11. fundur C-nefndar

17.05.2011 09:30

Dagskrá:
  1. Umræða um kafla um dómsvaldið
  2. Umræða um kafla um utanríkismál
  3. Önnur mál

 

Fundargerð

11. fundur C-nefndar, haldinn 17. maí 2011, kl. 9.30–15.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Salvör Nordal (til kl. 12.00) og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Umræða um kafla um dómsvaldið

Rætt um mögulega nýja 7. gr. dómstólakaflans um sérskipaðan Hæstarétt í ákveðnum málum. Í því skyni yrði að breyta grein D3 og taka út „að því marki sem reynir á í dómsmáli“. Það yrði þó einungis þegar málum er vísað til Hæstaréttar af þingnefnd, þriðjungi þingmanna eða [forseta Íslands].

Rætt um að dómstólar myndu skera endanlega úr um lögmæti kosninga í stað Alþingis sjálfs.

Rætt um að hæfnisnefnd vegna skipunar dómara yrði að vera lögbundin en ekki lögskipuð eins og er í áfangaskjali.

Rætt um að vísa greinum um Lögréttu/stjórnlagaráð til B-nefndar, tilheyrir kafla um störf Alþingis. Einnig ákveðið að vísa ákvæði um ákæruvald Alþingis á ráðherrum til B-nefndar og ákvæði um upphaf mála fyrir sérskipuðum Hæstarétti.

2. Umræða um kafla um utanríkismál

Formaður opnaði umræðu með því að vísa á fræðigreinar í gagnasafni ráðsins um utanríkismál, ásamt tillögum í skýrslu stjórnlaganefndar og grein stjórnar um samninga við önnur ríki, sem er eina grein stjórnarskrárinnar um utanríkismál.

Meðferð utanríkismála er að mestu hefðuð í dag varðandi samskipti milli forseta og ráðherra og þings. Samt sem áður er það ekki fyllilega skýrt ef á reynir. Samráð við utanríkismálanefnd er í dönsku stjórnarskránni og nær til ákvarðana en er í þingskaparlögum hér og nær einungis til mála. Rætt um hvað séu meiri háttar mál eða ákvarðanir.

Rætt um hvort tilgreina eigi að forseti Íslands skuli alltaf fylgja íslenskri utanríkisstefnu sem mótuð er af ráðherra.

Rætt um að nú á dögum geti verið erfitt að skilgreina hvað sé utanríkismál, en hægt að líta til reglugerðar um Stjórnarráð Íslands þar sem verkefni utanríkisþjónustunnar eru talin upp. En ekki hægt að skilgreina með tæmandi hætti. Valkostur stjórnlaganefndar B er betri þar sem talað er um ráðherra í stað utanríkisráðherra.

Rætt var um hvað hugtakið stríð þýðir og samspil þess við mannréttindakaflann sem er í nefnd A, og hvort hugtakið vopnuð átök sé heppilegra og eigi alltaf að vera álitið meiri háttar utanríkismál.

Rætt var um grein um gerð þjóðréttarsamninga, sbr. 21. gr. stjórnarskrár. Rætt um að formlega verði það ráðherra sem geri slíka samninga en ekki forseti, enda er það raunin. Einnig talið að orðalagið „samningar við önnur ríki“ sé nær almennri málnotkun í stað þjóðréttarsamninga, þótt á það hafi verið bent að það sé réttara þar sem þjóðréttaraðilar séu fleiri en ríki.

Rætt var um ákvæði um framsal ríkisvalds. Erfitt getur verið að skilgreina orðalagið í þágu friðar í alþjóðlegri samvinnu. Rætt um hvort ekki þurfi að ræða þjóðaratkvæði um samninga um framsal ríkisvalds í samhengi við þjóðaratkvæðagreiðslur almennt.

Rætt var um hvort rétt sé að hafa slíkt ákvæði um heimild til framsals eða ekki. Hins vegar bent á óskrifaða reglu um framsal upp að vissu marki ef það er afmarkað, takmarkað og feli ekki í sér íþyngjandi reglur. Rætt um hvort ekki sé rétt að færa a.m.k. óskrifuðu regluna sem talin er gilda í stjórnarskrá.

3. Önnur mál

Engin önnur mál.

4. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, miðvikudaginn 18. maí kl. 9.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.