20. fundur B-nefndar sameiginlegur

08.06.2011 14:00

Dagskrá:

1. Tillögur B-nefndar til kynningar á ráðsfundi 9. júní.

 

Fundargerð

20. sameiginlegur nefndafundur B-nefndar haldinn 8. júní 2011, kl. 14.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, Vilhjálmur Þorsteinsson, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Gísli Tryggvason, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir og Eiríkur Bergmann Einarsson.

Aðrir mættir fulltrúar voru Guðmundur Gunnarsson, Salvör Nordal, Ari Teitsson, Örn Bárður Jónsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Katrín Oddsdóttir, Pawel Bartoczek, Lýður Árnason, Íris Lind Sæmundsdóttir, Illugi Jökulsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Dögg Harðardóttir.

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn.

1. Tillögur B-nefndar að texta í áfangaskjal, samkvæmt ráðsfundi 9. júní.

Formaður gerði grein fyrir tillögum B-nefndar sem lagðar verða fram til kynningar á ráðsfundi 9. júní.

Undirstöður
• Tillaga 1: Handhafar ríkisvalds.
Gerð var athugasemd við að forseta Íslands vanti í upptalningu ákvæðisins. Því var til svarað að forseti eigi ekki heima í upptalningu löggjafarvalds frekar en framkvæmdarvalds. Að sama skapi var bent á að ekki gangi að þjóðhöfðingi landsins sé ekki talinn upp sem handhafi ríkisvalds. Nefndarmenn tóku undir að skilgreina forseta sem handhafa ríkisvalds.
Athugasemd var gerð við að forsetakafli sé ekki fullunninn og skilgreining á hlutverki hans taki mið af endanlegri hlutverkaskiptingu hans.

• Tillaga 2: Yfirráðasvæði.

Tillaga kom fram um að nota orðalagið auðlindalögsaga. Nefndin samþykkti að athuga hvert sé efnislegt inntak hugtaksins auðlindalögsaga, m.a. hvort það nái til orða eins og efnahagslögsögu.

Ráðherrar og ríkisstjórn

Formaður gerði grein fyrir tillögum B-nefndar að ákvæðum um ráðherra og ríkisstjórn.

• Tillaga 1: Ráðherrar, ríkisstjórn og ráðherraábyrgð.
Gerð var athugasemd við 2. mgr. 1. gr., það eigi að skylda ráðherra til að víkja sé hann vanhæfur, ekki að orða það sem skyldu. Tillaga um að taka orðið heimilt út og setja inn skyldu.
Fram kom að farin verði millileið í að ráðherrar beri ábyrgð á sínum eigin málaflokki en hins vegar séu ákvarðanir sem ber að taka sameiginlega sem varða mikilvæg málefni skv. orðalagi í stjórnarskrá, sjá ákvæði um ráðherraábyrgð. Hins vegar ber ráðherra hvers málefnasviðs ábyrgð á þeim ákvörðunum sem ekki séu taldar mikilvægar og gert er ráð fyrir því að það verði frekar útfært í lögum.

Fram kom að nefndin hafi rætt, í tengslum við ráðherraábyrgð, hvernig saksókn skuli háttað og samkomulag hafi tekist um að fremur skuli skipa sérstakan saksóknara fremur en ríkissaksóknara. Tekið undir að ekki ætti að vera minna sjálfstæði hjá sérskipuðum saksóknara heldur en ríkissaksóknara.

Athugasemd var gerð við að samræma þurfi hugtökin embættisbrot og embættisfærslur, sem fram koma í öðrum ákvæðum. Nota eigi sama orðalag í öðrum ákvæðum.

Lagt var til að bráðabirgðalög falli brott m.a. í ljósi þess að um grundvallarinngrip í störf löggjafans er að ræða sem og að nú starfi þingið allt árið. Gerð var athugasemd við að ef heimild til útgáfu bráðabirgðalaga eigi að standa í stjórnarskrá eigi að taka út úr texta að þau megi ekki brjóta í bága við stjórnarskrá, enda segir það sig sjálft að lagasetning má aldrei brjóta í bága við stjórnarskrá.

Kafli um Alþingi - Lögrétta og fjárstjórnarvald þingsins

Gerð var athugasemd við orðalagið þjóðréttarlegar skuldbindingar. Mögulega sé betra að nota orðalagið alþjóðasamningar.

Vakin var athygli á erindi Arnars Jenssonar um að kyrrsetja eignir þrátt fyrir fyrningu. Því er til svarað að í 69. gr. stjórnarskrár er sett fram bann við afturvirkni refsilaga.

Athugasemd var gerð varðandi Lögréttu, tillaga kom fram að vísa megi bráðabirgðalögum afturvirkt til Lögréttu eða að einhver möguleiki sé til þess að vísa þeim þangað.

Þá voru gerðar athugasemdir við fjárstjórnarvald þingsins. Fasteignir séu þröngt eignarréttarhugtak. Þá er spurning hvort ríkisfyrirtæki falla þar undir en bent á að nýtt ákvæði kemur inn er tekur til annarra eigna. Athuga þurfi eignarréttarlega fyrirvara þar um.
Athugasemd var gerð við orðalagið: „ekkert gjald má reiða af hendi“.

Tillaga kom fram um að girða fyrir fjáraukalög. Því megi aðeins ráðstafa greiðslum úr ríkissjóði með fjárlögum, því sé punktur settur eftir fjárlög. Mögulega mætti útfæra stutt ákvæði um heimild til greiðslu úr ríkissjóði með fjáraukalögum, í brýnustu neyðartilvikum.

Bent var á að almenningur geti ekki nægilega vel fylgst með útgjaldahlið ríkissjóðs. Spurningin væri sú með hvaða orðalagi hægt væri að girða fyrir núverandi fyrirkomulag og lausung í meðferð fjárlaga og fjárstjórnar. Bent er á að ef fjáraukalögin eru skrifuð út leiðir það til þess að ríkisstjórnin býr til liðinn ófyrirséð. Samþykkt var að fá sérfræðing til að fjalla um raunverulegan vanda í þessum efnum.

Athugasemdir voru gerðar við skipan ríkissaksóknara. Bent var á að ráðherra verði að bera ábyrgð og það bindi hendur hans og þannig sé það í höndum aukins meirihluta Alþingis. Alveg jafn mikilvægt að óháður aðili skipi ríkissaksóknara, líkt og hæstaréttardómara.

Þá var bent á að forseti muni þurfa að bera ábyrgð á sínum stjórnarathöfnum líkt og ráðherra. Völdum fylgi ábyrgð.
Umræður um embætti forseta Íslands.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.