18. fundur A-nefndar

30.05.2011 10:00

Dagskrá:

 

  1. Fundargerðir fyrri funda.
  2. Meðferð ákvæða um fjölmiðla og upplýsingafrelsi.
  3. Kirkjuskipan og trúfrelsi.
  4. Önnur mál.

 

Fundargerð

18. fundur A-nefndar, haldinn mánudaginn 30. maí 2011, kl. 10.00-12.00 og 13.00-16.00.

Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Freyja Haraldsdóttir hafði boðað fjarvistir. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

1. Fundargerðir fyrri funda

Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

2. Meðferð ákvæða um fjölmiðla og upplýsingafrelsi

Ákveðið að taka afgreiðslu ákvæða um kirkjuskipan og trúfrelsi fram fyrir fjölmiðla og upplýsingafrelsi. Með því móti gefst nefndinni betra tóm til að fara yfir þær athugasemdir og erindi sem borist hafa um upplýsinga- og fjölmiðlamál.

3. Kirkjuskipan og trúfrelsi

Meðal nefndarfólks voru mjög skiptar skoðanir um það hvort kveða eigi um ákveðna þjóðkirkju í stjórnarskrá. Nefndin var þó sammála um að umboð Stjórnlagaráðs næði ekki til þess að ákveða hvort skilið yrði á milli ríkis og kirkju. Sú ákvörðun væri í raun óháð stöðu stjórnarskrárákvæðis um þjóðkirkjuna, þar sem kirkjuskipanin á rætur í almennum lögum og sérstökum samningum á milli ríkis og kirkju. Væri slíkur aðskilnaður viðamikil aðgerð, enda veiti kirkjan grunnþjónustu sem ýmsir telja mikilvægt að verja.
Þrátt fyrir þennan skilning á umboði nefndarinnar þótti þörf á að hreyfa nokkuð við ákvæðum um trúfrelsi og þjóðkirkju. Voru þar helst þrjú sjónarmið á lofti.
Í fyrsta lagi hafa skoðanakannanir lengi bent til þess að þjóðin vilji skilja að ríki og kirkju. Því sjónarmiði var jafnframt haldið á lofti að stór hluti þjóðarinnar nýtir sér þjónustu kirkjunnar á stórum stundum á lífsleiðinni. Þótt nefndin telji umboð Stjórnlagaráðs ekki ná til aðskilnaðar, auk þess sem óljóst kunni að vera hvað nákvæmlega búi að baki svörum í slíkum skoðanakönnunum, þá taldi nefndin ástæðu til að bregðast við þessu ákalli með því að bæta ákvæðin eins langt og umboð Stjórnlagaráðs leyfi.
Í öðru lagi er lagt til í skýrslu stjórnlaganefndar að talað sé um rétt fólks til að iðka „trú og lífsskoðun“ og í fjölda innsendra erinda hefur Stjórnlagaráð verið hvatt til að jafna stöðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Til að bregðast við þessu, og þróun Íslands í átt til fjölmenningarsamfélags, telur A-nefnd ástæðu til að styrkja trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og tryggja lífsskoðunarfélögum vernd innan þess.
Í þriðja lagi telur nefndin þörf á að efla trúfrelsisákvæðið með því að taka inn í það ítarlegri texta úr alþjóðasáttmálum, sem Ísland er þegar aðili að.
Að loknum umræðum um þau sjónarmið sem nefndarfólk hafði um greinarnar var ákveðið að leggjast í breytingar á tveimur meginlínum. Annars vegar verði vernd trúfrelsis efld og lífsskoðunarfélögum bætt inn í trúfrelsisgrein stjórnarskrárinnar. Hins vegar verði ákvæði um þjóðkirkjuna stytt og einfaldað, þannig að það kveði eingöngu á um stöðu þjóðkirkjunnar. Þetta sé gert með það að markmiði, að hægt sé að vísa þjóðkirkjuákvæðinu í þjóðaratkvæði, svo þjóðin sjálf geti skorið úr um það hvort ákvæðið eigi heima í stjórnarskrá eða ekki – enda telji Stjórnlagaráð sig ekki hafa umboð til að taka slíka ákvörðun.

4. Önnur mál

Engin rædd.

Eftirtalin erindi voru lögð fram og rædd á fundinum:

• 33622 Valgarður Guðjónsson: Jafnræði lífsskoðana
• 33619 Nils Gíslason: Það er aðskilnaður milli ríkis og kirkju
• 33618 Sigurður Viktor Úlfarsson: Mörg trú- og lífsskoðunarfélög geti verið „þjóðkirkjur“
• 33617 Björgvin S. Guðmundsson: Þjóð og kirkja
• 33616 Egill Óskarsson: Þjóðkirkjufyrirkomulagið og deilumál
• 33595 Einar G. Jónasson: Á Íslandi er kristin þjóð
• 33500 Einar Gíslason: Vernda kristna arfleifð
• 33458 Friðgeir Haraldsson: Alþingi, dýravernd, beint lýðræði, ráðherrar, dómarar, sýslumenn, landið eitt kjördæmi, aðskilnaður ríkis og trúfélaga, fjöldi kjörtímabila þingmanna og forseta, jöfnun lífeyrisréttinda, persónukjör
• 33408 SARK c/oFriðrik Þór Guðmundsson: Aðskilnaður ríkis og kirkju
• 33337 Sigurlaug G. I. Gísladóttir: Trúfrelsi og jafnrétti kynja
• 33165 Bjarni Jónsson: Afnám ríkiskirkju og vernd lífsskoðana
• 33158 Hjalti Hugason: Endurskoðun á trúmálakafla