25. fundur stjórnar

19.07.2011 16:00

Dagskrá:

1. Fundargerðir síðustu funda
2. Breytingartillögur
3. Starfið framundan
4. Önnur mál

Fundargerð

25. stjórnarfundur - haldinn 19. júlí 2011, kl. 16.00 í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Auk þess sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda B og C, þau Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir. Forföll hafði boðað Örn Bárður Jónsson, varaformaður verkefnanefndar A.

Þá sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins samdægurs, með tölvupósti framkvæmdastjóra í umboði formanns.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir síðustu funda

Frestað.

2. Breytingartillögur

Frestur ráðsfulltrúa til að koma á framfæri breytingartillögum sínum fyrir 17. ráðsfund rann út á hádegi í dag. Tillögurnar voru settar inn í sérstakt skráningarkerfi á innra neti ráðsins. Varaformaður og framkvæmdastjóri hafa unnið að því að flokka tillögurnar og þeirri vinnu er ekki lokið.

Farið var yfir drög varaformanns og framkvæmdastjóra að lýsingu á fyrirkomulagi við meðferð á breytingartillögum og tilhögun 17. ráðsfundar að öðru leyti. Gerðar voru nokkrar breytingar á skjalinu og það samþykkt að svo búnu.

Jafnframt var samþykkt að leggja til breytingu á starfsreglum ráðsins, sbr. fylgiskjal með fundargerð. Haldinn verður óformlegur kynningarfundur um þetta efni í fyrramálið.

Formaður vísaði til samþykktar á síðasta stjórnarfundi, þess efnis að hafa annars vegar mannréttindi og hins vegar umhverfis- og auðlindamál í aðskildum köflum. Skjalið var þó ekki birt svo á vef ráðsins heldur voru umrædd atriði saman í einum kafla. Sú birting var á grundvelli ákvörðunar stjórnar utan fundar. Heildarskjal frumvarpsins fór því út í tveimur útgáfum. Ákveðið var að ljúka málinu með því að leggja fyrir næsta ráðsfund tillögu stjórnar þess efnis að umhverfis- og auðlindakaflinn verði sérkafli undir tiltekinni fyrirsögn.

3. Starfið framundan

Að loknum fundi stjórnar verður boðað formlega til 17. ráðsfundar, sem hefjast mun kl. 13.00, á morgun miðvikudaginn 20. júlí. Þá mun formaður gera grein fyrir frumvarpsdrögum og leggja þau fram til fyrri umræðu, sbr. 15. gr. starfsreglna ráðsins. Umfjöllun fundarins mun hefjast á ákvæðum varðandi undirstöður. Aðfaraorð eru staðsett framar í skjalinu en tími ráðsfulltrúa til að skoða þann texta hefur verið skammur.

4. Önnur mál

Rætt var um fyrirkomulag á blaðamannafundi næstkomandi föstudag, kl. 10.30.

5. Næsti fundur

Formaður mun boða til næsta fundar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.10.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.