36. fundur A-nefndar

05.07.2011 09:30

Dagskrá:

 

  1. Frágangur nokkurra greina.
    • Ríkisborgararéttur
    • Persónuvernd í upplýsingagrein
    • Gildagrein
    • Athugasemdir Aðalheiðar Jóhannsdóttur
  2. Önnur mál.

 

Fundargerð

36. fundur A-nefndar, haldinn þriðjudaginn 5. júlí 2011, kl. 9.30-11.00.

Mætt voru: Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir og Freyja Haraldsdóttir. Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason höfðu boðað fjarvistir. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

1. Frágangur nokkurra greina

a. Ríkisborgararéttur
Nefndin ræddi gagnrýni sem fram hefur komið, að með því að tiltaka eina tegund veitingar ríkisborgararéttar væri sú leið gerð „æðri“ öðrum leiðum. Þótti flestum nauðsynlegt að kveða á einhvern hátt á um tilurð ríkisborgararéttarins.
Samþykkt var að halda ákvæðinu óbreyttu.

b. Persónuvernd í upplýsingagrein
Samþykkt var að bæta inn í ákvæðið heimild til leyndar í þágu persónuverndar.

c. Gildagrein
Freyja kynnti tillögu að gildagrein sem gæti staðið fremst í stjórnarskránni. Silja Bára tók að sér að fara næstu umferð um textann og leggja fram á næsta fundi nefndarinnar.

d. Athugasemdir Aðalheiðar Jóhannsdóttur
Nýjasta útgáfa náttúru- og auðlindaákvæða var send Aðalheiði Jóhannsdóttur til athugasemda. Hún var stödd á ráðstefnu í útlöndum og gat aðeins rennt yfir greinarnar og gefið munnlegar athugasemdir í símtali við ritara A-nefndar. Meginathugasemdir hennar voru:

Upplýsingar um umhverfi: Fyrirsögnin orkar tvímælis, þar sem greinin tekur í raun til þriggja atriða (aðsteðjandi hætta, aðgangur að upplýsingum og ákvarðanatöku). Aðalheiður lagði til eitthvað í takt við „upplýsingar og ákvarðanataka“, nefndin samþykkti „upplýsingar um umhverfi og málsaðild“.

Upplýsingar um umhverfi: Spurð hvort „lögbundnum“ ætti heima með meginreglum umhverfisréttar benti Aðalheiður á að merking orðsins væri önnur en „í samræmi við lög“ líkt og hún lagði til í z. grein minnisblaðs síns. Í þessu samhengi tók hún undir með nefndinni að orðið „lögbundnum“ félli brott. Nefndin samþykkti það.

Náttúra Íslands og umhverfi: Aðalheiður leggur til að orðinu „spjöll“ sé skipt út fyrir eitthvað annað, þar sem orðið hafi fullþrönga merkingu. Spjöll nái yfir utanvegaakstur og námagröft, en síður skemmdir á vistkerfum, auk ýmissa atriða sem rýra afköst lífrænna kerfa. Umræðu um þetta var frestað til næsta fundar nefndar.

Náttúruauðlindir: Aðalheiður ítrekaði athugasemdir sínar við að réttindi væru talin til auðlinda.

2. Önnur mál

Engin rædd.