12. fundur C-nefndar - sameiginlegur
18.05.2011 13:30
Dagskrá:
- Umræða um breytingartillögur á kafla um dómstóla til afgreiðslu á ráðsfundi.
- Umræða um kafla um kosningar og alþingismenn.
- Önnur mál.
12. fundur C-nefndar, haldinn 18. maí 2011, kl. 13.30-16.20, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Guðmundur Gunnarsson, Gísli Tryggvason, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason og Örn Bárður Jónsson. Agnar Bragason ritaði fundargerð.
1. Umræða um breytingartillögur á kafla um dómstóla til afgreiðslu á ráðsfundi
Rætt var um hvort tiltaka eigi fjölda dómara Hæstaréttar í stjórnarskrá. Rætt var um hvað þýði orðalagið samkvæmt venju eða eðli sínu. Rætt var um að taka verði fram þjóðaratkvæðagreiðslur auk almennra kosninga. Rætt um að breyta orðinu lögsaga í verksvið dómstóla. Rætt um hvort nægilega sé skýrt út hvert sé valdsvið Félagsdóms.
Rætt var um nýja 7. gr. dómstólakaflans um sérskipaðan Hæstarétt. Gerð var athugasemd við að skeyta þurfi við greinina hverjir geti vísað málum til sérskipaðs Hæstaréttar. Rætt um hverjir skipi dóminn og hvaða sérþekkingu þeir skulu búa yfir.
Rætt var um að Hæstiréttur hafi nóg verkefni fyrir, og rétt sé að stofna nýjan dómstól með þessi sérverkefni.
Rætt var um að þrátt fyrir þessa skipun í 7. gr. þarf samt sem áður að athuga hvort ekki sé ástæða til að Alþingi komi sér upp stjórnlagaráði/Lögréttu til að auka gæði lagasetningar. Það gæti hins vegar heyrt undir nefnd B að taka það til umfjöllunar. Einnig var rætt um að nefnd B þurfi að fjalla um ákæruvald Alþingis á hendur ráðherrum.
2. Umræða um kosningar og kjördæmaskipan
Nefndin hefur verið sammála um aukið persónukjör en hefur ekki fundið samnefnara í kjördæmamálum.
Rætt var um landið sem eitt kjördæmi og kjósendur geti valið flokka og einstaklinga þvert á flokka.
Rætt var um mikilvægi þess að raddir flestra landsvæða heyrist og tengsl þingmanna og kjósenda.
Rætt var um fjárstjórnarvaldið, að finna leiðir til að færa það nær sveitarfélögunum og fólki, þá minnkar þörfin á áherslu á landsvæði í kjördæmamálum. Rætt um að kjördæmi þurfi ekki endilega að vera landfræðileg.
Þá var rætt um blandað skynsamlegt kerfi landskjörs og framboðskjördæma.
3. Önnur mál
Engin önnur mál.
4. Næsti fundur C-nefndar
Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði mánudaginn 23. maí kl. 10.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.20.