Fylgiskjal

Tekið fyrir: 7. ráðsfundur

Stefnuræða Freyju Haraldsdóttur

Kæru ráðsfulltrúar, gestir og aðrir áhorfendur

Mig langar að byrja á því að þakka fyrir þann möguleika á að taka til máls hér og nota tækifærið um leið og þakka öðrum ráðsfulltrúum fyrir gagnlegt og þroskandi samstarf síðastliðnar vikur. Ég hlakka til að halda áfram. Í þeirri vinnu sem farið hefur fram síðustu vikur í tengslum við mannréttindakaflann hafa komið fram ólík sjónarhorn og nálganir og höfum við því átt málefnalegar og gagnrýnar umræður um hvað skuli standa óbreytt og hverju þurfi að breyta. Þó það sé margt sem ég get fjallað um varðandi mannréttindin ætla ég í dag að fjalla sérstaklega um jafnræðisregluna (65. grein núgildandi stjórnarskrár) og nauðsyn þess að ákvæðið inniberi upptalningu á þeim hópum í samfélaginu sem sagan sýnir að búa við beina og óbeina mismunun. Ég mun taka dæmi út frá stöðu fatlaðs fólks en ítreka að staða þess endurspeglar stöðu annarra valdaminni hópa í samfélaginu. Ég vil einnig leggja áherslu á að hópur fatlaðs fólks er fjölbreyttur og eðlilega þverskurður samfélagsins. Þar af leiðandi getur sumt fatlað fólk, líkt og ófatlað fólk, tilheyrt fleiri hópum sem eru álitnir vera beittir misrétti og upplifað margþætta mismunun, t.d. fatlaðar konur og fötluð börn.

Í umræðu okkar hér hefur komið fram það sjónarmið að nægilegt sé að kveða á um að ,,allir skulu vera jafnir fyrir lögum". Þó svo að í hjarta mér vilji ég taka undir það tel ég að við sem þjóðfélag höfum ekki náð þeim þroska að álíta alla vera alla. Við tölum um ,,okkur" og svo ,,hina." ,,Þetta fólk" heyrist oft í umræðu um fatlað fólk og vísað er þar til þess að um afbrigðilegan hóp sé að ræða - hóp sem ófatlað fólk vill helst ekki tilheyra. Jenny Morris, fræðikona innan fötlunarfræða, hefur t.d. bent á að fjölmiðlar birti fatlað fólk ýmist bara alls ekki, eða út frá rótgrónum hugmyndum um að það sé einsleitur hópur; viðkvæmur, sjúkur, afbrigðilegur, hættulegur, heimskur og þurfandi. Fatlað fólk verður þar með að hinum og þeim sem ófatlað fólk skilgreinir sem hóp sem er ekki eins og það. Þessar hugmyndir eru m.a. rót þeirrar mismununar sem fatlað fólk býr við. Adolf Ratzka, einn af helstu frumkvöðlum mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á Norðurlöndunum, bendir á að sagan sýni fjölmörg dæmi þess að tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, frelsis, þátttöku, öryggis og mannlegrar reisnar hafa verið takmörkuð og skert með efnislegum og samfélagslegum hindrunum, mismunun, ofbeldi og kúgun. Fatlað fólk um allan heim hefur orðið ofurselt ölmusu og góðgerðarstarfi, valdaleysi og stofnanavistun. Þótt sigrar hafi náðst og árangur sé mikill er þessi staða enn veruleiki víða í heiminum, m.a. á Íslandi.

Fatlað fólk hefur síðustu áratugi mótmælt harðlega þessum rótgrónu hugmyndum og skapað nýjan skilning á hugtakinu fötlun. Það leggur áherslu á að það sé ekki einungis skerðingin heldur fjárhagslegar, umhverfislegar og menningarlegar hindranir sem leiði af sér fötlun. Fatlað fólk hefur síðustu 40 ár lagt grunn að hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf en hún felst í kröfunni um að viðurkenna skuli mannlega reisn og óendanlegt verðmæti hverrar manneskju og að allir, óháð skerðingu, geti stjórnað og tekið ákvarðanir um eigið líf, með aðstoð ef þarf. Einnig felur hún í sér að allar manneskjur hafi rétt til þess að taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Í raun og veru má segja að barátta fatlaðs fólks snúist um þá grundvallar breytingu að það sé ekki álitið gallað, fórnarlömb eigin líkamlega eða andlega ástands og viðfangsefni umönnunar ófatlaðs fólks, heldur borgara sem lifa við sömu réttindi og lífsgæði og aðrir.

Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að alþjóðasamfélagið áttaði sig á að alþjóðlegar mannréttindayfirlýsingar og almenn löggjöf duga ekki til þess að tryggja réttarstöðu fatlaðs fólks. Árið 2006 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sérstakan samning um mannréttindi fatlaðs fólks. Samningurinn byggir á baráttu fatlaðs fólks og er tæki sem skyldar aðildarríki til þess að fjarlægja þær efnislegu, menningarlegu og félagslegu hindranir sem standa í veginum fyrir því að fatlað fólk geti upplifað sig búa við jafnrétti, sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt og fulla þátttöku. Ekki er um að ræða ný réttindi heldur einfaldlega útlistun á því hvað aðildarríki þurfa að framkvæma til að uppfylla þau mannréttindaákvæði sem til staðar eru. Það nýja sem samningurinn leggur til er skilgreining á fötlun þar sem fyrst og fremst er lögð áhersla á eðlislæga reisn manneskjunnar og að hún sé miðpunktur allra ákvarðana sem hafa áhrif á hana. Samningurinn leggur áherslu á að vandinn sem hún tekst á við sé staðsettur í samfélaginu og stafi af vanhæfni stjórnvalda til að bregðast við manngerðum hindrunum og margbreytilegum þörfum fatlaðs fólks. Markmið þessa sjónarhorns er því að skapa samfélög sem eru öllum aðgengileg, án aðgreiningar. Ísland undirritaði samninginn árið 2007, hefur ekki fullgilt hann en stefnir að því.

