30. fundur A-nefndar

23.06.2011 09:30

Dagskrá:

 

  1. Mannréttindakafli.
  2. Gestur: Aðalheiðar Jóhannsdóttir.
  3. Önnur mál.

 

Fundargerð

30. fundur A-nefndar, haldinn fimmtudaginn 23. júní 2011, kl. 9.15-12.00 og 13.15-15.00.

Mætt voru: Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

Aðalheiður Jóhannsdóttir var gestur á fundinum kl. 10.30-12.00. Salvör Nordal og Sif Guðjónsdóttir sátu fundinn kl. 10.30-12.00.

1. Mannréttindakafli

Haldið áfram lagfæringum á ákvæðum mannréttindakafla, með hliðsjón af umræðum á ráðsfundum, innsendum erindum og álitsgerðum sérfræðinga.

 

2. Gestur: Aðalheiður Jóhannsdóttir

Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindarétti við Háskóla Íslands, mætti á fundinn til að svara spurningum nefndarmanna. Hún hafði fengið náttúru- og auðlindaákvæði mannréttindakaflans til umsagnar og hafði skilað um hann minnisblaði dags. 18. júní 2011.
Auk þeirra atriða sem fram komu í minnisblaði Aðalheiðar lagði hún helst áherslu á eftirfarandi atriði:
• Í meginatriðum skipti mestu máli að ákvæði stjórnarskrárinnar væru almenns eðlis, en að skýrt væri hver merking helstu hugtaka sé. Margt sem nú stæði í texta ákvæðanna sjálfra mætti falla út, án þess þó að glatast, og því þyrfti að vanda vel til athugasemda og greinargerðar.
• Vanda þyrfti valið á þeim náttúruauðlindum sem taldar eru upp í stjórnarskrárákvæði. Annars vegar væri hægt að gagnálykta af langri upptalningu að ákvæðið næði ekki yfir auðlindir sem ekki væru taldar upp. Hins vegar orkaði tvímælis að telja viss atriði til auðlinda, t.a.m. nýtingarrétt, sem A-nefnd hefur bætt inn í upptalninguna. Mælti Aðalheiður með því að upptalningin væri frekar styttri en lengri – nánari skilgreiningar ætti að setja í greinargerð.
• Aðalheiður benti á að ekki nægði að einblína á ábyrgð hins opinbera þegar kemur að vernd náttúru og auðlinda, heldur þyrfti líka að nefna einstaklinga og lögaðila. Með því að telja lögaðila meðal þeirra sem beri ábyrgð yrði auðveldara fyrir þá að réttlæta ábyrga fjárfestingarstefnu, sem byggist ekki bara á hámarkshagnaði.
• Mikilvægt væri að skylda stjórnvöld (og aðra eftir tilvikum) til að upplýsa almenning um aðsteðjandi náttúruvá. Benti hún á mál Guerra gegn Ítalíu, þar sem mannréttindadómstóll Evrópu taldi stjórnvöld hafa brotið gegn 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, með því að upplýsa ekki um hættulega starfsemi. Komst dómstóllinn m.a. að því að upplýsingamiðlun hefði gert íbúunum auðveldara að meta hvort þeir vildu búa í námunda við hættulega starfsemi.
Að loknum fundi með Aðalheiði ræddi nefndin athugasemdir hennar og þær breytingar sem gera þyrfti til að bregðast við þeim. Þar sem ljóst þótti að gera þyrfti nokkuð viðamiklar breytingar á ákvæðum um náttúru og auðlindir var samþykkt að leggja þau ákvæði ekki fram á næsta ráðsfundi.

3. Önnur mál

Engin rædd.