2. fundur stjórnar

14.04.2011 16:00

Dagskrá:
  1. Skipulag næstu þrjá vinnudaga
  2. Skipulag næstu viku
  3. Skipulag eftir páskafrí

 

Fundargerð

2. fundur stjórnar - haldinn 14. apríl 2011, kl. 16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal formaður og Ari Teitsson varaformaður. Auk þeirra sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Formaður setti fundinn.

1. Skipulag næstu þrjá vinnudaga

Á ráðsfundi fyrr í dag var dregið í þrjá óformlega starfshópa (A, B og C) sem starfa munu næstu þrjá vinnudaga, nánar tiltekið föstudaginn 15. apríl, mánudaginn 18. apríl og þriðjudaginn 19. apríl, fyrir hádegi alla dagana. Starfshóparnir skipti með sér þeim málefnum sem talin eru upp í ályktun Alþingis um skipun Stjórnlagaráðs, frá 24. mars 2011, að viðbættum mannréttindum.

Fulltrúum verði strax sendur tölvupóstur um fyrirkomulagið og í því sambandi vakin sérstök athygli á þeim köflum í skýrslu stjórnlaganefndar sem fjalla um málefni viðkomandi starfshóps. Nefndasviði (SG) falið að sjá um þetta.

Starfsmenn Stjórnlagaráðs sjái um að rita fundargerðir fyrir starfshópana.

2. Skipulag næstu viku

Stjórn taldi æskilegt að á ráðsfundi næstkomandi þriðjudag verði tekin ákvörðun um fjölda nefnda og skiptingu málefna þeirra á milli. Á fundinum verði hægt að bæta inn málefnum, svo sem úr skýrslu stjórnlaganefndar. Á ráðsfundi í dag kom fram tillaga um tölu verkefnanefnda og skiptingu málefna með þeim en tillögunni var frestað til þriðjudagsins.

Á þriðjudag verða jafnframt kosnir formenn og varaformenn og að því búnu ákveðið hvaða fulltrúar sitji í hverri nefnd. Óskað verður eftir framboðum og tilnefningum.

Dagskrá ráðsfundar á þriðjudag verði send út fyrir hádegi á mánudag. Nefndasvið sjái um það.

Stjórn taldi heppilegt að sett yrði upp yfirlit yfir þær tillögur að fjölda nefnda og skiptingu málefna sem uppi hafa verið. Verkinu var vísað til nefndasviðs.

Þá óskaði stjórn eftir því að ræðutími fulltrúa verði tímamældur, enda findist heppileg tæknilausn á því atriði.

Markmiðið væri að stjórn yrði fullmönnuð á þriðjudag og á miðvikudag haldinn stjórnarfundur. Þar yrði gerð starfsáætlun fyrir fyrstu vikuna eftir páska.

3. Skipulag eftir páskafrí

Æskilegt væri að efnisleg umfjöllun gæti hafist af fullum krafti eftir páska. Hver nefnd fjalli um málefnasvið sitt, geri vinnumat og forgangsraði. Fimmtudag eða föstudag í þeirri viku gæti hver nefnd talað fyrir einu máli á ráðsfundi, á grundvelli undirbúnings á þriðjudag og miðvikudag. Skýrsla stjórnlaganefndar kæmi öll til umfjöllunar með þessum hætti. Nefndasviði falið að undirbúa tillögu í þessa veru, til að leggja fyrir fullskipaða stjórn.

Nefndasviði falið að athuga útfærslu á skoðanakönnun, til að undirbúa verkaskiptingu nefnda.

4. Næsti fundur

Næsti fundur boðaður mánudaginn 18. apríl.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.15.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir