6. fundur C-nefndar

09.05.2011 10:00

Dagskrá:

 

  1. Fundargerðir 3.–5. fundar bornar upp til samþykktar
  2. Erindi
  3. Umræða um kafla um dómstóla
  4. Umræða um Lögréttu
  5. Umræða um kafla um kosningar og alþingismenn
  6. Önnur mál

 

Fundargerð

6. fundur C-nefndar, haldinn 9. maí 2011, kl. 10.00–12.00 og 13.00–16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

: Pawel Bartoszek, formaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, varaformaður, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason. Agnar Bragason ritaði fundargerð.

1. Fundargerðir 3.-5. fundar bornar upp til samþykktar

Engar efnislegar athugasemdir bárust og þær því samþykktar.

2. Erindi

Tekin fyrir erindi varðandi dómstóla og Lögréttu (sjá viðauka).

3. Umræða um kafla um dómstóla

Rætt um skriflegar breytingartillögur og munnlegar athugasemdir frá ráðsfundi 5. maí sl.

Rætt um tillögu Katrínar O., Vilhjálms og Þorkels um breytta röðun greina og einstök kaflaheiti um kaflann um dómstóla. Ákveðið að bíða með endurröðun ákvæða og leggja fremur áherslu á efnislega umræðu. Þó var rætt lítillega um tillögu Gísla og Þorvaldar um kafla um dómstóla um hvort heiti kaflans eigi að vera dómsvald eða dómstólar. Mikilvægt að halda samræmingu í heildartexta, þó ef til vill betra að nefna valdið í stað handhafa þess á þessum stað.

Rætt um að ákveða fjölda hæstaréttardómara í stjórnarskrá. Hins vegar talið að tillögur sem liggja fyrir um hvernig dómarar séu skipaðir tryggi málefnalegar skipanir í embætti. Einnig geta komið upp aðstæður í samfélaginu sem geta kallað á fjölgun dómara a.m.k. tímabundið.

Rætt um að taka út úr D2 samkvæmt venju eða eðli sínu. Nefndin þarf að ráðfæra sig við sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að fá svar við hvaða áhrif þetta getur haft.

Rætt um að tilgreina betur til hvaða dómstóla megi skjóta úrlausnum sérstaks dómstóls sem nú heitir Félagsdómur sbr. 2. mgr. D4. Meginreglan er samt sem áður sú að áfrýjun eða kæra fer á æðra dómstig en ekki hliðsett þannig að óþarfi er að taka fram æðri dómstóla eða annarra dómstóla. Einnig rætt um að of víðtækt sé að fela þessum dómstól öll álitaefni vinnumarkaðarins, en ekki sé ætlunin að breyta fyrirkomulagi Félagsdóms heldur tryggja það.

Rætt um að forseti skipi dómara án tillögu ráðherra sbr. 2. mgr. D5 og nefnd sammála um að halda því inni. Hins vegar var ákveðið á ráðsfundinum 5. maí að setja hornklofa um forseta Íslands, þar sem ekki er ljóst enn hvers konar hlutverki hann mun gegna sbr. vinnu nefndar B.

Rætt um að breyta orðalaginu lögskipuð í lögbundin nefnd því ætlunin var að hún verði skipuð eftir lögum en ekki með lögum.

Rætt um einsleitni dómarastéttarinnar og nauðsyn á að tryggja fjölbreytilegan bakgrunn dómara. Talið að fjölbreytileiki geti rúmast innan orðalags um málefnaleg sjónarmið, og óþarfi að telja upp öll markmið í ákvæðinu sem liggja ættu til grundvallar.

Rætt um að það þyrfti aukinn meirihluta Alþingis í stað einfalds til að staðfesta val dómara, ef ekki er farið að tillögum hæfnisnefndar. Ekki talin ástæða til breytingar. Bent á að óþarfi sé að hafa svo ítarlegt ákvæði í stjórnarskrá.

4. Umræða um Lögréttu

Rætt um skriflegar breytingartillögur og munnlegar athugasemdir frá ráðsfundi 5. maí sl.

Rætt um tillögu Silju Báru um skipun Lögréttu. Ekki var talið að tiltekin menntun geti útilokað einstaklinga frá setu í opinberu ráði. Bent á að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er talið að ekki hafi verið leitað til né hlustað nægilega á sérfræðinga á viðkomandi sviðum og það hafi haft neikvæð áhrif á þróunina. Það er mikilvægt að þeir sem veljist til setu í Lögréttu hafi yfir að ráða þekkingu á stjórnlögum. Drög nefndarinnar útiloka þó alls ekki að ólöglærðir geti verið skipaðir. Einnig er gert ráð fyrir að nánar skuli kveðið á um Lögréttu í lögum og er þar hægt að útfæra nánar mat á þessu.

