6. fundur A-nefndar
09.05.2011 10:00
Dagskrá:
- Fundargerðir síðustu funda bornar upp.
- Umræður um mannréttindakafla á ráðsfundi 6. maí.
- Vinnuskjal um mannréttindi, vinnu haldið áfram.
- Önnur mál.
6. fundur A-nefndar, haldinn mánudaginn 9. maí 2011 kl. 10.00-12.00 og 13.00-16.00.
Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir (til kl. 12.00), Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.
Salvör Nordal sat fundinn kl. 13.30-14.30. Gísli Tryggvason sat fundinn kl. 15.00-16.00.
1. Fundargerðir síðustu funda bornar upp
Fundargerðir 3., 4. og 5. fundar voru lagðar fram og samþykktar.
2. Umræður um mannréttindakafla á ráðsfundi 6. maí 2011
Nefndin ræddi þau sjónarmið sem fram komu á 7. fundi Stjórnlagaráðs, þar sem fyrstu tillögur að mannréttindakafla voru lagðar fram til kynningar. Töldu nefndarmenn umræðurnar sýna hversu gott það geti verið að fara heilsteypt í gegnum tillögurnar, endurskoða þær og betrumbæta. Var ákveðið að skoða textann með hliðsjón af framkomnum athugasemdum, þannig að ný útgáfa ákvæðanna verði lögð fyrir næsta ráðsfund, til afgreiðslu inn í áfangaskjalið.
3. Vinnuskjal um mannréttindi
Nefndin fór yfir greinarnar sem kynntar voru Stjórnlagaráði á síðasta ráðsfundi. Var tekið tillit til helstu sjónarmiða sem þar komu fram, auk þess sem litið var til umræðu sem varð við kaflann í áfangaskjalinu á vefsíðu ráðsins. Jafnframt voru aðsend erindi skoðuð, en tvö þeirra sneru að svokallaðri barnagrein tillagnanna.
Uppröðun kaflans var breytt, þannig að í stað 11 greina verða 14 greinar lagðar fram til afgreiðslu inn í áfangaskjalið á næsta fundi ráðsins. Þær greinar verða í grófum dráttum efnislega samhljóða því sem áður var kynnt, skýrist fjölgun greina af því að nefndin tók undir með sjónarmiðum sem fram komu á ráðsfundi, að með þessu næðist skýrari framsetning á efninu.
Undir lok fundar hóf nefndin að vinna með greinar sem ekki voru lagðar fram til kynningar á síðasta ráðsfundi. Verður þeirri vinnu framhaldið á næsta fundi nefndarinnar.
4. Önnur mál
Engin rædd.
Eftirtalin erindi voru kynnt og rædd á fundinum:
- 33335 Þorsteinn V. Baldvinsson: Réttur til samveru og samvista
- 33339 Unicef: Réttindi barna, breytingartillaga
Eftirfarandi breytingartillögur ráðsfulltrúa voru ræddar á fundinum:
- Íris Lind Sæmundsdóttir: Tillögur við ýmsar greinar kaflans.
- Ómar Þorfinnur Ragnarsson: Tillaga að viðbót við barnagrein.