þingsins stykjast með slembivali og bera hana fram í þeim krafti.