Eins og komið hefur fram er Ísland ekki undanskilið þegar kemur að veikri réttarstöðu fatlaðs fólks. Einu lögin sem kveða sérstaklega á um réttindi þess eru lög um breytingar á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 53/1992 en þau voru uppfærð nú fyrir flutning þjónustu fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Ég gæti fjallað í heilan sólarhring um þessi lög sem eru óæðri fjárlögum og snúast að mínu mati fyrst og fremst um að vera örlítið góð við greyin ,,þegar kostur er". Lögin tryggja ekki rétt fatlaðs fólks til lífs þar sem mannleg reisn, frelsi og möguleikar til þátttöku eru til staðar á öllum sviðum lífsins. Vísun í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var sett inn í markmiðsgrein laganna um áramót en það er kaldhæðnislegt frá því að segja að mörg önnur ákvæði laganna ganga gegn kröfum Sameinuðu þjóðanna til aðildarríkja. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlað fólk, sem var unnin árið 2010, kemur fram hörð gagnrýni á velferðarráðuneytið um að skipulag og stjórnun málaflokks fatlaðs fólks sé ábótavant, að faglega og fjárhagslega viðurkennda stefnu skorti og eftirlitið með þjónustunni sé lítið sem ekkert. Yfirstandandi rannsóknir innan fötlunarfræða sýna einnig fram á þessa stöðu.

Dæmi um aðstöðu sem fatlað fólk á Íslandi býr við er að það getur ekki stjórnað hvar og með hverjum það býr, hvenær það fer á salernið og í sturtu, hvenær og hvað það borðar í kvöldmat og hver veitir því aðstoð, hvar og hvernig. Í okkar nútíma þjóðfélagi, sem státar af því að halda uppi norrænu velferðarkerfi, þarf fólk sem tjáir sig með táknmáli að panta það með margra daga fyrirvara að fá að heyra og tala við heyrandi fólk sem kann ekki táknmál. Þá þurfa sumir foreldrar fatlaðra barna að berjast fyrir rétti þeirra til lífs og fyrir að fá aðstoð inn á heimili þess, í þeirra nærumhverfi, en ekki einungis aðstoð í fjarlægð frá fjölskyldum þess. Til að undirstrika þessa aumkunarverðu stöðu er skemmst frá því að segja að á haustmánuðum í fyrra fór ég ásamt samstarfsfólki mínu á ráðstefnu Evrópusamtaka fatlaðs fólks um sjálfstætt líf á styrk sem Norðmenn veittu til þróunarlanda á sviði málefna fatlaðs fólks.

Það er ljóst að við höfum verk að vinna. Þar með er nauðsynlegt að við horfumst í augu við það ójafnrétti sem hér ríkir gagnvart ólíkum valdaminni hópum og festum í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, grunnlögum okkar, skýrt jafnréttisákvæði sem tilgreinir sérstaklega þá hópa sem sagan sýnir, og alþjóðasamfélagið viðurkennir, að ber að vernda sérstaklega. Það sem slíkt hefur skilað minnihlutahópum miklum árangri í baráttu sinni. Sú sama saga og sýnir öll þau mannréttindabrot sem hafa átt sér stað, sýnir einnig að hver og einn hópur hefur þrýst hvor öðrum áfram meðvitað og ómeðvitað til aukinna réttinda. Mismunun, útilokun og ójafnrétti hafa í raun ekkert að gera með líffræðilegt ástand fólks heldur eru það viðbrögð okkar við því sem skapar vandann. Þessi samfélagsmein eru því sköpunarverk okkar allra. Eins sorgleg og sú staðreynd er ber okkur að fagna henni því hún gefur von, og í raun vissu, um að við sem manneskjur getum breytt því sem við höfum áður skapað. Við höfum náð gríðarlegum árangri í að tryggja öllu fólki jöfn mannréttindi sem þýðir að það er engin ástæða til að hætta núna.

Einu sinni þótti okkur eðlilegt að konur væru eign þeirra karlmanna sem þær giftust, að reka manneskju úr vinnu vegna þess að hún var samkynhneigð, álíta svart fólk heimskt og ógeðslegt og loka fötluð börn inni því það var svo mikil skömm að eiga þau. Í dag þykir okkur öllum þetta fáránlegar staðreyndir - vonandi. Það þýðir að í framtíðinni munum við horfa til baka á það misrétti sem nú ríkir og eiga í mestum vandræðum með að skilja hvernig í ósköpunum okkur tókst að láta það viðgangast. En til þess þurfum við að horfast í augu við söguna og veruleika dagsins í dag, með því að lögfesta að allir skuli vera jafnir fyrir lögum, og viðurkenna að sérstaklega beri okkur að vernda ákveðna hópa gegn mismunun. Í huga mér er þetta nauðsynlegt á meðan að ,,allir" eru ennþá bara ,,sumir". Jafnframt tel ég mannréttindavernd vera grunnforsendu þess að skapa aðstæður fyrir borgarana til þess að geta notið sín, þroskast og þannig borið þá ábyrgð sem þeir hafa við að að þróa, byggja upp og fegra samfélag okkar.