Rætt um að fela Lögréttu fleiri verkefni en gert er ráð fyrir í tillögum stjórnlaganefndar, sbr. hugmyndir Eiríks Tómassonar á bls. 318 í skýrslu stjórnlaganefndar (fyrra bindi), t.a.m. varðandi úrskurð um kosningar og kjörgengi, mat á athöfnum og athafnaleysi stjórnvalda og bindandi álit um mat á stjórnskipulegu gildi frumvarpa við löggjafarstarf Alþingis. Stjórnlaganefndin ákvað í tillögum sínum að ganga skemur en tillaga Eiríks. Var talið nauðsynlegt að hafa frekari umræður um aukið hlutverk Lögréttu. Lagt til að óska eftir upplýsingum frá ritara stjórnlaganefndar fyrir sameiginlegan nefndafund til að heyra hverjar hafi verið meginástæður þess að ekki var gengið lengra með verksvið Lögréttu/stjórnlagaráðs.

5. Umræða um kafla um kosningar og alþingismenn

Kallað eftir umræðum um markmið (sbr. 3. fundargerð nefndar C) áður en farið er í nákvæmar útfærslur. Nefndin tiltölulega sammála um þau markmið. Dreift vinnuskjali með ákvæðum stjórnarskrár og valkostum A og B hjá stjórnlaganefnd um kosningar til Alþingis. Rætt um að nauðsynlegt sé að skoða einnig leiðir og bera þær saman við markmiðin sem sett hafa verið fram.

Rætt um mikilvægi þess að treysta beint samband kjósenda við þingmenn og auka ábyrgð, með því að koma í veg fyrir að þingmenn séu „hálf-sjálfkjörnir" á þing vegna þess að þeir sitja á lista stjórnmálaflokks. Hins vegar er mikilvægt að hafa flokka en verður að gefa kjósendum meira val á einstökum frambjóðendum. Tryggja verður hæft fólk á Alþingi og að kjósendur hafi meiri aðkomu að því hverjir setjist á þing.

Farið yfir mismunandi hugmyndir um persónukjör, þar sem einstaklingar bjóða sig fram, þar sem persónukjör fer fram innan flokka/lista, og loks blandaða leið þar sem hægt er að kjósa lista en einnig velja einstaka frambjóðendur þvert á lista. Þetta gæti átt við hvort sem landið yrði eitt eða fleiri kjördæmi.

Nefndin almennt hlynnt auknu persónukjöri en ekki sammála um hve langt eigi að ganga, hvort það eigi að vera innan lista eða þvert á lista eða með blönduðu sniði. Einnig rætt um að ekki þyrfti að raða inn á allan listann, heldur einungis tilteknum fjölda í efstu sætin.

Rætt um landið sem eitt kjördæmi og kosti þess að flokkar gætu boðið fram fleiri en einn lista. Einnig rætt um landið sem nokkur kjördæmi með jöfnunarsætum eins og núverandi fyrirkomulag byggist á. Þá var rætt um landið sem blöndu af einmenningskjördæmum og landskjöri sbr. valkost B í skýrslu stjórnlaganefndar. Loks var rætt um hugmyndir um landið sem skilgreind framboðskjördæmi sem hluta af landskjöri þannig að kjördæmin ráða hvaða einstaklingar innan flokka raðast á þing en landsprósenta flokksins ræður þingmannafjölda.

Rætt um 5% þröskuldinn og hvort hann sé nauðsynlegur og af hverju 5%. Langflest Vesturlönd hafa þröskuld í sínu kosningakerfi, en 5% er í hærra lagi (2% í Danmörku og 4% í Noregi). Spurningin er hve smáir flokkar eiga að ná á þing og er rétt að atkvæði greidd smáframboðum falli niður nái þau ekki þröskuldinum. Gæti orðið erfitt að mynda ríkisstjórn ef margir smáflokkar ná inn og hafa því óeðlilega mikil áhrif. Almennt talið að 5% þröskuldur sé í hærra lagi, réttlætanlegt að lækka þröskuldinn í 3-4%.

6. Önnur mál

Engin önnur mál.

7. Næsti fundur C-nefndar

Ákveðið var að næsti fundur í C-nefnd yrði skv. dagskrá, þriðjudaginn 10. maí kl. 9.30, en til hans yrði boðað með tilkynningu.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.

Viðauki

33422 Bergsveinn Guðmundsson.

33175 Hafsteinn Sigurbjörnsson.

33176 Hafsteinn Sigurbjörnsson.

33310 Nils Gíslason.

33268 Friðrik Ólafsson.

33206 Kristinn Már Ársælsson.