4. fundur stjórnar

20.04.2011 09:30

Dagskrá:
 1. Fundargerð síðasta fundar
 2. Niðurstaða um skiptingu mála á milli nefnda
 3. Starfsáætlun næstu viku
 4. Starfsáætlun hefðbundinnar viku
 5. Fyrirkomulag komandi ráðsfunda
 6. Dagskrá næsta ráðsfundar
 7. Tækniumgjörð
 8. Næsti stjórnarfundur

 

 

Fundargerð

4. fundur stjórnar - haldinn 20. apríl 2011, kl. 9.30, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Auk þeirra sátu fundinn varaformenn verkefnanefnda, nánar tiltekið Örn Bárður Jónsson (A), Vilhjálmur Þorsteinsson (B) og Íris Lind Sæmundsdóttir (C).

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Formaður boðaði til fundarins í lok ráðsfundar í gær og sú fundarboðun var ítrekuð með tölvupósti síðar sama dag.

Formaður setti fundinn, þann fyrsta með fullskipaðri stjórn.

Á 5. fundi Stjórnlagaráðs, í gær 19. apríl, var samþykkt tillaga stjórnar um þrjár verkefnanefndir og tiltekna verkaskiptingu þeirra á milli. Auk þess voru kosnir formenn og varaformenn umræddra nefnda. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. starfsreglna Stjórnlagaráðs sitja formenn verkefnanefnda í stjórn ráðsins ásamt formanni þess og varaformanni. Varaformenn verkefnanefnda eru staðgenglar formanna í stjórn. Formaður Stjórnlagaráðs er formaður stjórnar.

Til viðbótar við framangreint lýsti stjórnarfólk þeirri afstöðu sinni að heppilegt væri að varaformenn verkefnanefnda sætu mikilvæga fundi stjórnar og fengju fundargerðir þeirra allra.

Meginverkefni stjórnar eru eftirtalin, sbr. starfsreglur Stjórnlagaráðs:

i. Skipuleggja og stýra starfinu, skv. þingsályktun og starfsreglum (2. mgr. 3. gr.)

ii. Leggja fyrir ráðsfund:

 • Starfsáætlun - endurskoða hana reglulega eftir því sem verkinu vindur fram (2. mgr. 3. gr.)
 • Tillögu um upphafsmeðferð skýrslu stjórnlaganefndar á ráðsfundi (13. gr.)
 • Tillögur um hvort og hvernig unnt sé að leita enn frekar eftir afstöðu þjóðarinnar til valkosta að því er varðar einstök ákvæði/kafla frumvarps til stjórnarskipunarlaga (4. mgr. 14. gr.)
 • Drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga á grundvelli áfangaskjals þegar undirbúningi þess er lokið (1. mgr. 15. gr.)

iii. Skipta verkum:

 • Getur skipað starfshópa til tiltekinna verka (3. mgr. 4. gr.)
 • Hefur hlutverk varðandi (breytta) skipan nefnda (2. mgr. 5. gr.)

iv. Setja reglur/viðmiðanir um:

 • Fundarsköp (4. mgr. 6. gr.)
 • Aðgang almennings að fundum (9. gr.)
 • Erindi, umsagnir og fundargesti (10. gr.)

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 3. stjórnarfundar lögð fram. Engar athugasemdir komu fram og taldist hún samþykkt.

2. Niðurstaða um skiptingu fulltrúa á milli nefnda

Fulltrúar hafa valið sér verkefnanefndir til að starfa í og fyrir liggur að jafn margir sitja í hverri nefnd. Skipan verkefnanefnda var svo sem hér segir:

Nefnd A: Silja Bára Ómarsdóttir formaður, Örn Bárður Jónsson varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason.

Nefnd B: Katrín Fjeldsted formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson varaformaður, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Gísli Tryggvason, Pétur Gunnlaugsson og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Nefnd C: Pawel Bartoszek formaður, Íris Lind Sæmundsdóttir varaformaður, Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Guðmundur Gunnarsson, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Þorkell Helgason.

Nefndaritarar verða Andrés Ingi Jónsson (A), Eva Baldursdóttir (B) og Agnar Bragi Bragason (C).

Samþykkt að fulltrúum verði gerð grein fyrir niðurstöðu um skiptingu fulltrúa á milli verkefnanefnda.

3. Starfsáætlun næstu viku

Rætt var um skipulag 17. viku, að loknu páskafríi, nánar tiltekið vinnudagana 26.-29. apríl.

Ákveðið að þriðjudaginn 26. apríl og miðvikudaginn 27. apríl verði fundir í verkefnanefndum A, B og C. Fimmtudaginn 28. apríl verði sameiginlegur nefndarfundur fyrir hádegi og ráðsfundur eftir hádegi, sá sjötti í röðinni. Ráðsfundi verði hugsanlega fram haldið föstudaginn 29. apríl. Sjá nánar í dagskráráætlun vikunnar.

Rætt var um efnistök á fundum verkefnanefnda í næstu viku. Formaður vísaði til 13. gr. starfsreglna í þessu sambandi. Þar er kveðið á um að stjórn skuli leggja fram tillögu um upphafsmeðferð skýrslu stjórnlaganefndar á ráðsfundi. Samþykkt síðasta ráðsfundar á tillögu stjórnar um skiptingu málefna á milli verkefnanefnda hafi falið í sér þátt í þeirri upphafsmeðferð sem 13. gr. kveði á um. Fullskipuð stjórn þurfi síðan að klára verkið.

