6. fundur stjórnar
03.05.2011 12:30
Dagskrá:
- Fundargerð síðasta fundar
- Staða nefndarstarfa
- Stutt yfirlit hvers formanns - Starfs- og framvinduáætlanir
- Hugsanlegt form áætlana - "Opnir" nefndafundir á miðvikudögum
- Staðsetning
- Fundaformið (almenn umræða um rædd málefni - helstu álitamál) - Áfangaskjalið - tæknileg útfærsla
- Fyrirkomulag 7. ráðsfundar og dagskrá
- Framsetning mála á fundinum
- Áhersluatriði og stefnumörkum tiltekinna fulltrúa - Önnur mál
- Birting skjala
- Erindi um aðild starfsmanna að stéttarfélögum og gerð ráðningarsamninga
- Aðgengi fatlaðra
6. fundur stjórnar - haldinn 3. maí 2011, kl. 12.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.
Mætt voru: Ari Teitsson varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B, og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C. Forföll hafði boðað Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs.
Auk stjórnarfólks sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda A, B og C, nánar tiltekið Örn Bárður Jónsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.
Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.
Formaður boðaði til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar, nánar tiltekið 26. apríl, og sú fundarboðun var ítrekuð með tölvupósti 2. maí.
Varaformaður setti fundinn og stýrði honum. Dagskrá var samkvæmt fundarboði.
1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerðir 4. og 5. stjórnarfundar samþykktar án athugasemda.
2. Staða nefndastarfa
2.1 Stutt yfirlit hvers formanns
Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum og vinnu sem farið hefði þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu. Fram kom að nefndir A og C geri ráð fyrir að leggja fram nýjar tillögur til kynningar á næsta ráðsfundi. Auk þess munu þá koma til afgreiðslu þær tillögur sömu nefnda sem lagðar voru fram til kynningar á síðasta ráðsfundi. Nefnd B telur nauðsynlegt að tiltekin atriði verði rædd í stærra hópi en á nefndarfundi áður en sett verði fram tillaga.
3. Starfs- og framvinduáætlanir
3.1 Hugsanlegt form áætlana
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir formi fyrir starfs- og framvinduáætlanir nefnda. Farið var yfir þau og gerðar nokkrar athugasemdir. Samþykkt að drögin verði send til umfjöllunar í nefndum og komi að því loknu aftur til stjórnar. Í þessu sambandi þurfi að hafa í huga tvískiptingu starfstímans, þ.e. annars vegar undirbúningsvinnu og hins vegar vinnu við eiginlegt frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
4. „Opnir" nefndafundir á miðvikudögum
4.1 Staðsetning
Samkvæmt vikuskipulagi Stjórnlagaráðs hafa nefndafundir á miðvikudögum þá sérstöðu að þeir fara ekki fram samtímis, líkt og á mánudögum og þriðjudögum. Tilgangurinn með miðvikudagsfundunum er að opna starf hverrar nefndar fyrir öðrum fulltrúum en þeim sem þar eiga sæti.
Að því er varðar staðsetningu þessara funda á morgun var samþykkt að miða við sömu sali og nefndir hafa fundað í hingað til, enda verði þar rúm fyrir alla fundarmenn. Fundir morgundagsins verða opnir öllum ráðsfulltrúum en ekki almenningi.
4.2 Fundarformið (almenn umræða um rædd málefni - helstu álitamál)
Gerð verður grein fyrir stöðu mála í hverri nefnd fyrir sig. Þar á meðal verður fjallað um afstöðu til athugasemda við áður kynntar tillögur og meginrök fyrir nýjum tillögum. Formaður hverrar nefndar fyrir sig ákveður nánari dagskrá.
5. Áfangaskjalið - tæknileg útfærsla
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir tæknilegri útfærslu við birtingu áfangaskjals. Gerðar voru nokkrar athugasemdir sem komið verður á framfæri við tæknistjóra.
6. Fyrirkomulag 7. ráðsfundar og dagskrá
6.1 Framsetning mála á fundinum
Farið var yfir fyrirkomulag næsta ráðsfundar. Hver nefnd mun gera grein fyrir málum sínum, bæði nýjum og eldri tillögum. Röð nefnda mun að þessu sinni verða B, C, A. Hugsanlegt er að fundinum verði fram haldið á föstudag.
6.2 Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa
Tveir ráðsfulltrúar hafa gert formanni viðvart um áhuga sinn á því að ávarpa Stjórnlagaráð undir þessum dagskrárlið.
7. Önnur mál
7.1 Birting skjala
Samþykkt var að dagskrá stjórnarfunda verði birt á innra neti Stjórnlagaráðs um leið og hún liggur fyrir, að morgni fundardags eða daginn áður.
Sama máli gegni um dagskrár nefndafunda. Þegar nefndafundir eru opnir almenningi fer um birtingu dagskrár eftir 9. gr. starfsreglna. Fundarboð og dagskrá skal þá birta á vef ráðsins eigi síðar en daginn fyrir fund.
Um birtingu á dagskrá ráðsfunda er fjallað í starfsreglum, sbr. 6. gr. Svo sem þar segir skal boða til ráðsfundar með dagskrá í tölvupósti eigi síðar en daginn fyrir fund og dagskrá skal vera aðgengileg á vef Stjórnlagaráðs.
Fundargerðir stjórnarfunda verði fyrst sendar fundarmönnum og frestur gefinn til athugasemda. Miðað verði við tvo daga í því sambandi. Að svo búnu verði fundargerðir birtar á innra neti, sem drög. Birting á ytra neti fylgi síðan strax í kjölfarið á því að fundargerð hafi fengið samþykki næsta fundar.
Sama máli gegni um fundargerðir nefndafunda. Birting á ytra neti fylgi síðan strax í kjölfarið á því að fundargerð hafi fengið samþykki næsta fundar.
Um fundargerðir ráðsfunda fari með sama hætti, en í 2. mgr. 6. gr. starfsreglna er heimild til að birta drög þeirra á ytra vef, eftir að fulltrúar hafa haft ráðrúm til að gera athugasemdir.
Samþykkt að erindi verði birt á ytra vef um leið og unnt er og ekki nauðsynlegt að það hafi verið lagt formlega fram á fundi áður.
7.2 Erindi um aðild starfsmanna að stéttarfélögum og gerð ráðningarsamninga
Erindi til stjórnar frá starfsmanni Stjórnlagaráðs, dagsett og móttekið 3. maí 2011, lagt fram. Erindið varðar aðild starfsmanna að stéttarfélögum og gerð ráðningarsamninga. Samþykkt að afgreiðsla þess bíði komu formanns. Að því er varðar drátt á gerð ráðningarsamninga við starfsmenn Stjórnlagaráðs kom fram sú skýring framkvæmdastjóra að borist hefðu ráðningarsamningar sem starfsfólk Alþingis hefði útbúið. Þá hefði þurft að endursenda til að gerðar yrðu á þeim tilteknar lagfæringar. Viðkomandi starfsmaður Alþingis væri erlendis og af því stafaði sú töf sem orðið hefði á málinu.
7.3 Aðgengi fatlaðra
Rætt um aðgengi fatlaðra að áheyrendapöllum, þar á meðal rampa fyrir hjólastóla. Slíkir rampar eru til og umsjónarmenn annast þá. Jafnframt var rætt um táknmálstúlkun fyrir ráðsfundi og fram kom að unnið er að því máli.
8. Næsti fundur
Formaður mun boða til næsta fundar en gert er ráð fyrir að hann verði haldinn þriðjudaginn 10. maí.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13.40.
Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir