17. fundur stjórnar

28.06.2011 16:30

Dagskrá:
 1. Fundargerð síðasta fundar
 2. Staða nefndarstarfa
  - Stutt yfirlit hvers formanns
 3. Fyrirkomulag og dagskrá vikunnar
 4. Starfsáætlunin út júlí
 5. Önnur mál
  - Birting umsagna sérfræðinga
  - Bréf frá Vantrú og svar

Fundargerð

17. stjórnarfundur - haldinn 28. júní 2011, kl. 16.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C, og Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður verkefnanefndar B.

Forföll höfðu boðað Örn Bárður Jónsson, varaformaður verkefnanefndar A, og Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður verkefnanefndar C.

Þá sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins með tölvupósti 27. júní.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir síðustu funda

Fundargerðir 14. og 15. fundar stjórnar voru lagðar fram til kynningar á síðasta fundi. Engar athugasemdir höfðu komið fram og skoðuðust þær því samþykktar.

Fundargerð 16. fundar var lögð fram til kynningar.

2. Staða nefndastarfa

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu stuttlega grein fyrir umræðum sem farið hefðu fram, þar á meðal fundum með sérfræðingum, og skipulagi áframhaldandi vinnu.

3. Fyrirkomulag og dagskrá vikunnar

Fjallað var um skipulag næstu viku, sbr. fylgiskjal.

Á 15. ráðsfundi á föstudaginn, 1. júlí, munu A og C-nefndir leggja fram tillögur og B-nefnd gefa skýrslu.

4. Starfsáætlun fyrir júlímánuð

Rætt var um þörf á að endurskoða starfsáætlun ráðsins, sem samþykkt var á 11. ráðsfundi. Tillögur formanns um breytingar í því efni voru samþykktar og verða lagðar fyrir næsta ráðsfund, fylgiskjal með fundargerð.

Katrín Fjeldsted vék af fundi.

5. Önnur mál

5.1 Birting umsagna sérfræðinga

Borist hafa umsagnir um tillögudrög nefnda frá nokkrum sérfræðingum og jafnframt hafa gestir komið á fundi nefnda. Samkvæmt starfsreglum ráðsins skal birta slíkar umsagnir og í flestum tilvikum hafa sérfræðingar samþykkt birtingu. Útbúa þarf farveg á ytra neti fyrir opinbera birtingu skjala af þessu tagi.
Ljóst er þó að sá tímarammi sem ráðið hefur sett sérfræðingum hefur verið mjög þröngur og tillögur sem veita á umsögn um ekki fullunnar. Að því leyti hafa komið fram fyrirvarar, athugasemdir og þess eru dæmi að fólk hafi ekki séð sér fært að taka þátt af þessum sökum. Jafnframt eru margir í sumarleyfum á þessum árstíma.

Nefndasvið hefur því ekki talið fært að gera ófrávíkjanlega kröfu um birtingu en lagt áherslu á að fá umsagnir, til að nýta tíma ráðsins sem best. Þannig hefur Björg Thorarensen prófessor t.d. jafnan tekið fram að minnisblöð hennar séu aðeins sett fram til umhugsunar og umræðu og ekki ætlast til að þeim verði „dreift víða eða þau birt sem einhvers konar rökstutt álit". Þessi minnisblöð verða því ekki birt á ytri vef ráðsins, enda þótt þeim hafi verið dreift til allra ráðsfulltrúa og verði haldið til haga á innra neti ráðsins. Minnisblöðunum var fylgt eftir með fundum Bjargar og viðkomandi nefndar og þar voru haldnar fundargerðir, svo sem endranær. Þar hafa því verið færðar til bókar efnislegar umræður, auk þess sem minnisblöðin eru fylgiskjöl með fundargerðinni.

Samþykkt var að senda tillögudrög nefnda til umsagnar hjá ráðuneytum og leita samráðs sem víðast, eftir því sem möguleikar eru á. Þar á meðal var samþykkt að kanna möguleika á að senda tillögur C-nefndar um kosningar til umsagnar hjá „ACE, The Electoral Knowledge Network", sjá fylgiskjal með fundargerð.

5.2. Bréf frá formanni Vantrúar

Borist hefur tölvupóstur frá Reyni Harðarsyni, formanni Vantrúar, dags. 22. júní 2011, þar sem hann gerir athugasemdir við skrif Daggar Harðardóttur í Fréttablaðinu 21. júní. Greinin ber yfirskriftina „Borgarráð, börnin og trúin" og við nafn höfundar segir „fulltrúi í stjórnlagaráði".

Dögg hefur fengið afrit af erindi þessu og komið á framfæri þeirri skýringu að Fréttablaðið hafi sett inn þennan texta, hún hafi sjálf titlað sig hjúkrunardeildarstjóra. Annað mál sé að ýmsir fulltrúar hafi skrifað greinar undir sama titli án þess að komið hafi fram athugasemdir hagsmunasamtaka við það.

Samþykkt var að stjórn geri ekki athugasemdir við að Dögg Harðardóttir sé titluð fulltrúi í Stjórnlagaráði á opinberum vettvangi. Því starfi gegni hún nú, í eigin nafni og taki þar afstöðu til mála á eigin forsendum. Í því felist ekki að hún mæli fyrir hönd ráðsins í opinberri umræðu enda hafi einstakir ráðsfulltrúar ekki heimild til þess.

6. Næsti fundur

Formaður mun boða til næsta fundar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.55.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir