20. fundur C-nefndar - sameiginlegur

01.06.2011 10:30

Dagskrá:

 

  1. Kafli um utanríkismál.
  2. Önnur mál.

 

Fundargerð

20. fundur C-nefndar, haldinn 1. júní 2011, kl. 10.30-12.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ari Teitsson, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason og Þórhildur Þorleifsdóttir. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Kafli um utanríkismál

Varaformaður nefndarinnar, Íris Lind, stýrði fundi og fór yfir tillögur nefndarinnar um utanríkismál, aðallega um hvort ætti að vera sérkafli um málaflokkinn, hvort færa ætti inn óskráðar reglur og skýra betur aðkomu þingsins að utanríkismálum.
Rætt var um grein um meðferð utanríkismála, um hvort halda ætti inni formlegu hlutverki forseta sem þjóðhöfðingja í kaflanum. Rætt um orðalag eins og fyrirsvar og ráðherra í ríkisstjórn. Rætt um hvort ríkisstjórn ætti að starfa sem fjölskipað stjórnvald í sumum málum, m.a. í utanríkismálum.

Fram komu hugmyndir um að vald og upplýsingaréttur utanríkismálanefndar þyrfti enn betri skýringu og samræma þyrfti orðalag milli meiriháttar og mikilvægs utanríkismáls. Taka þarf af allan vafa um að nefndin ætti að starfa allt árið, og það varði ráðherraábyrgð ef farið er fram hjá nefndinni.
Rætt var um að nauðsynlegt væri að setja inn grein um að ákvörðun um stríð yrði að vera samþykkt á Alþingi. Hins vegar kom fram að óheppilegt væri að gefa Alþingi sérstakt leyfi til að lýsa yfir stríði þar sem fram kemur á öðrum stað í stjórnarskrárdrögunum að landið ætti að vera herlaust land friðar.
Rætt var um grein um samninga við önnur ríki. Rætt um að þjóðréttarsamningar væri meira lýsandi orðalag.
Rætt var um grein um framsal ríkisvalds. Ekki nógu skýrt að þjóðaratkvæðið sé bindandi.
Þá var rætt um samband lands- og þjóðaréttar og tekið undir tvíeðliskenninguna, en fyrir liggur þó tillaga nefndar A um eineðli mannréttindasamninga.

2. Önnur mál

Engin önnur mál.

 

3. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði síðar um daginn, en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.00.