18. fundur stjórnar
04.07.2011 14:00
Dagskrá:
- Fundargerðir síðustu funda
- Staða nefndastarfa
- Fyrirkomulag og dagskrá vikunnar
- Starfsáætlunin út júlí
- Önnur mál
- Næsti fundur
18. fundur stjórnar - haldinn 4. júlí 2011, kl. 14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður og nefndarmaður í verkefnanefnd C, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar, C og Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður sömu nefndar.
Forföll höfðu boðað Örn Bárður Jónsson, varaformaður verkefnanefndar A, og Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður verkefnanefndar B.
Þá sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.
Boðað var til fundarins með tölvupósti 1. júlí.
Formaður setti fundinn og stýrði honum.
1. Fundargerðir síðustu funda
Fundargerð 16. fundar stjórnar var lögð fram til kynningar á 17. fundi og nú samþykkt án athugasemda.
Fundargerð 17. fundar stjórnar var frestað.
2. Staða nefndastarfa
Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum sem farið hefðu fram og skipulagi áframhaldandi vinnu, þar á meðal fundum með sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar og stjórnmálafræði. Lögð hefur verið á það áhersla að fá sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að lesa yfir og þar til viðbótar sérfræðinga á nokkrum tilteknum sviðum, þar á meðal stjórnmálafræði, að því leyti sem talin hefur verið sérstök þörf á og tillögur nefnda komnar nægilega langt.
Stjórnlagaráð hefur ekki talið sig bundið af skýrslu stjórnlaganefndar en stjórn hefur lagt á það áherslu að hægt verði að rekja skýra samræðu Stjórnlagaráðs við skýrsluna og þjóðfund. Tekin verði afstaða til þess sem fram kemur í skýrslunni og henni haldið til haga í gögnum nefnda, sbr. bókun í 4. fundargerð stjórnar.
Umfjöllun um efni utan skýrslunnar þurfi að byggjast á sambærilegum, faglegum grundvelli og standast sömu skoðun, sbr. bókun í fundargerð 7. stjórnarfundar.
Rætt var um þann skamma tíma sem Alþingi úthlutaði Stjórnlagaráði til að vinna þau verkefni sem því voru falin og þau vandkvæði sem það hefur haft í för með sér. Fram kom að þetta á meðal annars við um sérfræðivinnu og sérstaklega í þeim tilvikum að fjallað hefur verið um efni utan skýrslu stjórnlaganefndar. Nefndasvið hefur lagt á þetta áherslu og leitast við að fá slíka umfjöllun.
3. Fyrirkomulag og dagskrá vikunnar
Fjallað var um fyrirkomulag og dagskrá vikunnar, sbr. fylgiskjal. Stefnt að því að halda ráðsfund á föstudag.
4. Starfsáætlunin út júlí
Formaður lagði áherslu á að nefndir þurfi að skipuleggja tíma sinn vel og forgangsraða. Jafnframt þurfi að vanda vel rökstuðning fyrir tillögum enda mun sú vinna skila sér í greinargerð.
5. Önnur mál
Rætt um möguleika nefnda á að taka erindi til umfjöllunar á fundi. Tími nefnda fer minnkandi og því ástæða til að huga að því hvenær því verði hætt, enda þótt áfram verði hægt að taka þátt í opinberri umræðu.
6. Næsti fundur
Ákveðið að næsti stjórnarfundur verði haldinn miðvikudaginn 6. júlí, kl. 17.00.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.28.
Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir