22. fundur stjórnar

13.07.2011 16:00

Dagskrá:

1. Fundargerðir síðustu funda
2. Vinnan framundan
3. Önnur mál

Fundargerð

22. stjórnarfundur - haldinn 13. júlí 2011, kl. 16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Auk þess sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda A, B og C, þau Örn Bárður Jónsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Þá sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins með tölvupósti framkvæmdarstjóra 12. júlí, í umboði formanns.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir síðustu funda

Frestað.

2. Vinnan framundan

Formaður lýsti því að á nýafstöðnum 16. ráðsfundi hefði lokið umfjöllun um áfangaskjal og við tæki vinna við drög að frumvarpi, sbr. ákvæði starfsreglna þar að lútandi og hlutverk stjórnar í því sambandi.

Rætt var um verkefnið framundan og forgangsröðun í því sambandi. Samþykkt var að leggja fyrst áherslu á ákvæði frumvarpsins og að því loknu texta skýringa við þau. Leiðbeiningum um greinargerðaskrif var dreift til fulltrúa fyrir nokkru og haldinn kynningarfundur um sama efni. Tilgangurinn er að stuðla að samræmdum og vönduðum vinnubrögðum. Ljóst er þó að ekki er ráðrúm til að gera ítrustu kröfur um samræmi í stíl og lengd skýringa frá einstökum nefndum og fulltrúum, enda getur orðalag verið mjög vandmeðfarið. Formaður og aðallögfræðingur geta þó tekið brýnustu, ritstjórnarlegar ákvarðanir í því sambandi.

Fram kom að ekki hafa borist svör eða umsagnir allra þeirra sem leitað hefur verið til eftir slíku.

Samþykkt var að texta frumvarps og drögum að skýringum með því verði dreift til ráðsfulltrúa föstudaginn 15. júlí. Markmiðið er að fulltrúar geti undirbúið og lagt fram breytingartillögur sínar með nægum fyrirvara fyrir 17. ráðsfund.
Í starfsreglum Stjórnlagaráðs er ekki fjallað um frest til að skila breytingartillögum. Ljóst er hins vegar að slíkar tillögur þurfa að berast öðrum ráðsfulltrúum með hæfilegum fyrirvara. Samþykkt var að gera ráð fyrir að fulltrúar verði að skila breytingartillögum sínum fyrir kl. 14.00 mánudaginn 18. júlí og að 17. ráðsfundur munu hefjast þriðjudaginn 19. júlí.

3. Önnur mál

3.1 Ákvæði um skipan dómara og ríkissaksóknara

Í 5. gr. þess kafla áfangaskjals sem fjallar um dómsvald er kveðið á um skipan dómara. Fyrir stjórn lá að taka afstöðu til þess hvort færa ætti þessa grein til samræmis við ákvæði um ríkissaksóknara. Gengið var til atkvæða og fjórir samþykktu en einn sat hjá (SBÓ).

3.2 Valkostir varðandi þingsetu ráðherra

Í þeim kafla áfangaskjals sem fjallar um ráðherra og ríkisstjórn, nánar tiltekið 5. gr. eru tveir valkostir sem B-nefnd hefur vísað til stjórnar að taka afstöðu til.
Nánar tiltekið eru valkostir þessir:
„Valkostur 1: Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans."
„Valkostur 2: Sé alþingismaður skipaður ráðherra segir hann af sér þingmennsku og tekur varamaður þá sæti hans."
Rætt var um málið og ákveðið að fara skyldi fram atkvæðagreiðsla.
Fyrst voru greidd atkvæði um valkost 1 og féllu þau svo: Tveir sögðu já (AT og PB). Þrír sátu hjá (KF, SBÓ, SN).
Þessu næst voru greidd atkvæði um valkost 2 og féllu þau svo: Einn sagði já (KF) en aðrir sátu hjá.
Niðurstaðan var því sú að valkostur 1 naut meiri stuðnings í stjórn.

3.3 Umfjöllun formanns um tillögur B-nefndar

Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður B-nefndar, vísaði til þess að á nýafstöðnum 16. ráðsfundi hefði Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, tekið til máls undir dagskrárliðnum „Skýrsla og tillögur B-nefndar." Þar hefði komið fram nokkuð alvarleg gagnrýni hennar á tillögur nefndarinnar. Ástæða væri til að fá nánari útskýringar á þeirri gagnrýni og afstöðu formanns í framhaldinu. Katrín Fjeldsted, formaður B-nefndar, tók undir þetta.
Salvör Nordal lýsti þeirri afstöðu sinni að um væri að ræða flóknar og efnismiklar tillögur en þeim fylgdi takmarkaður rökstuðningur. Hún hafi ítrekað kallað eftir frekari skýringum, bæði á stjórnarfundum, fundum með B-nefnd, tölvupósti til formanns nefndarinnar og með því að beita sér fyrir sérstökum fundi ráðsfulltrúa um málið. Jafnframt hafi komið fram miklar athugasemdir frá sérfræðingum. Hún hefði því ekki getað stutt tillögurnar eins og þær hefðu verið kynntar, heldur myndi taka afstöðu til þeirrar þegar rökstuðningur lægi fyrir. Þá taldi hún þessa afstöðu ekki hafa áhrif á störf hennar sem formanns ráðsins.

4. Næsti fundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 15. júli.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.37.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.