19. ráðsfundur

28.07.2011 14:00

Dagskrá:
  1. Aðfaraorð
  2. Bréf Stjórnlagaráðs til Alþingis

 

Fundargerð

19. ráðsfundur - haldinn 28. júlí 2011, kl. 14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.

Þá sat fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs.

Forföll hafði boðað: Ástrós Gunnlaugsdóttir.

Fundurinn var haldinn í sal Stjórnlagaráðs á 5. hæð, þar sem búnaður í fundarsal á 2. hæð hafði verið tekinn niður vegna undirbúnings fyrir starfslok ráðsins og skil á húsnæði þess. Upphaflega var fyrirhugað að fundurinn væri óformlegur en fulltrúar ákváðu að um formlegan ráðsfund væri að ræða, þar sem ákvörðun um aðfaraorð var frestað á 18. ráðsfundi.

Til fundarins var boðað af hálfu stjórnar með tölvupósti 27. júlí 2011 og dagskrá var í samræmi við fundarboð.

Formaður Stjórnlagaráðs, Salvör Nordal, setti fundinn og stýrði honum.

1. Aðfaraorð

Í framhaldi af óformlegum fundi sama dag kynnti Ari Teitsson sáttahugmynd, í formi eftirfarandi bókunar um afgreiðslu aðfaraorða:

"Á 7. ráðsfundi, sem fór fram dagana 5.-6. maí 2011, var samþykkt tillaga um að nýrri 1. gr. skyldi bætt fremst í áfangaskjal. Myndi stjórnarskráin þá hefjast á inngangsorðum, þar sem tilgreind væru helstu gildi sem liggja stjórnarskránni til grundvallar. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að sérstaklega skyldi litið til niðurstöðu þjóðfundar þar sem áhersla var m.a. lögð á lýðræði, frið, frelsi, sjálfbærni, jafnrétti, menningu, valddreifingu og ábyrgð. Segir jafnframt í greinargerð að texti greinarinnar skyldi unninn sameiginlega af öllum fulltrúum Stjórnlagaráðs, eftir því sem starfinu yndi fram.

Síðar var tekin ákvörðun um að aðfaraorðin skyldu ekki vera í 1. gr. frumvarpsins heldur skyldu þau vera inngangsorð og tóku nokkrir ráðsfulltrúar að sér að leiða málið til lykta í samráði við aðra fulltrúa.

Ljóst var frá upphafi að ekki voru allir fulltrúar á eitt sáttir um að aðfaraorð ættu yfirhöfuð að prýða nýja stjórnarskrá. Bent var á að slík inngangsorð væru ekki í stjórnarskrám annarra norrænna ríkja. Hins vegar var vísað til nýrrar tillögu að stjórnarskrá Færeyja þar sem snörpum lagatexta er fylgt úr hlaði með stuttum inngangi af sama tagi og hér er lagt til. Eins og eðlilegt er getur sitt sýnst hverjum í hópi ráðsfulltrúa um eðli og stíl aðfaraorða, þótt samhugur ríki um þau markmið sem aðfaraorðin sem hér eru lögð fram lýsa.

Ekki vannst tími til að ganga frá aðfaraorðunum með þeim hætti sem lagt var upp með. Fyrir vikið gafst ekki ráðrúm til sömu málsmeðferðar á tillögu um aðfaraorð og var viðhöfð um frumvarpið að öðru leyti. Að framansögðu má ljóst vera að ferill og staða aðfaraorðanna er veikari en frumvarpsins í heild."

Miklar umræður urðu um framangreindan texta og óskaði meirihluti fundarmanna eftir því að ljúka málinu fremur með atkvæðagreiðslu um aðfarorðin.

Atkvæði féllu svo:
Já: Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Illugi Jökulsson, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.
Sit hjá: Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason.
Nei: Enginn.
Fjarverandi: Ástrós Gunnlaugsdóttir.
Samtals 25

Tillaga að aðfaraorðum var því samþykkt með þrettán atkvæðum en ellefu sátu hjá. Einn var fjarverandi.

2. Bréf Stjórnlagaráðs til Alþingis

Lögð voru fram drög stjórnar að bréfi Stjórnlagaráðs, sem fylgja mun frumvarpi ráðsins þegar það verður afhent forseta Alþingis.

Fram fóru almennar umræður um bréfið og voru gerðar á því nokkrar breytingar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.15.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.