Fylgiskjal

Tekið fyrir: 8. ráðsfundur

Tillögur nefndar B til kynningar á 8. fundi

1. Skilgreining á hlutverki Alþingis
Upphafsgrein kafla um Alþingi hljóði svo:
Alþingi sækir vald sitt til þjóðarinnar. Það fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum.

2. Aukið vægi þingforseta
Alþingi kýs sér forseta með ⅔ hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.
Forseti stýrir störfum Alþingis. Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Með forseta starfa varaforsetar og mynda ásamt honum forsætisnefnd.
Forseti Alþingis víkur frá almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.

3. Þingnefndir og hlutverk þeirra
Frumvörp og önnur þingmál eru undirbúin og um þau fjallað í þingnefndum. Alþingi kýs fjárlaganefnd, eftirlits- og stjórnskipunarnefnd, utanríkismálanefnd og aðrar nefndir til þess að fjalla um þingmál. Um störf þingnefnda skal mælt fyrir í lögum.

4. Frumkvæðisréttur
Alþingismenn hafa einir rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur mál.

5. Ráðherrar sitji ekki á þingi
Ráðherrar svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en gæta verða þeir þingskapa.
Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.
Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embætti og tekur varamaður þá sæti hans.

6. Upplýsingaréttur fjárlaganefndar
Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra sem fá framlög úr ríkissjóði um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár.

7. Upplýsingaskylda ráðherra
Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar umbeðnar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra[, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum]. Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

8. Árleg skýrsla ríkisstjórnar til Alþingis
Árlega leggur ríkisstjórn fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins.
Ráðherra getur gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.

9. Skipun embættismanna
[Forseti Íslands,] ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti er lög mæla.
Við skipun manna í embætti skal einungis líta til hæfni og málefnalegra sjónarmiða.
Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eið eða drengskaparheit við stjórnarskrána.