23. fundur A-nefndar - sameiginlegur

08.06.2011 09:00

Dagskrá:

 

  1. Ákvæði um upplýsingafrelsi og frelsi fjölmiðla.

 

Fundargerð

23. fundur A-nefndar, haldinn miðvikudaginn 8. júní 2011, kl. 9.00-10.00 og 12.45-13.00.

Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Freyja Haraldsdóttir hafði boðað forföll. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

Eftirtaldir fulltrúar úr öðrum nefndum tóku þátt í fundinum: Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Salvör Nordal, Vilhjálmur Þorsteinsson og Þorkell Helgason.

1. Ákvæði um upplýsingafrelsi og frelsi fjölmiðla

Kynnt voru drög að ákvæðum um upplýsingafrelsi og frelsi fjölmiðla, sem nefndin hyggst leggja fram á næsta ráðsfundi.

Inntak ákvæðanna þótti almennt til bóta. Þær athugasemdir sem komu fram sneru annars vegar að því hvort skilgreiningar og upptalningar á hugtökum sem notuð væru í ákvæðunum væru nægjanlega skýr og næðu yfir þau gögn sem til væri ætlast. Hins vegar lýstu sumir ráðsfulltrúa áhyggjum af því að ítrasta túlkun á ákvæðunum gæti reynst íþyngjandi fyrir stjórnvöld, þar sem frumkvæðisskylda þeirra myndi aukast mjög með innleiðingu ákvæðanna í stjórnarskrá.

Ákvað nefndin að leggja kaflann fram til kynningar, svo textinn komist í opinbera birtingu og almenningur geti gert við hann athugasemdir.

2. Breytt málfræðilegt kyn

Þorvaldur Gylfason sýndi hugmynd að breyttu málfræðilegu kyni á fyrstu greinum mannréttindakaflans, sem kynna mætti á næsta ráðsfundi. Í tillögunum byrjaði jafnræðisreglan á orðunum „öll erum við“ í stað „allir eru“. Þótti ráðsfulltrúum hið nýja orðfæri á köflum til bóta – skemmtilegt væri að þjóðin talaði við sjálfa sig í gegnum stjórnarskrána – en að varlega þyrfti að fara í breytingar af þessu tagi. Mögulega væri hægt að byrja hvern kafla á upphafsgrein í þessum stíl, eða einskorða breytinguna við mannréttindakaflann. Nefndin ákvað að leggja jafnræðisregluna svo breytta fram til kynningar á ráðsfundi, til að koma hugmyndinni í opinbera umræðu.