11. fundur stjórnar

30.05.2011 12:30

Dagskrá:
 1. Fundargerðir lagðar fram til samþykktar
 2. Fyrirkomulag vikunnar, þ.m.t. nefndafundir nk. miðvikudag
 3. Staða nefndastarfa
  - stutt yfirlit hvers formanns
  - samvinna nefnda (skörun og snertifletir málefna)
  - áfangaskjal og tillögur nefnda (skipting málefna á milli kafla)
 4. Fyrirkomulag 11. ráðsfundar og dagskrá
  - Málefni fundarins
  - Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa
 5. Önnur mál
  - Starfsáætlun
  - Aðkoma sérfræðinga

 

Fundargerð

11. fundur stjórnar - haldinn 30. maí 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C. Þá sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda A og C, nánar tiltekið Örn Bárður Jónsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Boðað var til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar og áréttað með tölvupósti 29. maí.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir lagðar fram til samþykktar

Fundargerðir 9. og 10. stjórnarfunda voru lagðar fram til samþykktar. Afgreiðslu frestað.

2. Fyrirkomulag vikunnar, þ.m.t. nefndafundir nk. miðvikudag

Rætt um fyrirkomulag vikunnar og ákveðið að nefndafundir nk. miðvikudag verði svo:

Fundur B-nefndar verður kl. 9.00-10.30.

Fundur C-nefndar verður kl. 10.30-12.00.

Fundur A-nefndar verður kl. 13.00-14.30.

3. Staða nefndastarfa

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum sem farið hefðu þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu.

Rætt var sérstaklega um samvinnu nefnda, nánar tiltekið skörun og snertifleti málefna. Samþykkt að heppilegt sé, almennt séð, að afgreiða slík mál á nefndafundum frekar en ráðsfundum.

Fjallað var um tillögur nefnda og samspil við áfangaskjal, nánar tiltekið þá kaflaskiptingu skjalsins sem ráðsfundur hefur samþykkt. Samþykkt að nefndir þurfi að huga að þessari kaflaskiptingu þegar gengið er frá tillögum. Annað hvort þá verði staðsetning einstakra ákvæða miðuð við fyrirliggjandi kaflaskiptingu eða gerðar tillögur um breytingar á henni.

4. Fyrirkomulag 11. ráðsfundar og dagskrá

Nefndir munu gera grein fyrir málefnum sínum í röðinni A, B, C. A-nefnd mun leggja fram tillögur til kynningar. B-nefnd mun leggja fram tillögur bæði til kynningar og afgreiðslu. C-nefnd gerir ráð fyrir að leggja fram tillögur til kynningar.

Ekki var gert ráð fyrir dagskrárliðnum „Stefnuræður fulltrúa", enda hafa formanni ekki borist beiðnir þar um.

Rætt um framsetningu áfangaskjals á heimasíðu Stjórnlagaráðs. Málið varð ekki útrætt og var því frestað.

Fundi frestað til kl. 12.30 næsta dag, 31. maí 2011.

_______________________________________

11. stjórnarfundur - fram haldið 31. maí 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson, varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C. Þá sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda B og C, nánar tiltekið Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerðir lagðar fram til samþykktar

Fundargerðir 9. og 10. stjórnarfunda samþykktar án athugasemda.

5. Önnur mál

Stjórn Stjórnlagaráðs óskaði eftir því við forseta Alþingis og forsætisnefnd að starfstími ráðsins yrði framlengdur um einn mánuð (júlí), sbr. þingsályktun um skipun Stjórnlagaráðs frá 24. mars 2011. Í bréfi Alþingis, dags. 26. maí 2001, kemur fram að samþykkt hafi verið að verða við þessari beiðni.

Tillaga formanns að starfsáætlun var rædd og samþykkt að leggja hana fram á næsta ráðsfundi. Þar er miðað við að starfstími standi til júlíloka, sbr. fylgiskjal með fundargerð.
Rætt var um aðkomu sérfræðinga á síðari stigum verkefnis Stjórnlagaráðs.

6. Næsti fundur

Fomaður boðar til næsta fundar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.15.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir