24. fundur stjórnar

18.07.2011 09:45

Dagskrá:

1. Fundargerðir síðustu funda
2. Staða verkefna
3. Starfið framundan
4. Önnur mál

Fundargerð

24. stjórnarfundur - haldinn 18. júlí 2011, kl. 9.45 í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Auk þess sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda B og C, þau Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir. Forföll hafði boðað Örn Bárður Jónsson, varaformaður verkefnanefndar A.

Þá sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins með tölvupósti framkvæmdastjóra 17. júlí, í umboði formanns.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir síðustu funda

Frestað.

2. Staða verkefna

Ákveðið var að framlengja frest vegna breytingatillagna til hádegis á morgun, þriðjudag, í þeim tilgangi að betra ráðrúm gefist til að bregðast við innkomnum erindum og umsögnum.

Samþykkt að birting á texta ákvæða í drögum að frumvarpi verði kl. 14.00 í dag en skýringar verða ekki birtar fyrr en í lokin. Texti þeirra er enn í vinnslu.
Farvegur fyrir athugasemdir ráðsfulltrúa við drög að skýringum verður í gegnum formann viðkomandi nefndar.

3. Starfið framundan

Ákveðið var að 17. ráðsfundur hefjist kl. 13.00 miðvikudaginn 20. júlí. Þá hefst fyrri umræða um frumvarpsdrög Stjórnlagaráðs og umfjöllun um breytingartillögur við þau. Heppilegt talið að ljúka afgreiðslu á breytingartillögum eftir því sem frekast er kostur en ljóst að einhverjum slíkum verður vísað til nefnda.

Varaformanni og framkvæmdastjóra ráðsins falið að setja upp nánari lýsingu á fyrirkomulagi breytingartillagna og tilhögun fundarins að öðru leyti.

4. Önnur mál

Ákvæði 71. gr. um þingrof í drögum að frumvarpi verður breytt til þess horfs sem það var í eftir samþykkt á 11. ráðsfundi. Orðalagið „Forseti Íslands getur rofið Alþingi að ósk þess." fer sem sagt aftur inn í stað orðalagsins „Forseti Íslands skal rjúfa Alþingi að ályktun þess." Síðari setningin fór inn í frumvarpsdrögin á föstudaginn, sem lagfæring að ósk B-nefndar, en stjórn telur um efnislega breytingu að ræða sem þurfi að bera upp sérstaklega.
Samþykkt að tillaga frá Erni Bárði Jónssyni um aðfaraorð fari inn í frumvarpsdrög en verði tekin til sérstakrar meðferðar. Pawel Bartoszek lætur færa til bókar efasemdir sínar um að hafa eigi aðfaraorð yfirleitt, enda sé með því vikið frá norrænni lagahefð. Þá lýsti Salvör Nordal þeirri skoðun sinni að aðfaraorð væru þess eðlis að allir ráðsfulltrúar þyrftu helst að vera þar á einu máli.

Samþykkt var að breyta fyrirsögn 12. gr. úr „Upplýsingafrelsi" í „Upplýsingaréttur".

Rætt var um kaflaskiptingu með tilliti til ákvæða um mannréttindi, umhverfis- og auðlindamál. Greidd voru atkvæði um hvort hafa ætti tvo sérkafla eða einn sameiginlegan. Fjórir sögðu já og einn sat hjá (SBÓ). Niðurstaðan var því sú að hafa tvo kafla, annan með ákvæðum um mannréttindi og hinn með ákvæðum um umhverfis- og auðlindamál.

Samþykkt var að breyta fyrirsögn III. kafla úr „Náttúra og umhverfi" í „Náttúra og auðlindir".

Rætt var um möguleika á að birta frumvarp ráðsins og skýringar með því sem víðast á netinu.

5. Næsti fundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 19. júlí.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.