Fylgiskjal

Tekið fyrir: 7. ráðsfundur

Tillaga nefndar C frá 6. fundi til afgreiðslu á 7. fundi

DÓMSTÓLAR


D1 Skipan dómstóla

Skipan dómstóla, þar á meðal dómstig og fjöldi dómara, skal ákveðin með lögum.

D2 Sjálfstæði dómstóla

Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum. Dómstólar mega hvorki sinna störfum sem samkvæmt venju eða eðli sínu heyra undir aðra valdþætti ríkisins né má fela þeim slíkt með lögum.

D3 Lögsaga dómstóla

Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og um sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

Dómstólar skera úr um hvort lög standist stjórnarskrá að því marki sem á það reynir í dómsmáli.

Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

D4 Hæstiréttur Íslands

Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

Ákveða má með lögum að sérstakur dómstóll skuli leysa endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til dómstóla.

D5 Skipun dómara

Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum.

[Forseti Íslands] skipar dómara eða setur þá í embætti og veitir þeim lausn án tillögu ráðherra. Tryggt skal með lögum að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Lögskipuð nefnd skal meta hæfi umsækjenda. Velji [forseti] ekki í embætti dómara einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis.

Dómara verður ekki vikið endanlega úr embætti nema með dómi, og þá aðeins ef hann hefur glatað skilyrði til að gegna embættinu eða sinni ekki skyldum sem starfanum tengjast.

D6 Sjálfstæði dómara

Dómarar skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.