7. fundur C-nefndar
10.05.2011 09:30
Dagskrá:
- Erindi sem borist hafa nefndinni
- Umræða um kafla um kosningar og alþingismenn
- Umræða um kafla um utanríkismál
- Önnur mál
7. fundur C-nefndar, haldinn 10. maí 2011, kl. 9.30–12.00 og 13.00–16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mætt voru: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Salvör Nordal og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.
1. Erindi sem borist hafa nefndinni
Rætt um að flokka erindi eftir þeim fimm efnisflokkum sem nefndin fjallar um. Fundarritari heldur saman erindum og leggur reglulega fram í nefnd. Nefndarmenn geta hins vegar svarað erindum persónulega á spjallborði hvers erindis á vefsíðu ráðsins.
2. Umræða um kafla um kosningar og alþingismenn
Talin var almenn sátt frá fyrri umræðu um einhvers konar útfærslu á persónukjöri. Rætt um hvernig koma þurfi að jafnréttissjónarmiðum í slíku kjöri, t.a.m. kynjakvóta.
Rætt um landið sem eitt kjördæmi, og að flokkar geti boðið fram fleiri en einn lista, og að kjósendur geti valið einn lista og einstök nöfn þvert á lista. Þingsætum yrði svo skipt á milli flokka í hlutfalli við landsfylgi og frambjóðendur veljast í þau sæti flokksins eftir fylgi hvers og eins. Ef einungis er valinn listi þá er það efitrlátið þeim sem raða að ráða röðuninni.
Rætt um landið sem fleiri kjördæmi t.d. fimm framboðskjördæmi og eitt landskjördæmi. Þingsætum skipt milli flokka í hlutfalli við landsfylgi en innan hvers flokks skiptast sætin eftir innbyrðis fylgi kjördæmanna og frambjóðenda.
Rætt um að nauðsynlegt sé að hafa fleiri en eitt kjördæmi og bent á að flókið kosningakerfi getur minnkað kosningaþátttöku og fjölgað ógildum seðlum. Bent á að núverandi kerfi sé flókið.
Rætt um hvaða áhrif það gæti haft á kjördæmaskipan og vægi atkvæða ef sett er inn í mannréttindakafla ákvæði um bann við mismunun vegna búsetu.
Rætt um að draga þurfi lærdóm af stjórnlagaþingskosningunni, að ekki hafi gefist vel að hafa persónukjör ef landið er eitt kjördæmi.
Rætt um tengsl kosninga við auðvald og fjölmiðla, og hvort það myndi tempra þessi tengsl að hafa mörg og lítil kjördæmi, þar sem væri meiri tenging og samvinna milli mismunandi stjórnsýslustiga, þingmanna og sveitarstjórnarmanna.
Rætt um hve ítarleg ákvæði um kosningar ættu að vera í stjórnarskrá og hverju má skipa með lögum og þá auknum meirihluta.
3. Umræða um kafla um utanríkismál
Lagt fram vinnuskjal með grein stjórnarskrár sem fjallar um samninga við önnur ríki ásamt valkostum stjórnlaganefndar A og B um utanríkismál.
Rætt um hvort eigi að vera sér kafli í stjórnarskrá um utanríkismál, og hvort eigi að vera ákvæði um framsal ríkisvalds, um samskipti framkvæmdarvalds við þingið og utaníkismálanefnd, um hvort að Ísland eigi að vera herlaust land friðar og um samband landsréttar og þjóðaréttar.
Almenn sátt um að hafa sérstakan kafla um utanríkismál, þau talin sérstaks eðlis og þurfa skýrari ramma en það eina ákvæði sem er í núgildandi stjórnarskrá.
Rætt um eineðlis- og tvíeðliskenninguna um samband lands- og þjóðaréttar, og hvort mannréttindasamningar fái aðra meðferð en aðrir þjóðréttarsamningar.
Rætt um ákvæði um framsal á fullveldi. Talin vera til óskráð meginregla um takmarkað framsal á ákveðnum sviðum, t.d. varðandi EES-samninginn. Norðmenn settu hins vegar í stjórnarskrá sína ákvæði um framsal en Ísland ekki. Samstaða var í nefndinni um að setja inn ákvæði í stjórnarskrá um framsal en áfram rætt um leiðir í því efni. Rætt um að setja bráðabirgðaákvæði um að þetta ákvæði myndi ekki hafa áhrif á ESB-ferlið sem fer eftir sér ferli og verður kosið sérstaklega um það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ákvæðið er ótengt ESB-umræðunni og nær til víðtækari atriða. Rætt um að ráðsmenn vilji almennt forðast óskrifaðar reglur og því heppilegt að setja þetta inn.
4. Önnur mál
Engin önnur mál.
5. Næsti fundur C-nefndar
Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði miðvikudaginn 11. maí kl. 11.00, en til hans yrði boðað með tilkynningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.