27. fundur A-nefndar
21.06.2011 09:00
Dagskrá:
- Endurskoðun mannréttindakafla
- Gestur: Ragnhildur Helgadóttir
- Fundargerðir síðustu funda
- Undirbúningi greinargerða skipt á nefndarfólk
27. fundur A-nefndar, haldinn miðvikudaginn 21. júní 2011, kl. 9.30-12.15 og 13.30-15.40.
Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi frá kl. 10.00, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, sem stýrði fundi til kl. 10.00, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fjarvistir hafði boðað Illugi Jökulsson. Andrés Ingi Jónsson ritaði fundargerð.
Ragnhildur Helgadóttir var gestur á fundinum kl. 10.00-12.15. Salvör Nordal og Sif Guðjónsdóttir sátu fundinn kl. 10.00-11.00.
1. Endurskoðun mannréttindakafla
Haldið áfram lagfæringum á ákvæðum mannréttindakafla, með hliðsjón af umræðum á ráðsfundum, innsendum erindum og álitsgerðum sérfræðinga.
2. Gestur: Ragnhildur Helgadóttir
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, mætti á fundinn til að svara spurningum nefndarmanna. Hún hafði fengið náttúru- og auðlindaákvæði mannréttindakaflans til umsagnar og hafði skilað um hann minnisblaði dags. 14. júní 2011.
Auk þeirra atriða sem fram komu í minnisblaði Ragnhildar lagði hún helst áherslu á eftirfarandi atriði:
• Ljóst þarf að vera að ákvæði um tjáningarfrelsi sé ekki það opið, að það komi t.d. í veg fyrir möguleika stjórnvalda til að loka barnaklámsíðum á netinu. Til þess þurfi að lagfæra skerðingarákvæði greinarinnar. Í því skyni færi líklega best á því að taka orðið „siðgæði" aftur inn í skergðingarákvæðið.
• Í grein um upplýsingafrelsi eru talin upp mörg smáatriði, en slíkar upptalningar er einnig að finna í tillögum C-nefndar, þannig að upptalningin kann að vera í takt við heildarskjalið. Önnur leið væri að hafa ákvæðið stutt og einfalt, en færa útfærsluna í almenn lög.
• Fundafrelsi er breytt, þannig að felld er brott heimild lögreglu til að leysa upp samkomur ef uggvænt þyki að af þeim leiði óspektir. Benti Ragnhildur á að þetta væri oft eitt mildasta úrræði lögreglunnar, sem gæti verið óheppilegt að taka af henni.
• Af þeim atriðum sem alþjóðlegir sáttmálar tengja við atvinnufrelsi, þá vantar helst að nefna rétt til hvíldar og orlofs í tillögum A-nefndar - þ.e. einhvers konar samspil einkalífs og vinnu.
• Ragnhildi fannst óskýrt af tillögum A-nefndar hvort skylt sé að nýta allar náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt, eða bara þær sem eru í einkaeigu. Sé vilji nefndarinnar að allar náttúruauðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt, þá þyrfti a.m.k. að taka það fram í greinargerð.
• Taldi Ragnhildur að „fullt gjald," sem ber að greiða fyrir nýtingu auðlinda, væri óljósara í tengslum við náttúruauðlindir, en það er í eignarréttarákvæðinu. Annars vegar væri hægt að túlka þetta þannig að allur virðisauki viðkomandi greinar þurfi að renna til ríkisins. Hins vegar væri eignarréttarákvæðið í eðli sínu ólíkt, þ.s. það snýst um bætur af hendi ríkisins fyrir eignarnám - með því að hafa sama orðalag í auðlindakaflanum gæti dregið úr réttarvernd eignarréttarákvæðisins.
• Tillögur A-nefndar um stjórnarskrárígildi alþjóðlegra mannréttindasamninga, sem byggja á hugmyndum stjórnlaganefndar, fela í sér ákveðið framsal á stjórnarskrárvaldi. Þetta er eitthvað sem Ragnhildur telur að þurfi að skoða vel og fara varlega í allar breytingar.
• Ákvæði um trúfrelsi skortir heimild til skerðingar á trúariðkun. Kemur þetta til af því að nefndin hefur sett í sömu setningu rétt einstaklings til trúar, sem eðlilegt sé að hafa óskoraðan, og réttinn til að iðka trú, sem eðlilegt sé að setja einhverjar skorður.
Að loknum fundi með Ragnhildi fór nefndin yfir athugasemdir hennar og gerði nokkrar breytingar á kaflanum, til samræmis við það sem fram kom á fundinum og í minnisblaði hennar.
3. Greinargerðin
Formaður ræddi það verklag að nefndarfólk semji nokkurs konar markmiðsgreinargerð við hverja grein, sem lögfræðingar gætu svo bætt við fræðilegum rökstuðningi. Varaformaður bryddaði upp á þeirri hugmynd að vinna greinargerðirnar með opnu „crowdsource," sem væri í anda þess verklags sem Stjórnlagaráð hefur tamið sér. Hugmyndin þótti góðra gjalda verð, en greinargerðirnar þyrftu að endurspegla umræðu innan nefndar og ráðs, þannig að erfitt væri að hleypa utanaðkomandi að samningu þeirra.
4. Önnur mál
Engin rædd.
Fundi slitið kl. 15.30.