9. fundur B-nefndar

16.05.2011 10:00

Dagskrá:

1. Fundargerðir 4.–6. lagðar fram til samþykktar.
2. Athugasemdir frá ráðsfundi 12. maí.
3. Efling löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi - 14 atriði áframh.
4. Framlögð erindi.

Fundargerð

9. fundur B-nefndar haldinn 16. maí 2011, kl. 10.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason. Þá sat fundinn Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir og ritaði fundargerð.

Formaður, Katrín Fjeldsted, setti fundinn. Gengið var til dagskrár eins og hún var birt hinn 15. maí.

1. Fundargerðir 4.–6. lagðar fram til samþykktar

Frestað til morgundags.

2. Farið yfir athugasemdir frá ráðsfundi 12. maí

Nefndarmenn ræddu markmið tillagna sem voru lagðar fram á síðasta ráðsfundi, að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ætlunin er að þingið verði vinnuþing fremur en málstofa og að löggjafarvaldið sé í raun hjá þinginu. Tillögurnar ganga út frá því að undirbúningsvinna löggjafar sé áfram innan stjórnsýslunnar en framlagning sé gerð í gegnum viðeigandi málefnanefnd innan Alþingis. Með því munu þingmenn ósjálfrátt setja sig betur inn í þau mál sem undir nefndina heyra. Áfram myndi tiltekin löggjöf vera unnin af stjórnsýslunni inni í Stjórnarráðinu. Raunar er verið að styrkja stöðu þingsins.

Efnislegar athugasemdir komu fram á ráðsfundi:

Auka vægi þingforseta – athugasemdir komu fram varðandi breytingu á kosningu forseta með auknum meirihluta þ.e. 2/3 þingmanna. Á forseti Alþingis að vera þingmaður eður ei? Hann víkur sæti en segir ekki af sér þingmennsku. Á að endurorða „víkur frá almennum þingstörfum“? Samræma þarf orðalag ákvæðisins um að ráðherra víki af þingi. Forseti eigi ekki að vera virkur í pólitísku ati og því eðlilegt að það komi varamaður í hans stað.

• Þingnefndir, þarf að tilgreina sumar? - Það sjónarmið kom fram að ekki ætti að gera sumum nefndum hærra undir höfði en öðrum, sem og að þingið geti ekki breytt nefndarfyrirkomulagi vegna stjórnarskrárákvæða. Tillaga um að verkefnin séu nefnd, en ekki sjálf nefndin. Hins vegar er gert grein fyrir nefndunum á öðrum stað í stjórnarskránni þar sem þær gegna stjórnskipulegu hlutverki.
• Fleiri nefndir en fjárlaganefnd hafi víðtækan upplýsingarétt - Samkvæmt núverandi tillögum er fjárlaganefnd veittur víðtækur réttur til að leita upplýsinga um ráðstöfun opinbers fjár. Nefndarmenn bentu á að fjárlaganefnd hefði aukið eftirlitsvald með fjárútlátum ríkisins vegna eðli verkefna sinna en þá væri jafnframt verið að veita þinginu almennt aukinn upplýsingarétt gagnvart starfsemi framkvæmdarvaldsins. Ef aðrar nefndir óska upplýsinga um fjárútlát sé rétt að slíkt fari í gegnum fjárlaganefnd.
• Réttur þingsins til upplýsinga - Tekið út orðalagið „allar“ upplýsingar og nú aðeins umbeðnar. Samþykkt að orðalagið „nema leynt skuli fara samkvæmt lögum“ verði tekið úr hornklofum. Löggjafanum (þingmönnum) í lófa lagið að búa til ramma sem skerði ekki aðgang hans að upplýsingum.
• Ath. almennt ákvæði um stefnumótun og samráðsskyldu en þeir punktar eru nú færðir inn í sameiginlega netskjal nefndarinnar „Styrking löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi“.

3. Efling löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi - 13 atriði áframh.

Nefndarmenn héldu áfram að móta ákvæði í samræmi við þau 22 atriði, en síðast voru lögð fram 9 til kynningar.
Eftirfarandi var tekið til skoðunar:
• Meðferð þingmála.
• Þingrof.
• Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd.
• Rannsóknarnefndir þings.
Þá voru mótaðar tillögur að ákvæðum um ofangreind 4 atriði sem lögð verða fram til kynningar á sameiginlegum nefndarfundi hinn 18. maí. Sjá má fullmótaðar skýringar í fylgiskjölum með áfangaskjali á www.stjornlagarad.is.

4. Framlögð erindi

Nefndarritari lagði fram skjal með neðangreindum erindum:

33474 16.5.2011 Birgir Hermannsson. Stjórnarfrumvörp og Alþingi. Mörg frumvörp sem fara ekki í ágreining eða eru bitbein milli minni- og meirihluta, þingmenn hafi ekki tíma eða þekkingu, núverandi fyrirkomulag alþjóðlegt að frumvörp séu samin innan stjórnsýslu og krafa um sérfræðiþekkingu á ýmsum málum. Tillögur um að styrkja þingið sé fólgið í að styrkja minnihlutann. Um Alþingi sem vinnuþing eða málstofu.
33468 15.5.2011 Nils Gíslason. Ýmsar athugasemdir um orðalag og hvað það felur í sér, t.d. um forseta þingsins.
33462 13.5.2011 Natan Kolbeinsson. Ekki takmarka kjörtímabil kjörinna fulltrúa.
33465 14.5.2011 Pétur Jósefsson. Oddviti framkvæmdarvalds kjörinn af þjóðinni.
33447 12.5.2011 Guðmundur Ágúst Sæmundsson. Forseti leiði fram ríkisstjórn með hliðsjón af ábendingum frá Alþingi, ríkisstjórn samþykkt formlega af þinginu.
33448 12.5.2011 G. Valdimar Valdemarsson. Störf Alþingis – fjárlaganefnd. Setja í stjórnarskrá að tekjuhlið fjárlaga skuli afgreidd áður en gjaldahliðin er tekin til umfjöllunar. Gerð fjárlaga gangi í auknum mæli til þingsins í stað þess að fara fram í fjármálaráðuneyti.
33453 12.5.2011 Tryggvi Þór Tryggvason. Varhugavert að ráðherrar sitji ekki á þingi – völd ráðherra munu ekki minnka. Breyting gæti haft gagnstæð áhrif á við markmiðið þar sem fjölgar í stjórnarliðum.
33458 12.5.2011 Friðgeir Haraldsson. M.a. að ráðherrar komi ekki úr hópi þingmanna, takmarka kjörtímabil ráðherra og þingmanna.
33410 11.5.2011 Ágúst L. Sigurðsson. Takmarka kjörtímabil forseta í tvö til þrjú ef auka á völd hans.
33340 9.5.2011 Ingólfur Harri Hermannsson. Þjóðkjörið framkvæmdarvald – tveggja turna pólitík – rök gegn því að kjósa framkvæmdarvaldið beint.
33324 5.5.2011 Ólafur Hlynur Steingrímsson. Aldurstakmark þingmanna.
33312 4.5.2011 Gunnar Þór Tómasson. Forsetinn, þjóðhöfðinginn og valdið – hugleiðingar um forsetann sem framkvæmdastjóra, sameiningartákn, ráðningarstjóri ríkisins, aðalsamningaaðili ríkisins við erlend ríki, löggjafarvald, þ.e. heimild til setningar bráðabirgðalaga.
33307 4.5.2011 Guðrún Gísladóttir. Vantrauststillögur á sitjandi meirihluta á Alþingi – að þýskri fyrirmynd má aðeins leggja fram vantrauststillögur ef því fylgir tillaga um það sem má betur fara.
33221 1.5.2011 Gísli Baldvinsson. Hlutverk forseta – hugleiðingar um breytingar, tveir kostir í stöðunni, skerpa á núverandi hlutverki eða leggja það niður og sameina með störfum forseta þingsins.
33218 29.4.2011 Lýðræðisfélagið Alda. Forseti.
33212 29.4.2011 Lýðræðisfélagið Alda. Fjármál stjórnmálaflokka.
33207 29.4.2011 Lýðræðisfélagið Alda. Almenn kosning ráðherra.
33156 14.4.2011 Olgeir Gestsson. Lengd þingsetu. Þingmenn séu ekki ráðherrar.
33166 18.4.2011 Rene Biasoné. Heildarskipulagning stjórnarskrár. Valddreifing og ríkisvald í 4. kafla.
33147 10.4.2011 Helga Guðrún Erlingsdóttir. Úrsögn þingmanna úr flokkum, þingmenn hætti þá störfum.
33174 26.4.2011 Ólafur S. Björnsson. Forseti og varaforseti þjóðkjörnir. Kjörtími takmarkaður. Afnema framlög til stjórnmálaflokka.
33173 21.4.2011 Kristinn Þór Jakobsson. Tekjuskattsprósenta fest í stjórnarskrá.

5. Önnur mál

Samþykkt að halda áfram umræðum þar sem frá var horfið kl. 9.30, 17. maí. Skjalið: Innsend erindi - nefnd B, var sent nefndarmönnum með tölvupósti.
Tengd gögn: Tillögur B-nefndar í áfangaskjal með skýringum, sem lagðar verða fram á ráðsfundi til afgreiðslu fimmtudaginn 19. maí.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.

Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.