Fundarmenn voru sammála um þessa nálgun gagnvart 13. gr. og að nefndir muni í næstu viku leggja áherslu á efnislega umfjöllun um skýrslu stjórnlaganefndar. Einstökum köflum skýrslunnar hafi með þessum hætti verið vísað til nefnda. Þar verði unnið með efni úr skýrslunni, afstaða tekin til þess og henni haldið til haga í gögnum nefnda. Þannig verði hægt að rekja skýra samræðu Stjórnlagaráðs við skýrsluna og þjóðfund. Jafnframt verði til dæmis mögulegt að taka síðar sérstaka umræðu í ráðinu um skýrslu stjórnlaganefndar.

Til hægðarauka munu nefndarritarar setja upp yfirlit yfir þá kafla skýrslunnar og niðurstöður þjóðfundar sem heyra undir hverja nefnd fyrir sig.

Á grundvelli framangreinds muni formenn nefnda ákveða nánar dagskrá fyrir fundi nefnda í næstu viku.

4. Starfsáætlun hefðbundinnar viku

Rætt var um skipulag hefðbundinnar vinnuviku Stjórnlagaráðs og samþykkt að gera ráð fyrir eftirfarandi vinnutilhögun:

Á mánudögum og þriðjudögum verði fundir í nefndum A, B og C haldnir samtímis. Þannig er gert ráð fyrir því að fulltrúar sæki fund þeirrar nefndar sem þeir eiga sæti í. Vikulegur stjórnarfundur verði einnig haldinn á þriðjudögum, að loknum nefndarfundum.

Á miðvikudögum verði fundir í nefndum A, B og C haldnir hver á eftir öðrum og því mögulegt að fulltrúar sæki einnig fundi í öðrum nefndum en þeir eiga sæti í.

Á fimmtudögum verði sameiginlegur nefndarfundur fyrir hádegi og vikulegur ráðsfundur eftir hádegi.

Á föstudögum verði unnt að fram halda ráðsfundi frá því deginum áður, gerist þess þörf. Einnig gæfist þá ráðrúm fyrir málstofur eða fundi af öðru tagi.

Hvern framangreindra vinnudaga er einnig gert ráð fyrir svokölluðum fulltrúatíma, þ.e. tíma til undirbúnings og frágangs. Sjá nánar í dagskráráætlun hefðbundinnar vinnuviku Stjórnlagaráðs.

Framkvæmdastjóri vekur athygli á föstum vinnutíma starfsmanna Stjórnlagaráðs, frá 9.00 til 17.00. Ekki sé greitt fyrir yfirvinnu og því takmörk fyrir vinnu starfsmanna á kvöldin og um helgar.

5. Fyrirkomulag komandi ráðsfunda

Rætt var um nauðsyn þess að formenn eða aðrir fulltrúar nefnda geri grein fyrir umræðum um skýrslu stjórnlaganefndar. Í fundarboði komi fram hvaða atriði það eru sem hver nefnd hefur lagt áherslu á. Hver nefnd fái að minnsta kosti klukkustund og í lokin verði gefinn kostur á almennum umræðum. Heppilegt sé að á þessu stigi reyni menn að einbeita sér að gildum. Í framhaldi af því, á síðari stigum, verði fjallað um markmið og loks leiðir að þeim.

Með þessu móti muni ráðsfundir á næstunni annars vegar fjalla um einstök málefni nefnda og hins vegar gefa fulltrúum tækifæri til að gera grein fyrir áhersluatriðum sínum á víðari grundvelli. Tímans vegna verði að skipta hinu síðarnefnda niður á næstu fundi, í lok fundar hverju sinni. Fulltrúar þurfa að setja fram óskir sínar um að komast á mælendaskrá við slíkt tækifæri með góðum fyrirvara.

Rætt var um fyrirkomulag og sætauppröðun á ráðsfundum. Fram kemur að í næstu viku verði kannaðir möguleikar á að koma til móts við gagnrýni sem fram hefur komið á uppröðun sæta. Jafnframt verði hugað að möguleikum á að nýta skjá salarins til að varpa upp fleiru en mælendaskrá, svo sem mynd af ræðumanni hverju sinni. Þá þurfi ræðumenn að hafa í huga að þeir sem fylgjast með vefútsendingu kunna að þurfa frekari útskýringar en fulltrúar í sal.

Samþykkt að setja þurfi upp drög að reglum um móttöku gesta, svo sem erindreka samtaka af ýmsu tagi sem sóst hafa eftir slíkum fundum. SG falið að vinna slík drög.

6. Dagskrá næsta ráðsfundar

Gert ráð fyrir að dagskrá 6. ráðsfundar gæti verið svo sem hér segir:

1. Fundargerðir 3. og 4. ráðsfundar bornar upp til samþykktar og fundargerð 5. ráðsfundar lögð fram til kynningar

2. Fulltrúar nefnda gera grein fyrir áhersluatriðum

3. Tillögur um breytingar á áfangaskjali

4. Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa

5. Næsti fundur Stjórnlagaráðs

Dagskrá verður endanlega ákveðin á næsta fundi stjórnar, þriðjudaginn 26. apríl.

7. Tækniumgjörð

Finnur Pálmi Magnússon, tæknistjóri Stjórnlagaráðs, gerði grein fyrir innra neti, vinnslu áfangaskjals og fleiri tæknilegum atriðum. Sett verða upp drög að reglum fyrir umræður á vefnum í þessu sambandi, bæði varðandi erindi til ráðsins og svokallað áfangaskjal.

Fundarmenn sammála um að sífellt þurfi að leitast við að efla umræðu, virkja sem flesta og hafa jákvæðni að leiðarljósi. Nefndarritarar vinni úr athugasemdum fyrir þá fulltrúa sem eftir slíku óska.

8. Næsti stjórnarfundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn þriðjudaginn 26. apríl, kl. 16.00, eða að loknum fundum nefnda. Varaformenn velkomnir en meti sjálfir hvort þeir telji þörf á að mæta

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.35.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.