37. fundur B-nefndar

08.07.2011 10:00

Dagskrá:

1. Greinargerð - verkáætlun.

2. Ákvæði um skipun embættismanna.

3. Greinargerð - úthlutun verkefna.

4. Önnur mál.

Fundargerð

37. fundur B-nefndar haldinn 8. júli 2011, kl. 10:00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Pétur Gunnlaugsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Gísli Tryggvason, Vilhjálmur Þorsteinsson, Eiríkur Bergmann Einarsson og Erlingur Sigurðarsson.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður Katrín Fjeldsted setti fundinn. Heildartillögur nefndarinnar, í lok dags 7. júli, voru dreifðar til nefndarmanna.

 

1. Greinargerð - verkáætlun.

 

Samþykkt að nefndarmenn myndu skipta með sér verkum og skrifa um markmið með breytingum á einstaka greinum og í almennum athugasemdum.
Samræming fer fram á nefndarsviði, Sif Guðjónsdóttir yfirlögfræðingur heldur fund kl. 12:45.

Dreift var skjali meðal nefndarmanna þar sem er að finna megináherslur við greinargerðarskrif sbr:
Óbreytt frá núgildandi stjórnarskrá (samt tekið inn í heildarskjalið)?
Ef breytt - í hverju er breytingin fólgin (í samhengi við núgildandi stjórnarskrá/rétt):
• Nýtt ákvæði (þó talið gildandi réttur nú þegar - eða alveg nýtt)?
• Eldra ákvæði breytt (einungis „orðalagi" og/eða efnislegu inntaki)?
• Forsaga, bakgrunnur (þ. á m. samspil við skýrslu og núgildandi stjórnarskrá).
• Nauðsyn (hvaða almannahagsmunir kalla á) - áhersla á mat/umræður í ráði.
• Markmið (til framtíðar) - áhersla á mat/umræður í ráði.
Aðrar leiðir sem hefðu verið færar og hvers vegna þær urðu ekki fyrir valinu - áhersla á mat/umræður í ráði.
Hvernig ber að skilja einstök atriði. Nefna dæmi þar sem það á við - áhersla á mat/umræður í ráði.

 

2. Ákvæði um skipun embættismanna

 

Til umræðu var tekið tillaga að ákvæði um stjórnsýslunefnd embættisveitinga sem send var öllum ráðsfulltrúum þann 7. júlí, frá Þorvaldi Gylfasyni og Katrínu Oddsdóttur. Ákvæðið á að gilda, samkvæmt tillögunni, almennt um veitingu embætta á vegum ríkisins.
Lögð var fram önnur tillaga af Eiríki Bergmann Einarsyni og Vilhjálmi Þorsteinssyni um skipan embætta.
Tillögurnar voru ræddar.
Afgreitt var ákvæði frá nefnd B um skipun embættismanna, sjá vinnuskjal nefndarinnar.
Erlingur Sigurðarsson bókar mótmæli við framliggjandi tillögu um skipun embættismanna. Erlingur leggur til að atkvæðið verði stytt verulega.

 

3. Greinargerð - úthlutun verkefna

 

Formaður óskaði eftir séróskum nefndarmanna í sambandi við greinargerðarskrif.
Skjal útbúið um stöðu á greinargerðarvinnu„Greinargerð - stöðurit". Nefndarmenn skiptu með sér verkum um skrif á greinargerð eftir ákvæðum. Nefndarritari ásamt formanni og varaformanni halda utan um greinargerðarskrif.
Vilhjálmur bjó til rafræn skjöl fyrir greinargerðarskrif einstaka kafla.

 

4. Önnur mál

Samþykkt að nefndarritari sendi Björgu Thorarensen nýjustu tillögur B-nefndar til yfirlestrar.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15.40.