8. fundur stjórnar

17.05.2011 12:30

Dagskrá:
 1. Fundargerð síðasta fundar
 2. Staða nefndastarfa
  - Stutt yfirlit hvers formanns
 3. Starfsáætlun
  - Hverrar nefndar
  - Heildaráætlun
 4. Nefndarfundir nk. miðvikudag
 5. Fyrirkomulag 9. ráðsfundar og dagskrá
  - Málefni fundarins
  - Áhersluatriði og stefnumörkum tiltekinna fulltrúa
 6. Aðkoma sérfræðinga
 7. Önnur mál
  - Ferli breytingartillagna
  - Fyrirkomulag í fundarsal
  - Uppákoma 17. júní

Fundargerð

8. fundur stjórnar - haldinn 17. maí 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Fundargerð

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson varaformaður, Örn Bárður Jónsson, varaformaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Forföll hafði boðað Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A.

Auk stjórnarfólks sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda B og C, nánar tiltekið Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar og með tölvupósti 16. maí.

Formaður setti fundinn og stýrði honum. Dagskrá var samkvæmt fundarboði.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 7. stjórnarfundar var samþykkt án athugasemda.

2. Staða nefndastarfa

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum og vinnu sem farið hefði þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu.

3. Starfsáætlunin

Formaður ítrekaði þörf á að nefndir skili inn áætlunum sínum sem fyrst, sbr. bókun undir lið 9 varðandi sérstakan stjórnarfund um það efni. Heildaráætlun fyrir starfstímann þarf að liggja fyrir ekki síðar en í lok þessarar viku, sbr. 3. gr. starfsreglna. Forgangsraða þurfi verkefnum og gera ráð fyrir að 16. júní verði síðast unnið með áfangaskjal á ráðsfundi.

4. Nefndafundir nk. miðvikudag

Fyrirkomulag fundanna verður með hefðbundnum hætti. Ákveðið var að fundir í A- og B-nefndum verði fyrir hádegi en C-nefnd eftir hádegi og fái rýmri fundartíma.

5. Fyrirkomulag 9. ráðsfundar og dagskrá

Farið var yfir fyrirkomulag næsta ráðsfundar. Hver nefnd mun gera grein fyrir málum sínum og fram kom að A-nefnd gerir ráð fyrir að kynna tillögur að nýjum ákvæðum í mannréttindakafla. Þá mun B-nefnd kynna nýjar tillögur um eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi. Loks gerir C-nefnd ráð fyrir að leggja fram til afgreiðslu tillögur um dómstóla, nokkuð breyttar frá kynningu. Röð nefnda að þessu sinni verður C, A, B.

Hugsanlegt er að fundinum verði fram haldið á föstudag.

Tveir fulltrúar hafa gert formanni viðvart um áhuga sinn á að ávarpa ráðsfund og lýsa stefnu sinni og áherslum. Þetta eru þau Dögg Harðardóttir og Þorkell Helgason.

6. Aðkoma sérfræðinga

Rætt var um þörf á aðkomu sérfræðinga og tímasetningu í því sambandi. Nefndaritarar halda saman þeim atriðum sem kanna þarf nánar.

7. Önnur mál

Rætt var um breytingartillögur og meðferð þeirra á ráðsfundum. Vakin var athygli á ákvæði 2. mgr. 14. gr. starfsreglna í því sambandi. Jafnframt verður leitast við að bæta merkingar breytingartillagna og annarra skjala í þeim tilgangi að auðvelda yfirsýn.

Í tilefni af umræðum um skipulag í fundarsal var samþykkt að á næsta ráðsfundi verði sætaskipan breytt með því að menn flytjist til réttsælis um eitt sæti.

Almannatengslahópur hefur varpað fram þeirri hugmynd að Stjórnlagaráð taki þátt í hátíðarhöldum 17. júní. Samþykkt að ekki sé ráðrúm til þess vegna anna við nefndastörf.

8. Næsti fundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 20. maí, kl. 12.00. Gert er ráð fyrir að þar verði fjallað um starfsáætlanir nefnda.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.40.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir