5. fundur B-nefndar

09.05.2011 10:00

Dagskrá:

Dagskrá 5. nefndarfundarins:

1. Fundargerð 2 og 3 lagðar fram til samþykktar.

2. Umræður um þingræði og forseta frá mið.

3. Undirstöður 1. og 2. gr.

Fundargerð

 

5. fundur B-nefndar haldinn 9. maí 2011, kl. 10.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Katrín Fjeldsted, formaður,  Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður, Pétur Gunnlaugsson, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson og Gísli Tryggvason.

Þá sat fundinn Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir og ritaði fundargerð.

Formaður nefndarinnar, Katrín Fjeldsted, setti fundinn.

1. Fundargerð 2. og 3. fundar

Fundargerð annars og þriðja fundar voru lagðar fram og samþykktar.

2. Framhald á umræðum um þingræðisfyrirkomulagið og forseta.

Nefndarmenn ræddu næstu skref í ljósi umræðna á sameiginlegum fundi hinn 4. maí síðastliðinn og á ráðsfundi 5. maí. Ef marka má þau viðhorf sem fram komu á fundunum aðhyllast ráðsfulltrúar, meira og minna, að breytingar verði gerðar innan núverandi þingræðisfyrirkomulags m.a. til að efla löggjafann. Í grófum dráttum má einnig segja að meirihluti hafi talið að forsetaembættið skyldi vera ópólitískt.

Bent var á að það liggi ljóst fyrir að yfirgnæfandi meirihluti vildi núverandi þingræðiskerfi með mismikilli þátttöku forsetans hverju sinni.

Nefndarmenn ræddu hvort ganga ætti til atkvæðagreiðslu eður ei í sambandi við að fá úr því skorið hvort kjósa eigi framkvæmdarvaldið beint eða viðhalda núverandi fyrirkomulagi. Bent var á að farsælast væri að ræða sig niður á niðurstöðu innan ráðsins án þess að fram færi atkvæðagreiðsla. Á móti því kom fram sú skoðun að ráðsfulltrúar ættu að vera óhræddir við að ganga til atkvæðagreiðslu sem er enda í takt við lýðræðislegar hefðir, að gengið sé til kosninga fyrir opnum tjöldum.

Nefndarmenn ræddu því næst vinnufyrirkomulag næstu daga og samþykkt að fá efnisumræðu upp á sameiginlegum nefndafundi og stefna að því að leggja fram tillögur fyrir næsta ráðsfund. Samþykkt var að einbeita sér að atriðum er varða eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi. Nefndarmenn töldu að eftirtalin atriði væru í meginatriðum með sambærilegum hætti, hvort heldur innan þingræðisfyrirkomulagsins eða að framkvæmdarvaldið yrði kosið beint. Engu að síður er unnið út frá þingræðisfyrirkomulagi og tillögum stjórnlaganefndar:

Efling löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi

1. Skilgreina hlutverk Alþingis m.a um eftirlit þess með framkvæmdarvaldinu
2. Auka vægi þingforseta
3. Skilgreina þingnefndir og hlutverk þeirra – styrkja stefnumótun og samningu frumvarpa
4. Ráðherra víki af þingi
5. Lögrétta/stjórnlagadómstóll
6. Þjóðaratkvæði að tillögu minnihluta þings
7. Þjóðarfrumkvæði að frumvörpum
8. Upplýsingaréttur fjárlaganefndar (og annarra nefnda)
9. Upplýsingaskylda ráðherra gagnvart þingi
10. Árleg skýrsla ríkisstjórnar til þings; skýrslur ráðherra
11. Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd kanni athafnir og ákvarðanir ráðherra
12. Rannsóknarnefndir þings einnig skipaðar utanþingsmönnum
13. Eftirlitsstofnanir þingsins
14. Skýring þingræðisreglu og form vantrausts
15. Skýrari ákvæði um Landsdóm og ráðherraábyrgð
16. Þingrof að ósk þings í stað forsætisráðherra
17. Hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við embættisveitingar
18. Vald til sveitarfélaga/héraða/fjórðunga?
19. Takmarka setutíma ráðherra
20. Þingmál falli ekki niður fyrr en við lok kjörtímabils
21. Hagsmunaskráning ráðherra/þingmanna; vanhæfi
22. Reglugerðarvald ráðherra afmarkað: Eftirlit þings með beitingu þess.

Öll ofangreind atriði voru rædd efnisleg. Þau sem fulltrúar voru sammála um voru merkt með plús og þau sem lúta að eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu voru merkt með bókstafnum e. Sum voru höfð innan sviga þar sem nokkurs ágreinings gætti.

Þá var samþykkt að Vilhjálmur, Ástrós, Erlingur og nefndarritari, Eva, tækju saman punkta um hvert atriði fyrir fund kl. 9.30 á morgun, 10. maí. Katrín, Gísli, Eiríkur og Pétur myndu ræða eftirlitshlutverk Alþingis nánar á sama tíma og í kjölfarið verður fundað sameiginlega.

Ástrós tók atriði 1-7, Eva atriði 8-14 og Vilhjálmur frá 15-22. Erlingur sá um yfirlestur og yfirferð.

3. Önnur mál

Næsti fundur verður á morgun kl. 9.30 og mun nefndin skipta sér í tvo hópa samkvæmt framansögðu.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 16.00.

Eva H. Baldursdóttir ritaði fundargerð.