19. fundur stjórnar

06.07.2011 17:00

Dagskrá:

1. Fundargerðir síðustu funda
2. Staða nefndastarfa
3. Fyrirkomulag starfsins fram undan
4. Önnur mál
5. Næsti fundur

Fundargerð

19. stjórnarfundur - haldinn 6. júlí 2011, kl. 17.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Auk þess sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda A og C, þau Örn Bárður Jónsson og Íris Lind Sæmundsdóttir. Forföll hafði boðað Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður verkefnanefndar B.

Þá sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar, 4. júlí, og með tölvupósti síðar þann sama dag.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir síðustu funda

Fundargerðum 17. og 18. fundar frestað.

2. Staða nefndastarfa

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum sem farið hefðu fram og skipulagi áframhaldandi vinnu. Nefndir leggja nú áherslu á undirbúning greinargerða, þar á meðal að bregðast við athugasemdum sérfræðinga og annarra, að því marki sem þær liggja nú fyrir.
Rætt var um muninn á því annars vegar að vinna drög að heildarfrumvarpi og hins vegar einstakar breytingartillögur við núgildandi stjórnarskrá. Fram kom að með samþykkt fyrstu útgáfu áfangaskjals á 4. ráðsfundi hefði verið tekin sú stefna að vinna heildarfrumvarp.
Rætt var um mismunandi stöðu vinnu við einstaka þætti í tillögum og hugmyndum nefnda. Formaður lýsti áhyggjum sínum af því að rökstuðning skorti fyrir mikilvægum þáttum í tillögum B-nefndar.
Formaður lagði áherslu á að nefndir forgangsraði og hafi þar til viðmiðunar þau atriði sem ráðinu hafi verið falin af Alþingi, sbr. ályktun þingsins frá 24. mars 2011. Ljóst sé að starfi ráðsins muni ljúka um næstu mánaðamót.
Við atkvæðagreiðslur um ákvæði í áfangaskjali mun reyna á efnislega afstöðu hvers og eins fulltrúa, enda hafa ráðsfulltrúar hingað til lagt sameiginlega áherslu á að afgreiða texta inn í áfangaskjal.

3. Fyrirkomulag starfsins fram undan

Fjallað var um skipulag starfsins fram undan og ákveðið að halda ekki ráðsfund næsta föstudag, 8. júlí.

4. Önnur mál

Þar sem vinnu nefnda við áfangaskjal mun ljúka innan skamms var ákveðið að í næstu viku verði ný erindi ekki tekin fyrir á fundum nefnda svo sem verið hefur. Upplýsingum um þetta verði komið á framfæri á ytri vef ráðsins. Eftir sem áður geti fólk komið sjónarmiðum sínum þar á framfæri, enda áframhaldandi vinna fulltrúa fram undan.

5. Næsti fundur

Ákveðið að næsti fundur stjórnar verði haldinn á morgun, fimmtudaginn 7. júlí, kl. 12.00.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.06.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.