22. fundur C-nefndar

06.06.2011 10:00

Dagskrá:

Dagskrá:

 

  1. Kafli um kosningar og alþingismenn.
  2. Önnur mál.

 

 

Fundargerð

22. fundur C-nefndar, haldinn 6. júní 2011, kl. 10.00-16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Salvör Nordal og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Kafli um kosningar og alþingismenn

Formaður fór yfir skjal sem hann lagði fram á síðasta fundi ásamt breytingum sem á því hafa verið gerðar.

Rætt var um hvort rétt sé að binda niður í stjórnarskrá nákvæmar reglur eða leiðbeinandi reglur sem nánar eru útfærðar í lögum.

Rætt var um hvort rétt sé að taka út orðalag um hlutbundna kosningu, því það sé óskýrt hvað það þýði, einnig sem óvíst er hvort STV kosningaaðferð uppfylli slíkt skilyrði.

Rætt var um vægi atkvæða og hvað þýði að það sé jafnt, það getur aldrei verið alveg jafnt eftir að leiðrétt sé fyrir kyn og bundna þingmenn. Rætt um að tala um sem jafnast í stað jafnt atkvæðavægi.

Formaður sagði að það umboð sem nefndin sé að vinna eftir sé að atkvæðavægi sé jafnt. Atkvæðin eiga að telja jafnt en settar ákveðnar reglur á úrslitin að þingmenn komi frá öllum svæðum og af báðum kynjum. Túlka eigi þröngt allt misvægi sem myndast. Sumir segja að það sé ekki aðalatriðið og þeir sætti sig við ákveðið misvægi. Rætt var um að þjóðfundur hafi viljað að atkvæðavægi verði jafnt.

Rætt var um tillögu fjölda bundinna þingsæta, hvort þau ættu að vera færri eða fleiri en 2/5. Einnig rætt um að taka fram að að baki bundnum þingsætum séu ekki færri kjósendur en að meðaltali að baki allra þingsæta.

Rætt var um að setja í textann ákvæði um að það eigi að vera hægt að kjósa þvert á lista í ljósi þess að samin hafa verið frumvörp um persónukjör sem eru í raun bara innan lista.

Rætt var um fjölda kjördæma, um hvort þau eigi að vera eitt til sjö. Kom fram tillaga um átta kjördæmi í samræmi við landshluta sveitarfélaga og jafnvel níu ef Reykjavík fær að skipta sér í tvennt.

Nokkur samstaða er í nefndinni um kaflann í heild. Þó var rætt um að það þyrfti að festa inn að þeir sem ekki raða eftirláta þeim sem raða að ráða röðuninni.

Rætt var um jafnréttissjónarmið og leiðir í þeim efnum eftir þeim reglum sem verið er að fjalla um. Nokkrar leiðir í boði, t.d. ef frambjóðendur af sama kyni hafa fengið fleiri en 42 þingsæti af 63 þá verður litið fram hjá frambjóðendum þess kyns við frekari úthlutun þingsæta, að framboð geti ákveðið að þingsætum þess sé úthlutað með þeim hætti að hlutfall hvors kyns fari ekki undir 40 af hundraði, eða að landssætum verði úthlutað með hliðsjón og til jafns við úrslit persónukjörs. Sett inn grein um heimild um lágmarkshlutfall kynjanna.

Rætt var um grein um kosningarétt, hvort það eigi að rýmka hann frá því sem nú er og binda hann við dvöl eða önnur skilyrði en ríkisborgararétt.

Rætt var um ákvæði um fjármál stjórnmálaflokka og vildi nefndin fylgja tillögu stjórnlaganefndar um að hafa ákvæði um þetta í stjórnarskrá.

2. Önnur mál

Engin önnur mál.

3. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði hinn 7. júní kl. 9.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.