27. fundur B-nefndar
23.06.2011 09:30
Dagskrá:
1. Breytingartillögur
2. Greinargerð
3. Önnur mál
27. fundur B-nefndar - haldinn 23. júní 2011, kl. 09:30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Vilhjálmur Þorsteinsson, Pétur Gunnlaugsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Erlingur Sigurðarsson.
Ástrós Gunnlaugsdóttir hafði boðað forföll og Gísli Tryggvason tilkynnt um seinkun.
Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.
Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn. Gengið var til dagskrár.
1. Breytingartillögur
• Meðferð þingmála
Gísli Tryggvason mætti á fundinn kl. 10:30.
Orðalag bætt þar sem tekið er af allan vafa að frumvörp eru tekin til umræðu í nefndum áður en þau eru lögð fyrir þingið. Nefndarmenn voru almennt sammála um að sú breyting leiði til þess að umræður á Alþingi verði málefnalegri og markvissari þannig að þingmenn hafi fengið dýpri skilning á málum áður en fyrst umræða fer fram, aðallega þeir er sitja í viðkomandi nefnd.
Ábending kom fram um að skipta ákvæðinu upp og fjalla sérstaklega um meðferð þingsályktunartillagna og annara ákvæða sér. Ekki var fallist á það að svo stöddu.
• Þingnefndir
Samþykkt af nefndarmönnum að ákvæði yrði breytt á þá að ekki séu taldar upp tilteknar fastanefndir. Aðeins er nefnt í ákvæðinu nú að Alþingi kjósi sér fastanefndir.
• Málskotsréttur
Nefndarmenn samþykktu að setja inn valkost I og II. Í þeim fyrri er málskotsrétturinn lítið eitt breyttur frá núverandi mynd og að meginstefnu samhljóða tillögu stjórnlaganefndar. Í hinum síðari hefur forsetinn rétt til að synja undirskrift laga með þeim hætti að lögunum er vísað aftur til annarrar umræðu hjá þinginu.
• Þingforseti
Minniháttarbreyting á ákvæði um þingforseta í samhengi við að hann fari með handhöfn forsetavalds. Nauðsynlegt er að kveða á um varmenn þingforseta séu staðgenglar hans og því er tekin af allur vafi um að varaforsetar þingsins taki við þegar undirrita þarf samþykkt lög áður en þau eru lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar og forseti Alþingis er fjarstaddur eða forfallaður af öðrum ástæðum.
2. Greinargerð
Rætt um skipulag vinnu á greinargerðum. Ákveðið að fulltrúar fái hver um sig úthlutað ákveðnum verkefnum og hluta af greinargerðarvinnunni.
3. Önnur mál
Samþykkt var að hitta Björgu Thorarensen prófessor í lögum til að ræða einstaka atriði við framkomnar tillögur B-nefndar mánudaginn 27. júní kl. 9:30.
Minnisblað frá Ragnhildi Helgadóttur prófessor frá lagadeild Háskóla Íslands er væntanlegt samkvæmt upplýsingum frá nefndarritara.
Tilkynnt að Sigurður Rúnar Sigurjónsson komi á fund nefndarinnar kl. 13.00 þann 27. júní jafnframt.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.