7. fundur stjórnar

10.05.2011 12:30

Dagskrá:
 1. Fundargerð síðasta fundar
 2. Staða nefndarstarfa
  - Stutt yfirlit hvers formanns
 3. Starfshættir nefnda
 4. Starfsáætlun
 5. Nefndarfundir n.k. miðvikudag
 6. Fyrirkomulag og dagskrá 8. ráðsfundar og dagskrá
  - Málefni fundarins
  - Áhersluatriði og stefnumörkum tiltekinna fulltrúa
 7. Önnur mál

Fundargerð

7. fundur stjórnar - haldinn 10. maí 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Auk stjórnarfólks sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda A, B og C, nánar tiltekið Örn Bárður Jónsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.Boðað var til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar og með tölvupósti 9. maí.

Formaður setti fundinn og stýrði honum. Dagskrá var samkvæmt fundarboði.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 6. stjórnarfundar samþykkt án athugasemda.

2. Staða nefndastarfa

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum og vinnu sem farið hefði þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu. Fram kom að nefnd A gerir ráð fyrir að leggja fram til afgreiðslu á næsta ráðsfundi mannréttindaákvæði sem kynnt voru á síðasta ráðsfundi. Ekki liggur fyrir hvort nefndir B og C leggi fram tillögur á næsta ráðsfundi.

3. Starfshættir nefnda

3.1 Innsend erindi

Almenningur á greiða leið til að tjá sig við fulltrúa og taka þannig þátt í verkefni Stjórnlagaráðs, sbr. stefnu ráðsins um samráð við þjóðina. Hægt er að senda inn erindi í gegnum heimasíðu Stjórnlagaráðs og að auki með tölvupósti eða bréfi.

Farið var yfir verklag varðandi innsend erindi. Þau eru birt á heimasíðu Stjórnlagaráðs að lokinni flokkun og prófarkalestri. Á heimasíðunni geta fulltrúar og aðrir tjáð sig um hvert og eitt erindi með opinberum hætti. Að auki eru erindi lögð formlega fram á fundi nefnda(r) sem efni þeirra heyrir undir og rædd á þeim vettvangi.

Afstaða Stjórnlagaráðs til efnislegra atriða í stjórnarskrá mun koma fram í væntanlegu frumvarpi og því er ekki gert ráð fyrir að hverju og einu erindi verði svarað sérstaklega að því leyti. Svör einstakra fulltrúa, svo sem umsagnir við erindi á heimasíðu Stjórnlagaráðs, endurspegla því persónulegar skoðanir þeirra en ekki niðurstöðu Stjórnlagaráðs.

3.2 Verklag og efnistök við umfjöllun um skýrslu stjórnlaganefndar

Rætt var um verklag og efnistök nefnda í tengslum við skýrslu stjórnlaganefndar. Stjórnlagaráð er ekki bundið af efni skýrslunnar en stjórn hefur lagt á það áherslu að hægt verði að rekja skýra samræðu Stjórnlagaráðs við skýrsluna og þjóðfund, sbr. m.a. bókun í fundargerð 4. stjórnarfundar. Tekin verði afstaða til þess sem fram kemur í skýrslunni og henni haldið til haga í gögnum nefnda.

Talið var nauðsynlegt að leita til sérfræðinga, bæði höfunda skýrslunnar og annarra, um tiltekna efnisþætti. Með því móti verði annars vegar hægt að dýpka skilning á sjónarmiðum höfunda og hins vegar bregðast við rökstuddri gagnrýni annarra sérfræðinga. Umfjöllun um efni utan skýrslunnar þurfi að byggjast á sambærilegum, faglegum grundvelli og standast sömu skoðun.

Skýrt var frá tillögu Þorkels Helgasonar um að bjóða til fundar við ráðið fulltrúa Færeyinga, í þeim tilgangi að upplýsa um ferli stjórnarskrárbreytinga þar í landi sem nú er að ljúka.
Samþykkt að ræða þessi mál nánar á síðari fundi stjórnar.

4. Starfsáætlun

Fjallað var um starfs- og framvinduáætlanir nefnda og formaður gerði grein fyrir hugmyndum sínum í því sambandi. Þar er gert ráð fyrir því að nefndir tímasetji annars vegar kynningu og hins vegar afgreiðslu tiltekinna efnisþátta í hverri viku. Áætlanir hverrar nefndar verði tilbúnar fyrir næsta stjórnarfund.

5. Nefndafundir nk. miðvikudag

Á sameiginlegum nefndafundum næstkomandi miðvikudag verður gerð grein fyrir stöðu mála í hverri nefnd fyrir sig. Þar á meðal verður fjallað um afstöðu til athugasemda við áður kynntar tillögur og meginrök fyrir nýjum tillögum. Formaður hverrar nefndar fyrir sig ákveður nánari dagskrá.

Ákveðið var að fundir í nefndum A og C verði fyrir hádegi en nefnd B verði eftir hádegi og fái rýmri fundartíma.

6. Fyrirkomulag 8. ráðsfundar og dagskrá

6.1 Málefni fundarins

Farið var yfir fyrirkomulag næsta ráðsfundar. Hver nefnd mun gera grein fyrir málum sínum, bæði fyrirliggjandi tillögum og nýjum tillögum, ef einhverjar verða. Röð nefnda mun að þessu sinni verða A, B, C. Hugsanlegt er að fundinum verði fram haldið á föstudag.

6.2 Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa

Enginn ráðsfulltrúi hefur enn sem komið er gert formanni viðvart um áhuga sinn á því að ávarpa Stjórnlagaráð undir þessum dagskrárlið á næsta ráðsfundi.

7. Önnur mál

7.1 Umræða frá síðasta stjórnarfundi um tilhögun á fundum Stjórnlagaráðs

Rætt var um endurbætur sem gerðar hafa verið á uppröðun í fundarsal ráðsins og möguleika á að gera frekari lagfæringar.

7.2 Erindi frá síðasta stjórnarfundi um aðild starfsmanna að stéttarfélögum og gerð ráðningarsamninga

Framkvæmdastjóri vísaði til þess að erindinu hefði verið svarað með tölvupósti til starfsmanna 9. maí.

7.3 Umræða frá síðasta stjórnarfundi um táknmálstúlkun

Rætt var um möguleika á að táknmálstúlka útsendingar ráðsfunda. Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir kostnaði sem að því hlytist. Samþykkt var að fara að dæmi Alþingis í þessu efni og skrá jafnóðum alla framsögn á ráðsfundum. Sá texti yrði aðgengilegur á vef ráðsins. Kostnaður af þessu tagi hafi verið ráðgerður í kostnaðaráætlun og ræðuritari verði ráðinn hið fyrsta.

Silja Bára Ómarsdóttir lét færa til bókar þá afstöðu sína að táknmálstúlkun væri heppilegra fyrirkomulag.

8. Næsti fundur

Formaður mun boða til næsta fundar en gert er ráð fyrir að hann verði haldinn kl. 12.30 þriðjudaginn 17. maí.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.53.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir