12. fundur stjórnar

07.06.2011 12:30

Dagskrá:
  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Áfangaskjalið, form þess og framsetning
  3. Staða nefndastarfa
    3.1 Stutt yfirlit hvers formanns
    3.2 Samvinna nefnda (skörun og snertifletir málefna)
  4. Fyrirkomulag funda þessa viku
  5. Fyrirkomulag 11. ráðsfundar og dagskrá
    5.1 Málefni fundarins
    5.2 Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa
  6. Önnur mál
    6.1 Hagsmunaskráning fulltrúa
    6.2 Starfskjör fulltrúa

Fundargerð

12. fundur stjórnar - haldinn 7. júní 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C. Þá sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda A, B og C, nánar tiltekið Örn Bárður Jónsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins með tölvupósti 6. júní.

Formaður setti fundinn og stýrði honum. Fyrri hluti fundarins stóð frá kl. 12.30 til kl. 13.00 og fjallað var um dagskrárliði 1, 3.1 og 6.1. Síðari hluti hans stóð frá kl. 15.15 til kl. 16.20 og þá var fjallað um aðra dagskrárliði. Sömu fulltrúar sóttu fundinn eftir hlé, aðrir en Örn Bárður Jónsson.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 11. stjórnarfundar var lögð fram og samþykkt án athugasemda.

2. Áfangaskjalið, form þess og framsetning

Vefstjóra falið að finna hentugar lausnir á tæknilegum atriðum við framsetningu áfangaskjals.

3. Staða nefndastarfa

3.1 Stutt yfirlit hvers formanns

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum sem farið hefðu þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu.

3.2 Samvinna nefnda (skörun og snertifletir málefna)

Rætt var um samvinnu nefnda, nánar tiltekið skörun og snertifleti málefna. Samþykkt að beina sérstakri athygli að slíkum þáttum í kjölfar 13. ráðsfundar.

4. Fyrirkomulag funda þessa viku

Rætt um fyrirkomulag vikunnar og ákveðið að nefndafundir nk. miðvikudag verði svo:
Fundur A-nefndar verður kl. 9.00-10.00.
Fundur C-nefndar verður kl. 10.00-14.00.
Fundur B-nefndar verður kl. 14.00-16.00.

5. Fyrirkomulag 11. ráðsfundar og dagskrá

 

5.1 Málefni fundarins

Gert var ráð fyrir að ráðsfundur myndi ná yfir á föstudag, nánar tiltekið hefjast kl. 13.00 fimmtudaginn 9. júní og kl. 9.30 föstudaginn 10. júní.

Nefndir munu gera grein fyrir málefnum sínum í röðinni C, A, B. Allar nefndirnar gera ráð fyrir að leggja fram tillögur til kynningar.

Formaður greindi frá því að í hádegishléi ráðsfundar föstudaginn 10. júní myndi Ungmennaráð UNICEF afhenda Stjórnlagaráði niðurstöður úr „Stjórnlögum unga fólksins", sem er samstarfsverkefni UNICEF á Íslandi, umboðsmanns barna og Reykjavíkurborgar, á Austurvelli.

5.2 Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa

Ekki var gert ráð fyrir liðnum „Stefnuræður fulltrúa" á dagskrá næsta ráðsfundar, enda hafa formanni ekki borist beiðnir þar um.

6. Önnur mál

6.1 Hagsmunaskráning fulltrúa

Samþykkt var að stjórn fari þess á leit við fulltrúa að þau taki þátt í formlegri skráningu hagsmuna sinna. Ljóst er að margir fulltrúar hafa þegar sett fram slíkar upplýsingar opinberlega, þar á meðal í fjölmiðlum. Með tilmælum sínum til fulltrúa leitast stjórn við að samræma slíka upplýsingagjöf. Skráningin verður gerð aðgengileg á vef Stjórnlagaráðs og miðuð við reglur Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings.

Um forsögu málsins skal þess getið að á 5. fundi Stjórnlagaráðs var meðal annars lagt fram erindi Kristbjargar Þórisdóttur um hagsmunaskráningu fulltrúa í Stjórnlagaráði. Jafnframt hefur Stjórnlagaráð fjallað um skyldu alþingismanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

6.2 Starfskjör fulltrúa

Rætt var um orlof og fleiri atriði varðandi starfskjör fulltrúa.

7. Næsti fundur

Fomaður boðar til næsta fundar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.20.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir