13. fundur A-nefndar - sameiginlegur

20.05.2011 10:00

Dagskrá:

 

  1. Vinnuskjal um mannréttindi.

 

Fundargerð

13. fundur A-nefndar, haldinn föstudaginn 20. maí 2011 kl. 10.00-11.20.

Viðstödd voru Örn Bárður Jónsson, varaformaður, sem stýrði fundi, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir, formaður. Forföll höfðu boðað Arnfríður Guðmundsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.

Fundurinn var opinn öðrum fulltrúum í Stjórnlagaráði.

Eftirtaldir fulltrúar úr öðrum nefndum tóku þátt í fundinum: Andrés Magnússon, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal og Vilhjálmur Þorsteinsson.

1. Vinnuskjal um mannréttindi

 

Fulltrúar í A-nefnd skýrðu frá því vinnulagi sem viðhaft hefur verið í nefndinni. Annars vegar lægju starfinu til grundvallar gildi sem kynnt voru á ráðsfundi 28. apríl. Hins vegar leitaðist nefndin við að styrkja núgildandi ákvæði mannréttindakaflans – t.a.m. sem snúa að efnahagslegum og félagslegum réttindum – með því að bæta við þau atriðum úr alþjóðasáttmálum sem Ísland er þegar aðili að.
Voru gestir nefndarinnar almennt sammála því að styrkja megi efnahagsleg og félagsleg réttindi, en greindi á um leiðir til þess. Sem valkosti við þá leið sem A-nefnd hefur valið, þ.e. að bæta texta við þau ákvæði sem fyrir eru, voru eftirfarandi meginsjónarmið einnig nefnd:

 

  • Halda breytingum í lágmarki, enda hafi dómaframkvæmd sýnt að efnahagsleg og félagsleg réttindi séu varin í núgildandi stjórnarskrá.
  • Tiltaka efnahagsleg og félagsleg réttindi, sem og skyldu ríkisins til að tryggja þau, í almennt orðaðri upphafsgrein, frekar en að útfæra þau sérstaklega.
  • Færa efnahagsleg og félagslegt réttindi í nokkurs konar réttindaskrá, líkt og þekkist í öðrum löndum.

 

A-nefnd taldi eftir sem áður að æskilegt væri að útfæra betur réttindi sem til þessa hafa verið knappt orðuð, þannig að þau fái markmiðsgildi. Hins vegar sé full ástæða til að vanda orðalag, þannig að greinarnar líði ekki fyrir að vera óljósar.

Formaður A-nefndar lagði til að í næstu viku yrðu allar greinar mannréttindakaflans kynntar á ráðsfundi, til að forðast að lenda í frekara tímahraki. Til að nefndin geti tekið tillit til sjónarmiða sem flestra ráðsfulltrúa verður kaflinn því sendur þeim til umsagnar, en miðað er við að athugasemdir skili sér til A-nefndar ekki seinna en mánudaginn 23. maí.