15. fundur C-nefndar - sameiginlegur
25.05.2011 13:00
Dagskrá:
- Umræða um kafla um kosningar og alþingismenn
- Önnur mál
15. fundur C-nefndar, haldinn 25. maí 2011, kl. 13.00 - 15.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Gísli Tryggvason, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson. Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.
1. Kafli um kosningar og alþingismenn
Formaður gerði grein fyrir tillögum nefndar um fjölda alþingismanna. Fram kom óánægja með að þingmönnum sé ekki fækkað, enda hafi komið fram skýr krafa frá þjóðfundi þar um. Bent var á málefnaleg rök fyrir fjöldanum en hugmyndafræði nefndarinnar væri að stórauka vinnu þingsins. Þá kom einnig fram tillaga um að fjölga eigi þingmönnum til að tryggja gæði þingstarfsins. Niðurstaðan um óbreytt ástand sé ásættanleg að því gefnu að þær breytingar sem unnið er að í B-nefnd leiði til þess að starfið breytist að formi til hjá þinginu.
Formaður gerði grein fyrir mögulegri 2. gr. um persónukjör. Fjórar mismunandi tillögur eru lagðar fram frá 0-3 og lagðar fyrir fundinn til umræðu. Fram kom að aukið yrði persónukjör, þannig að menn sitji ekki í skjóli flokka heldur í skjóli kjósenda. Óásættanlegt ef kjósendur gætu ekki raðað, eða átt við uppröðun. Flokkarnir geta gefið fyrirfram röðun en kjósendur gætu samþykkt listann í heild sinni ef það er ósk þeirra, svo fremi sem valkosturinn er fyrir hendi að raða á listann. Aukinn möguleiki að draga þingmenn til ábyrgðar hjá kjósendum en ekki aðeins innan flokka.
Bent var á að tillögur væru of listabundnar en að tilgangurinn væri að menn gætu boðið sig fram án þess að vera háðir stjórnmálaflokki en jafnframt í flokki við aðra menn. Menn þurfi að geta boðið sig fram einir og óstuddir.
Ábending kom fram að ráða þyrfti úr kjördæmamáli samhliða því að ákveða hvernig kosið væri til þings. Þá var bent á að ekki væri hægt að tala fyrir persónukjöri sem og að landið yrði eitt kjördæmi. Í þessu verður að athuga að kosningar mega ekki vera of flóknar.
Nefnd C þarf að vita hvort vægi atkvæða eigi að vera jafnt, vita hvort það eigi að vera virkt persónukjör, hvort velja eigi þversum á flokka sem og hvort óháð framboð eigi að vera til staðar, gott væri að klára þessi atriði og svo yrðu kjördæmi rædd að lokum.
Þorkell Helgason gerði grein fyrir sínum tillögum um landskjör og framboðskjör.
Ari Teitsson gerði grein fyrir sinni tillögu. Kosningakerfið þarf að binda að einhverju leyti niður, útilokað að hægt sé að teikna upp kosningakerfið án þess að fá utanaðkomandi aðstoð. Á að útfæra kosningakerfi sem byggist á kjördæmi? Eðlilegt að það sé landsbyggðartenging í kjördæmaskipaninni.
Hann er sammála því meginviðhorfi nefndarinnar að fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi skuli vera í sem fyllstu samræmi við fjölda kjósenda. Kosningarannsóknir sýna fram á að einmenningskjördæmin leiða til einsleitni og minni möguleika kvenna. Með stærri kjördæmum eru fleiri sæti til útdeilingar og skapar því meiri fjölbreytni. Nú er það svo að landið sé sex kjördæmi og að ekki eigi að fjölga þeim meira og fara til baka. Landslisti til hliðar við kjördæmi skapi aukinn fjölbreytileika, meira rými fyrir ný framboð, þröskuldur inn á þingið lækkar eftir því sem potturinn er stærri.
Fram komu hugmyndir um að í grunninn yrði fylgjandi jöfnu atkvæðamagni en óttast að eitt kjördæmi geti leitt af sér að landsbyggðin verði undir. Ef landið væri eitt kjördæmi, að það fæði ekki af sér meira flokksræði, við gerum það með mörgum þáttum, með auknu persónukjöri, með aukinni valddreifingu og með auknu aðhaldi og stjórnlagadómstól. Síðan eru færð raunveruleg völd sveitarfélaga.
Það verður að vera persónukjör ef landið á að vera eitt kjördæmi en það kemur í veg fyrir flokksræðið. Tillagan sem Þorkell er með til að koma til móts við landsbyggðarsjónarmið er innan grundvallarramma sem landið sem eitt kjördæmi er, en að kjördæmi eigi tiltekinn lágmarksfjölda þingmanna. Virkar vel með uppleggi Ara og Ómars að hægt sé að steypa þessu saman.
Skýr ósk þjóðfundar að 300 þús. manns sé eitt kjördæmi og kosið sé í persónukjöri. Flokkakerfi eru búin til af kjördæmum, og það munu verða tveir stórir flokkar með þessum hugmyndum. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking munu skipta með sér atkvæðum í meginatriðum og því ekkert vit í öðru en að hafa stór kjördæmi áfram eða fækka þeim. Annars er valdinu enn frekar þjappað saman. Þar sem er einmenningskjördæmi verður um að ræða tveggja flokka kerfi.
2. Önnur mál
Engin önnur mál.
3. Næsti fundur C-nefndar
Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði fimmtudaginn 26. maí kl. 9.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.00.