32. fundur B- nefndar
02.07.2011 10:00
Dagskrá:
1. Umsagnir fræðimanna - yfirferð
32. fundur B-nefndar haldinn 2. júli 2011, kl. 10:00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Katrín Fjeldsted, Pétur Gunnlaugsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Gísli Tryggvason, Vilhjálmur Þorsteinsson og Ástrós Gunnlaugsdóttir. Þá sat fundinn Salvör Nordal og Pawel Bartoczek.
Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.
Formaður Katrín Fjeldsted setti fundinn. Gengið var til dagskrár.
1. Umsagnir fræðimanna - yfirferð.
Nefndarmenn fóru yfir minnisblað Ragnhildar Helgadóttur, dags. 30. júní 2011. og gerðu eftirfarandi breytingar á fram komnum tillögum:
Kafli - Undirstöður
- 2. gr. handhafar. Spurning að orða þingræðisregluna skýrt í ákvæðinu. Athugasemd um að segja berum orðum að forseti fari fram framkvæmdarvaldið. Lokaákvörðun frestað.
- 3. gr. yfirráðasvæði. Athugasemd um orðalagið efnahagslögsaga en ákvæðið er að fyrirmynd stjórnlaganefndar. Óbreytt.
Kafli um Alþingi
Eiríkur Bergmann Einarsson mætti á fundinn kl. 10:30.
- 1. gr. hlutverk Alþingis. Breytt orðalag.
- 11. gr. um frumkvæðisrétt og meðferð þingmála.
Vikið að frumkvæðisrétti til lagasetningar og ferli lagasetningarvaldsins, vegna fenginna viðbragða frá sérfræðingum. Skýr vilji nefndarinnar að styrkja Alþingi og aðkomu þingmanna að löggjafarstörfum.
Samþykkt að ráðherrar geti flutt frumvörp eftir því sem þeir eru tilkvaddir og gerð breyting þess efnis í 11. gr. um meðferð þingmála. Hugsanlegt að ofangreint markmið náist með því að ráðherrar víki af þingi, og samráð milli löggjafans og stjórnarráðsins aukist jafnframt við undirbúning löggjafar, sem kann að auka gæði lagasetningar og meðvitund þingmanna um tiltekna lagasetningu. Meginatriðið er að lagafrumvörp fari fyrst inn í nefnd til umræðu , sem er sama fyrirkomulag og í Svíþjóð og Finnlandi.
Sameining á 11. og 12. gr. flutningur og meðferð þingmála.
Mikilvægt að greinargerð sé vel úr garði gerð í þessum efnum og skýri það ferli sem nefndarmenn sjá fyrir sér.
Til samræmis við störf C-nefndar er bætt við í upptalningu 1. mgr. 12. gr. að þingmál að tillögu kjósenda fari sömu leið þ.e. fyrst til nefnda.
- 3. gr. starfstími
Samkvæmt athugasemdum Ragnhildar Helgadóttur gæti það, að tilgreina ekki samkomudag og skiptingu starfstíma Alþingis í stjórnarskrá, valdið ofríki minnihlutans. Í því sambandi væri bráðnauðsynlegt að fella niður heimild til útgáfu bráðabirgðalaga.
Ákveðið að breyta ákvæði um setningu Alþingis sem nú er staðsett í kafla um forseta, nú getur þriðjungur þingmanna krafist að þingið verði sett.
- 5. gr. Eiður þingmanna
Orðalagi haldið óbreyttu þrátt fyrir athugasemd um að hugtakið „eiður" hafi fasta merkingu í lagamáli. Drengskaparheiti þótti full karllægt og ekki er talið að hagsmunir þess að halda orðalagi óbreyttu vegi þyngra en að gæta að karllægni tungumálsins.
- 15. gr. Birting laga
Sett inn í ákvæðið orðalag sem girðir ekki fyrir að beita megi ívilnandi ákvæðum til hagsbóta fyrir almenning.
- 16 og 17. gr. Skipan skattmála og skattlagningarvald
Spurning hvort það eigi að sameina þessi ákvæði, tvítekning að ákveðnu marki eins og Ragnhildur Helgadóttir bendir á. Frestað.
Vilhjálmur Þorsteinsson og Katrín Fjeldsted ákváðu að vinna að breytingartillögum eftir að fundi var slitið, en þær breytingar verða bornar upp á næsta fundi.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 13:30.